13.01.1988
Efri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3973 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. gat um kom fjh.- og viðskn. saman og fjallaði um þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. þessu frá því að það fór frá Ed. Meiri hl. nefndarinnar hefur gert grein fyrir sínu áliti, sem sé því að hann leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum. Minni hl. ræddi það í nefndinni hvort meiri hl. væri tilbúinn til að fallast á að frv. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem allar efnahagsforsendur væru ýmist óljósar eða brostnar. Meiri hl. taldi ekki ástæðu til að fallast á þessa ábendingu minni hl. og fór því sínu fram svo sem við var að búast út af fyrir sig. En afstaða minni hl. hefur verið sú að þetta mál sé illa undirbúið og forsendur þess allar svo veikar að í rauninni væri eðlilegast að vísa því til ríkisstjórnarinnar. Með þessu hef ég, herra forseti, gert grein fyrir nál. minni hl. hv. fjh.- og viðskn., munnlegu nál., við 7. umr. um málið hér í hv. deild.

Ég ætlaði aðeins, herra forseti, að víkja að nokkrum brtt. sem minni hl. flytur. Þær lúta að fjárhag Ríkisútvarpsins, þær lúta að fjárhag Framkvæmdasjóðs fatlaðra og fleiri þáttum. En ég ætlaði sérstaklega að gera grein fyrir brtt. 512 frá Svavari Gestssyni, Guðrúnu Agnarsdóttur og Guðmundi Ágústssyni, en við erum öll þm. Reykvíkinga. Brtt. er á þá leið að á eftir 36. gr. frv. eins og það var samþykkt í Nd. komi ný grein er hljóði svo:

„Fjmrh. f.h. ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að 30 millj. kr. til þess að standa undir kostnaði við breytingar á Áburðarverksmiðju ríkisins vegna ammoníaksgeymis.“

Þessi till. er flutt í framhaldi af skýrslu starfshóps sem félmrh. skipaði til að gera tillögur um úrlausn vandamála vegna ammoníaksgeymis Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi, skýrslu sem hefur orðið fjölmiðlum að umræðuefni undanfarna daga og ég ætla að fara nokkrum frekari orðum um.

Ég vil aðeins áður en ég kem að því, herra forseti, víkja að því að mér finnst það ekki ósanngjarnt að óska eftir því að þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á þessu máli láti sjá sig þegar verið er að ræða málið hér í deildinni, bæði fjmrh. og hæstv. forsrh. líka. Ástæðan er nú ekki síst sú að í frv. er gert ráð fyrir margvíslegum heimildum handa þessum ráðherrum. M.a. heimildum sem hafa verið settar inn í frv. í hv. Nd. Raunar mætti bæta við hæstv. samgrh. vegna þess að í Nd. hefur verið bætt inn í 7. gr. frv. ákvæði um að ákveðin lánveitingaheimild verði ekki notuð nema samgrh. samþykki. Ég hygg að það sé alveg nýlunda að samgrh. verði spurður um það áður en lánveitingaheimildir séu notaðar. Og þó að um sé að ræða margreyndan ráðherra viðskipta-, fjár- og utanríkismála og kannski meira er þetta afar sérkennilegt. Ég vildi einfaldlega óska eftir því að eitthvað af þessu ráðherraliði sem þarna er talið upp, þó það væri ekki nema samgrh., gott væri að fá fjmrh. líka, kæmu hérna til að það væri hægt að spyrja þá nokkurra spurninga í sambandi við 7. gr. varðandi fyrirtækið Herjólf hf. Sérstaklega lýtur nú mín spurning að því einu að spyrja um þetta: Er hætta á því að þessar bindingar, sem þarna eru settar inn, geti orðið til að tefja framgang þessa brýna verkefnis á árinu 1988? Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að það verði kallað í þessa mætu menn. Þó við höfum tvo ráðherra Framsfl. í þessari deild og gott að hafa þá hið næsta sér dugir það ekki alveg í þessu máli þó það dugi nú oft. (Sjútvrh.: Í flestum málum.) Í flestum málum.

Sömuleiðis háttar þannig til, hæstv. forseti, að það mun hafa verið boðaður fundur í mínum þingflokki hér kl. korter fyrir fimm. (JE: Þú verður búinn þá. ) Ég verð ekki búinn þá þannig að málið er í nokkrum hnút. Ég inni forsetann eftir því hvort hann vill hóa í þessa ráðherra, en ég get þá vikið að öðrum málum meðan þeir safnast til fundarins. (Forseti: Ég hef gert ráðstafanir til þess.) Hæstv. forseti hefur gert ráðstafanir til að kallað verði í þessa ráðherra og er það vel og þakka ég það.

