13.01.1988
Neðri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3969 í B-deild Alþingistíðinda. (2769)

Frumvarp um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga

Forseti (Jón Kristjánsson):

Vegna orða hv. 3. þm. Suðurl. skal það tekið fram varðandi meðferð mála hér í hv. Alþingi að eins og þm. hefur verið kunnugt er þinghaldið milli jóla og nýárs og eftir áramót á afbrigðilegum tíma. Þessi tími hefur verið notaður til þess að ræða vandlega hin stórpólitísku deilumál sem uppi hafa verið og þau stjfrv. sem allir hv. þingdeildarmenn þekkja. Tíminn hefur farið í þessa umræðu og hef ég fengið bæði þingskapaumræðu og ábendingar um það persónulega frá hv. þingdeildarmönnum að ég hafi farið á fremstu nöf í fundahaldi hvað tíma snertir. Þetta mál sem hér um ræðir er ekki það fyrsta í röðinni hvað þmfrv. snertir. Á undan því eru tvö önnur þmfrv. Hins vegar vil ég lýsa því yfir að að sjálfsögðu verður þetta frv. tekið fyrir strax og þing kemur saman aftur. Það ætti að koma til umræðu á fyrstu dögum þings sem væntanlega kemur saman aftur 1. febr. eftir hlé.

Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umræðu vegna þess að við höfum haldið okkur við það og það hefur verið í stjórn þingsins almennt að ekki hefur verið fundað í Ed. meðan við höfum afgreitt þessi stóru mál þannig að ekki hafa verið tekin fyrir nein önnur frumvörp en þau stjórnarfrv. sem eru í fanginu á mönnum og hefur verið eitt látið yfir alla ganga í þessu efni.