13.01.1988
Neðri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3968 í B-deild Alþingistíðinda. (2768)

Frumvarp um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Um miðjan desember lagði ég fram í hv. deild frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár á þskj. 279. Ég óskaði eftir því við forseta deildarinnar að fá að mæla fyrir málinu þegar jólahrotan í afgreiðslu mála væri um garð gengin. Tók hann því vel.

Segja má að nú séu flest mál ríkisstjórnarinnar afgreidd og komið er að þinghléi. Þá bregður svo við að ekki er hægt að verða við sanngjörnum tilmælum sem áður höfðu verið samþykkt. Stjórn þingsins hefur að undanförnu farið nokkuð úr böndunum svo sem kunnugt er án þess að meira sé sagt. Þrátt fyrir það hefði nú mátt eyða eins og einum degi fyrir hlé í mál frá óbreyttum þm. Mér er hins vegar ljóst að það þýðir ekki að della við dómarann.

Að öðru leyti vildi ég bæta við örfáum orðum. Það mál sem frv. mitt snýst um hefur þó verið og er mikið á dagskrá í þjóðmálaumræðunni þessar vikurnar. Ekki liggja fyrir, hvorki frá ríkisstjórn né stjórnarandstöðu, neinar tillögur til að taka á þeirri meinsemd, lánskjaravísitölunni — (Forseti: Athygli hv. ræðumanns er vakin á því að hér er aðeins heimilt að tala um þingsköp). — ég er senn að ljúka máli mínu — sem hrint var af stað 1979 og allir flokkar bera ábyrgð á, ásamt öllu því vaxtafári sem fylgt hefur í kjölfarið. Nægir að benda á dæmi eins og þegar lánskjaravísitalan hækkaði á einu ári, 1982–1983, um 96%, á sl. ári um 23% og frá í desember 1986 og til desember 1987 hækkuðu vextir um 113%. (Gripið fram í.) Ég harma að hafa ekki fengið að taka þetta mál til umræðu hér.