Vík ég þá fyrst að skýrslu starfshóps félmrh. um tillögur um úrlausn vandamála vegna ammoníaksgeymis Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi. Það hefur reyndar lengi verið ljóst að það er mjög hæpið að ekki sé meira sagt að vera með Áburðarverksmiðjuna þetta nálægt byggð og eftir að borgarstjórn Reykjavíkur ákvað fyrir nokkrum árum að flytja byggð og hafa nýja byggð aðallega á Grafarvogssvæðinu er alveg augljóst að það ber að fara sérstaklega varlega varðandi áburðarframleiðsluna og starfsemi Áburðarverksmiðjunnar. Þess vegna var það að Vinnueftirlit ríkisins sendi frá sér í desember 1985 skýrslu til félmrh. sem bar heitið „Hættumat vegna ammoníaksgeymis Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi.“

Meginniðurstaða skýrslunnar er sú að ef óhapp yrði og mikill og skyndilegur leki kæmi að ammoníakgeyminum stafaði mikil hætta af fyrir íbúana á mestum hluta höfuðborgarsvæðisins. „Minni leki getur valdið lífshættu fyrir starfsmenn og íbúa í næsta nágrenni“, segir hér í áliti starfshóps félmrn. Það er tekið fram í áliti starfshópsins að líkur á miklum og skyndilegum leka séu hins vegar taldar mjög litlar og í skýrslunni frá Vinnueftirlitinu er bent á leiðir sem draga mundu mikið úr þeirri áhættu sem fylgir hugsanlegum ammoníaksleka. Eftir að þessi skýrsla Vinnueftirlits ríkisins, sem kom í desember 1985, hafði verið kynnt í ríkisstjórn ákvað félmrh. að setja á laggirnar starfshóp til að gera tillögur um úrlausn vandamála vegna geymis þessa. Starfshópurinn var skipaður 28. febr. 1986 og formaður hans var Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, en aðrir í starfshópnum voru framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, forstöðumaður mengunarverndar Hollustuverndar ríkisins, Runólfur Þórðarson verksmiðjustjóri, tilnefndur af stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins og Þórður Þorbjarnarson borgarverkfræðingur, tilnefndur af Reykjavíkurborg.

„Starfshópurinn hóf fljótlega störf“, segir í skýrslunni hér, „og kynnti sér þá m.a. gögn sem fyrir lágu og fór í vettvangsskoðanir til að kynna sér umbúnað við geymslu ammoníaks og löndun þess úr skipinu. Fljótlega varð ljóst að gera þyrfti ýmsar kostnaðarsamar og tímafrekar athuganir. M.a. var talið nauðsynlegt að láta kanna jarðskjálftaöryggi núverandi geymis. Leitaði starfshópurinn eftir framlagi úr ríkissjóði til þess verkefnis með bréfi til félmrn. frá 4. nóv. 1986. Með bréfi ráðuneytisins 14. jan. 1987 var tilkynnt að málaleitan þessari hefði verið synjað, að fjmrn. neitaði um styrkveitingu til að kanna þessi mál sérstaklega. Þá var leitað eftir því að Áburðarverksmiðjan greiddi kostnað við þessa sérstöku athugun á jarðskjálftaöryggi núverandi ammoníaksgeymis og féllst Áburðarverksmiðjan á þessa beiðni og hefur fyrirtækið greitt kostnað við þær athuganir sem starfshópurinn hefur látið gera.

Viðamestu athuganirnar sem starfshópurinn taldi nauðsynlegt að gera stóðu allt fram í nóvember sl., en þá var tekið til við að vinna endanlega úr niðurstöðunum og að móta tillögur. Í skýrslunni er gerð ítarlega grein fyrir þessum málum og er bent á það á síðu 5 í skýrslunni að það séu venjulega notaðar þrjár aðalaðferðir við geymslu ammoníaks. Niðurstaða skýrslunnar er sú að mesta hættan fylgir geymsluaðferð nr. 1, sem hér er talin upp, en það er einmitt sú aðferð sem notuð er í Gufunesi eins og áður getur. Síðan segir í skýrslunni:

„Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins er framkvæmt mat á afleiðingum þess að mikill og skyndilegur leki kæmi að ammoníaksgeyminum og notað til þess reiknilíkan og stuðst við niðurstöður tilrauna. Meginniðurstaðan er eftirfarandi miðað við að geymirinn sé fullur þegar óhappið yrði: Ammoníakið myndar ský sem á um þremur mínútum yrði 2 km að þvermáli og héldi áfram að stækka. Skýið mundi ekki stíga fyrr en eftir a.m.k. 10 mínútur og hugsanlega mun síðar. Afleiðingar slíks óhapps réðust af veðri þegar það yrði. Ef vindhraði væri nálægt meðalvindhraða á þessu svæði, þ.e. 3–4 vindstig, mundi jaðar skýsins færast um 5,4 km á 10 mínútum. Austanátt og áttir rétt norðan við austur eru algengastar í nágrenni verksmiðjunnar samkvæmt mælingum í Geldinganesi og því líklegast að skýið færðist yfir Sundahafnarsvæðið og Laugarnesið í stefnu á miðborgina. Berist skýið yfir byggðina er líklegt að afleiðingarnar yrðu skelfilegar“, orðrétt upp úr skýrslunni. Ég hef tekið eftir því að fjölmiðlar hafa verið að fjalla um þessa skýrslu síðustu daga og eftir að ég las hana sjálfur í dag, fékk hana frá hæstv. félmrh. um hádegi í dag, fannst mér hún satt að segja hálfu óhugnanlegri en ég hafði á tilfinningunni eftir að hafa hlustað á fjölmiðla grannt um þetta mál. Hér segir:

„Berist skýið yfir byggðina er líklegt að afleiðingarnar yrðu skelfilegar og fjöldi manns mundi farast, einkum þeir sem væru utan dyra. Þeir sem dveldust innan dyra í byggingum gætu lifað af ef gluggar væru lokaðir og loftræstikerfi ekki í gangi. Mjög lítið ráðrúm gæfist til almannavarna.“

Þetta er svo hrikaleg aðvörun sem hér er lögð fyrir þjóðina og þar með þingið sömu daga og við erum hér að afgreiða frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1988 að ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt að tryggja að ríkisstjórnin hafi allar nauðsynlegar heimildir til að kosta því til sem þarf til að koma í veg fyrir þá hættu sem þarna getur blasað við.

Í skýrslunni er fjallað ítarlega um þetta mál og m.a. minnt á rannsóknir sem hafa verið gerðar erlendis, t.d. í Nevada árið 1983, og í skýrslunni er sérstaklega fjallað um þá staðreynd að borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að færa byggð í Reykjavík nær þessari verksmiðju en áður hafði verið gert ráð fyrir samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur eins og það var samþykkt á árinu 1962, ef ég man rétt, eða kannski samþykkt 1965, en það miðaði við árið 1962. Og um þetta segir í skýrslu starfshópsins, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur byggð teygst nær Áburðarverksmiðjunni en áður. Þegar verksmiðjan var byggð og þar til fyrir nokkrum árum var miðað við að ekki yrði byggt nær henni en 1900 metra. Þegar byggð var skipulögð í Grafarvogi var þessi fjarlægð minnkuð í 1200 metra. Þetta eykur áhættuna, sérstaklega miðað við minni háttar leka þar sem hætta yrði bundin við verksmiðjusvæðið og nágrenni þess.“

Hér er um að ræða mjög alvarlega ábendingu, tel ég vera, til borgaryfirvalda í Reykjavík reyndar og í skýrslunni kemur fram að í grannlöndum okkar, þar sem hliðstæð starfsemi fer fram og ammoníakgeymar eru, er nú verið að breyta geymsluaðferðum og breyta geymslustöðum í því skyni að gera þá öruggari en þeir hafa verið til þessa.

