13.01.1988
Neðri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3970 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

Frumvarp um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Nú hefur komið að því sem við í stjórnarandstöðu höfum haldið fram, að hinn illi málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar hefur verið dreginn til baka og á nú að skoða hann betur. En ég vil í þessu sambandi firra mig ábyrgð á því að sveitarfélögin skuli verða að bíða eftir afgreiðslu þeirra mála eða bíða ekki. Það hefði verið mikilvægt, ef ríkisstjórnin á annað borð ætlaði að nauðga þessu máli í gegn eins og fleirum, að frv. um verkaskiptinguna hefði verið afgreitt þannig að sveitarstjórnir hefðu getað unnið samkvæmt þeim lögum, en nú bíða sveitarstjórnarmenn og vita ekki hvernig þetta verður. Það hefði því verið æskilegt að við hefðum afgreitt þessi lög núna og við hefðum verið tilbúnir í það hér í stjórnarandstöðu, en svo hefur ekki orðið, þannig að nú verður þetta afgreitt miklu seinna og hefði þá verið gott að eitthvað lægi fyrir frekar um þinghald eftir hlé. Og við vildum gjarnan að þá yrði tekið dálítið upp af þingmannamálum eins og hv. 3. þm. Suðurl. kom hér inn á og að þingstörfin gengju þá eðlilega fyrir sig.