Í skýrslu nefndarinnar er sérstaklega fjallað um jarðskjálftaöryggi ammoníaksgeymisins og meginniðurstaðan er sú að nokkuð skorti á að burðarstoðir geymisins séu nægilega traustar til að þola álag í stærstu skjálftum sem gengið er út frá. Gerð er tillaga hér á eftir um styrkingu stoðanna sem tryggja á nægan styrk. Starfshópurinn lét sérstaklega kanna það, sem er eðlilegast að kanna fyrst, að byggja nýjan geymi og flytja geyminn. Niðurstaðan varð sú að þegar gengið er út frá 3 þús. tonna geymi kosti hann að mati nefndarinnar 72 millj. kr., þ.e. einfaldur geymir með jarðvegsþró, en tvöfaldur geymir kosti 81 millj. kr. miðað við byggingarvísitölu 345. Nefndin athugaði líka hvort unnt væri að gera ráðstafanir sem væru ódýrari en þó öruggar, þ.e. með því að kæla núverandi ammoníaksgeymi og gera aðrar ráðstafanir til að treysta öryggi hans, og með hliðsjón af þeirri athugun komst nefndin að eftirfarandi niðurstöðu:

„Með hliðsjón af ofanrituðu má áætla að kostnaður við að taka upp kælingu á núverandi geymi verði gróflega áætlað eins og að neðan greinir miðað við verðlag í janúar 1988: í fyrsta lagi bygging öryggishúss 13 millj. 776 þús., í öðru lagi einangrun öryggishúss og kælikerfi 8 millj. 316 þús. og í þriðja lagi aðrar breytingar 4 millj. kr. eða samtals 26 millj. 92 þús. kr.“

Í samræmi við þessa niðurstöðu flytjum við till. um að heimila fjmrh. að taka lán allt að 30 millj. kr. til að ganga í það verkefni að treysta þennan búnað um ammoníakið þarna uppi í Gufunesi. Niðurstöður og megintillögur nefndarinnar eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Starfshópurinn telur að afleiðingar þess að mikill leki kæmi að ammoníaksgeymi Áburðarverksmiðjunnar eins og hann er nú gætu orðið mjög alvarlegar og stefnt lífi starfsmanna og íbúa á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins í hættu. Líkur á slíku óhappi eru mjög litlar, en ekki er unnt að útiloka að það geti orðið. Starfshópurinn telur að með því að geyma ammoníakið kælt og án yfirþrýstings í tvöföldum geymi dragi mjög verulega úr hættu og öryggið verði viðunandi fyrir byggðina umhverfis verksmiðjuna, enda verði hún ekki nær en nú er ráðgert, þ.e. 1200 metrar.“

Nú hef ég ekki sett mig nákvæmlega inn í það hvað hin nýju hverfi, sem gert er ráð fyrir að byggja á næstu árum upp að Grafarvogssvæðinu, eru nálægt Áburðarverksmiðjunni. Ég hygg að þau séu ekki nær henni en þau hverfi sem þegar hafa verið byggð. En þetta er mál sem ég hef ekki kannað og segi þess vegna meira en ég veit. En ég er sannfærður um að þar munar ekki mjög miklu á fjarlægð frá verksmiðjunni frá því sem er í núverandi Grafarvogshverfi IlI og í nýja hverfinu, sem á að byggja, Grafarvogshverfi IV.

Síðan segir hér áfram: „Öryggiskápa eða öryggishús utan um geyminn mun jafnframt veita aukna vörn gegn hugsanlegu tjóni. Samkvæmt athugunum sem gerðar hafa verið að tilhlutan starfshópsins eru miklar líkur á því að unnt sé að taka upp kælingu í núverandi ammoníaksgeymi og að slíkt verði mun ódýrara en að byggja nýjan geymi. Starfshópurinn gerir eftirfarandi tillögur um ráðstafanir sem hann telur skapa viðunandi öryggi:

Tekin verði upp kæling á ammoníaki í núverandi geymi verksmiðjunnar og efnið geymt án yfirþrýstings. Byggt verði sérstakt öryggishús umhverfis geyminn sem skýlir honum og tekur við innihaldinu ef leki verður og komið verði fyrir búnaði til að brenna ammoníaki ef langvarandi bilun verður á kælikerfi eða ef ammoníak lekur út í öryggishúsið. Jafnframt verði gerðar eftirfarandi ráðstafanir:

1. Undirstöður geymisins verði styrktar til að auka jarðskjálftaöryggi hans.

2. Skipt verði um op á geyminum og það gert úr stáli sem hefur nægilegt kæliþol.

3. Gerðar verði ráðstafanir til að tryggja að undirstöður glati ekki styrkleika vegna kælingar og að samdráttur kúlunnar vegna kælingar dragi ekki úr jarðskjálftaöryggi.

4. Haft verði reglubundið eftirlit með öllum búnaði sem notaður er til að landa, flytja og geyma ammoníak. Gerð verði sérstök áætlun um slíkt eftirlit.

5. Gerð verði áætlun vegna Áburðarverksmiðjunnar í tengslum við almannavarnaáætlun Reykjavíkur.“

Undir þetta rita 8. jan. 1988 Eyjólfur Sæmundsson, Ólafur Pétursson, Þórður Þ. Þorbjarnarson, Guðjón Petersen og Runólfur Þórðarson.

Ég hygg, herra forseti, að það fari ekkert á milli mála að hér sé um að ræða svo alvarlegar ábendingar að það sé ekki einasta sanngjarnt að fara fram á það heldur beinlínis brýnt að meiri hl. í þessari virðulegu deild bregðist við þeirri till. sem fyrir liggur á þskj. 512, brtt. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1988 sem ég gerði hér grein fyrir í nokkru máli. (Forseti: Ég vil biðja ræðumann að gera aðeins hlé á máli sínu. Það hefur komið upp sú hugmynd að fresta fundi til kl. 6 til þess að þeir sem halda þingflokksfund geti gert það og er mér kunnugt um að þar er m.a. á dagskrá það mál sem ræðumaður er að fjalla um. Ég bið hann um að fresta máli sínu þar til fundur hefst að nýju.) Já. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég ræddi fyrir fundarhlé áðan aðallega um þá skýrslu sem birst hefur varðandi hættu á ammoníaksleka úr geymum Áburðarverksmiðju ríkisins og gerði grein fyrir tillögu sem við flytjum, ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og hv. þm. Guðmundi Ágústssyni, varðandi lántökuheimild í þessu skyni, að ráðherra geti tekið lán allt að 30 millj. kr. til að grípa til nauðsynlegra úrbóta við Áburðarverksmiðjuna. Ég tók það reyndar fram í minni ræðu áðan að ég teldi að það sem skipti höfuðmáli væri að það væri ljóst af hálfu Alþingis að ráðherrar hefðu ekki einasta allar heimildir til að taka á þessu alvarlega vandamáli heldur væri það beinlínis ósk þingsins að þeir gerðu það og það væri á engu stigi málsins hægt að bera fyrir sig heimildarleysi af hálfu Alþingis í þessu efni. Mér er ljóst að það verkefni sem hér er um að ræða tekur einhvern tíma hvort sem sú leið er farin að endurbæta geymana eða að byggja nýja. Ef síðari leiðin er farin kostar það 70–100 millj. kr. eftir því hvort um er að ræða svokallaðan einfaldan geymi eða tvöfaldan. En ef aftur á móti viðgerð er viðhöfð eins og nefnt er í skýrslunni kostar það 27 millj. kr. Hins vegar er ljóst að þeir sem skýrsluna vinna hafa ýmsa fyrirvara varðandi verkefnið og ljóst af þeirra hálfu að þeir kysu helst að sú leið yrði valin að byggja nýjan geymi og jafnvel að flytja hann, en það er í rauninni jafngildi ákvörðunar um að flytja Áburðarverksmiðjuna.

Auðvitað hefur þessi verksmiðja og staðsetning hennar alltaf verið hæpin. Um hana hafa verið miklar deilur hér um áratuga skeið eins og örugglega einhverjir deildarmenn muna frá fyrri áratugum. Ég man eftir því sem þingfréttaritari fyrir tveimur áratugum að Einar Olgeirsson ræddi oft um þessa „fabrikku“ og staðsetningu hennar og ég hygg að fjöldamargir Reykvíkingar hafi um árabil haft verulegar áhyggjur af henni, enda er talið að það sé einkum tvennt hér í mannvirkjum í Reykjavík sem er hættulegt og varasamt. Annað er Áburðarverksmiðjan og hitt er staðsetning innanlandsflugvallarins í hjarta bæjarins. En það er mál sem ég ætla ekki að fara út í að sinni.

En ég lagði á það áherslu í minni framsöguræðu fyrir tillögunni áðan að á málinu yrði tekið og ríkisstjórnin hefði allt svigrúm sem hugsast gæti til að taka rösklega á því. Ég get reyndar bætt því við til að halda því til haga að ef eftir því væri leitað að einhverjir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna kæmu að þessu máli sérstaklega er ég sannfærður um að minn flokkur mundi greiða fyrir því sem best hann gæti.

Við þessa umræðu flytjum við einnig brtt. sem eru svipaðar þeim og fluttar voru í Nd. Það er í fyrsta lagi um að ræða brtt. sem gerir ráð fyrir að það verði felld niður skerðing á Framkvæmdasjóði fatlaðra. Þetta er svipuð till. og kom upp í deildinni á sínum tíma þegar málið var til meðferðar fyrir hátíðarnar þar sem við stjórnarandstæðingar greiddum atkvæði gegn þeirri grein sem gerði ráð fyrir skerðingu á Framkvæmdasjóði fatlaðra. Ég hygg að sú upphæð sem hér er um að ræða sé nú ekki stór á mælikvarða ríkissjóðs, en hún er nokkuð stór á mælikvarða Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ég hygg að skekkjan sé a.m.k. 20 millj. kr. að mati fjmrn., en að mati félmrn. er þessi skekkja miklu meiri. Ég hygg að félmrn. sé þeirrar skoðunar og hæstv. félmrh. að hér sé um að ræða skerðingu upp á 90–100 millj. kr. á Framkvæmdasjóði fatlaðra. Ég tel að við þurfum að kosta miklu til að byggja upp þennan málaflokk svo sem við höfum gert á liðnum árum. Um það hefur verið tiltölulega góð samstaða á hv. Alþingi að framkvæma lögin um málefni fatlaðra og m.a. á grundvelli þess góða vilja sem iðulega hefur komið fram er þessi brtt. flutt af þremur stjórnarandstæðingum í þessari virðulegu deild. Það er gert ráð fyrir því að greinin, sem lýtur að skerðingu á Framkvæmdasjóði fatlaðra, falli niður.

Þá flytjum við brtt. á þskj. 514 í sambandi við skipulag ferðamála og er gert ráð fyrir því að fjárveiting til Ferðamálaráðs og Ferðamálasjóðs verði skert og miðað við 38 millj. í staðinn fyrir 28 eins og það er í frv. núna, en hv. Nd. hafði fellt tillögu stjórnarandstæðinga um að skerðingin miðaðist við 40 millj.

Ég hyggst ekki fara nánar út í það mál hér, en vil aðeins víkja að 3. brtt. sem við flytjum á þskj. 514 og lýtur að fjárhag Ríkisútvarpsins. Tillagan er á þessa leið:

„Þrátt fyrir ákvæði 22. gr. og 23. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 skulu tekjur framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins af aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum eigi nema hærri fjárhæð en 99 000 þús. kr. á árinu 1988.“

Í hv. Nd. hafði verið felld till. um 100 millj. kr. þak á þessa skerðingu og hér er haldið sama strikið af hálfu stjórnarandstöðunnar, þó að breyttu breytanda með tilliti til þess að Nd. hefur hafnað tillögunni um 100 millj. kr.

Við fengum í hv. fjh.- og viðskn. Ed. á okkar fund útvarpsstjóra og Hörð Vilhjálmsson, fjármálastjóra Ríkisútvarpsins, til að ræða um þessi mál og komu í ljós í máli þeirra gífurlega miklar áhyggjur af fjárhag Ríkisútvarpsins, bæði framkvæmdasjóðsins og eins rekstri Ríkisútvarpsins. Það er engu líkara en menn hafi stundum að því er Ríkisútvarpið varðar á seinni árum þrengt að því, mér liggur við að segja vísvitandi stundum, til þess að hin svokallaða frjálsa samkeppni fengi að njóta sín. Er mér margt í minni í þeim efnum án þess að ég fari að rekja það í einstökum atriðum. Það er samstaða um það hér á hv. Alþingi í orði að Ríkisútvarpið sé ein mikilvægasta menningarstofnun landsins og jafnframt byggðastofnun vegna þess að Ríkisútvarpið tengir þjóðina saman betur en allir aðrir fjölmiðlar. Það er satt að segja skrýtið að fá engin viðbrögð frá hæstv. ríkisstjórn í þessu máli fyrr en hæstv. menntmrh. lætur hafa eftir sér í einhverjum fjölmiðlum, sem ég heyrði í núna síðustu daga, að það væri ekki allt með felldu í eyðslunni í Ríkisútvarpinu varðandi rekstur þess. Ég er ekki innanhússmaður þar og þekki ekki þar til í einstökum atriðum, en ég hygg þó að það sé mjög brýnt að Ríkisútvarpið fái að njóta sín, það fái að þróast miðað við þær aðstæður sem nú eru í fjölmiðlaheiminum. Ég hélt að það sæti síst á menntmrh. að veitast að þessari stofnun sem heyrir undir hann. Þetta kast hæstv. menntmrh. minnir mig á forvera hans þegar hann sótti að fræðslustjóranum í Norðurlandi eystra á sinni tíð. Þó að auðvitað bæri menntmrh. að halda utan um hagsmuni þeirra sem byggja á þjónustu grunnskólalaganna og ákvæðum grunnskólalaganna fannst manni ekki við hæfi að hann veittist að þjónustumanni sínum með þeim hætti sem hann gerði og mér finnast þessi ónot hæstv. menntmrh. í garð Ríkisútvarpsins satt að segja fjarskalega ósmekkleg vegna þess að þau hafa ekki verið rökstudd. Ef hér væri um rökstudda gagnrýni að ræða horfði málið öðruvísi við, en ég hef engan rökstuðning heyrt í þessum efnum. Ég mun þangað til annað kemur í ljós vísa þessum árásum menntmrh. á Ríkisútvarpið á bug. Ég held að það sé vilji til þess á Alþingi í öllum flokkum að það sé myndarlega haldið á varðandi Ríkisútvarpið og ég hef ekki trú á því að hæstv. menntmrh. eigi neinn verulegan stuðning við það sjónarmið sitt, sem fram kom hjá honum, að í rauninni sé meginvandi Ríkisútvarpsins sá að það þurfi að skera rækilega niður.

Um þessi mál hafa verið haldnar margar ágætar ræður á hv. Alþingi bæði nú og fyrr. Minnist ég þar ekki síst ræðuhalda hv. 3. þm. Vesturl. sem um árabil hefur setið eða sat í útvarpsráði og tók þessi mál iðulega fyrir með býsna myndarlegum hætti á hv. Alþingi og þar á meðal þegar umræður fóru fram um lánsfjárlög fyrir árið 1987, en þá ræddi þessi hv. þm. sérstaklega um Ríkisútvarpið og það skerðingarákvæði sem við erum hér að fjalla um. Ég hygg að þar sem hv. þm. hefur ekki borið sig að því að halda fram þeim rökum í umræðum um málið til þessa í þessari deild sé það við hæfi að ég lesi upp nokkur atriði úr málflutningi hans 15. okt. 1986 þegar rætt var um lánsfjárlög ársins 1987, en hann sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá vildi ég beina þeirri almennu spurningu til hæstv. fjmrh. varðandi II. kafla þessara laga hvort honum þyki það góð lögfræði eins og þar er sett upp, þ.e. fyrst setur Alþingi lög og síðan setur Alþingi önnur lög þar sem segir: Það er ekkert að marka þau lög sem við settum áður. Ég er ekki mjög menntaður í lögfræði, en það mikið veit ég að þetta er ekki góð lögfræði, og ég vona að hæstv. ráðherra sé mér sammála um það. Ég hef áður minnst á það hér að þessi vinnubrögð eru mjög til vansa. Útvarpslög voru samþykkt á Alþingi ekki alls fyrir löngu, á vordögum 1985. Og hér er komið inn í 27. gr. lánsfjárlagafrv. ákvæði sem snýr að útvarpslögunum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur á árunum 1986“ — taki menn eftir því, það er afturvirkt. Þetta er afturvirkt. Er það ekki rétt skilið hjá mér, hæstv. ráðherra?" [Þetta var sem sagt látið virka aftur fyrir sig inn á árið 1986.] „og 1987 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.“"

M.ö.o.: í lánsfjárlögum ársins 1987 var ekki einasta verið að skerða þennan tekjustofn fyrir árið 1987 heldur líka fyrir árið 1986 afturvirkt eins og hv. þm. þá gat um og bætir síðan við:

„Nú er það svo að það er ekki menntmrh. lengur, skv. gildandi útvarpslögum, sem ákveður afnotagjöldin, heldur á hann að staðfesta þau.“

Hann heldur áfram og ræðir um þessi mál almennt, m.a. afnotagjöldin, og segir svo:

„Núna situr Ríkisútvarpið ekki lengur eitt að þeim auglýsingamarkaði á öldum ljósvakans sem það hefur setið eitt að í 55 ár. Hvað gerist? Það verður hrun í auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins og ég fullyrði það hér og nú að á þessu ári stefnir í gífurlegan hallarekstur hjá Ríkisútvarpinu“.

Ég hygg að í þessum orðum hafi hv. þm. verið að tala um árið 1987 (Gripið fram í.) Já, já, já og ekki nærri búinn. Það er meira blóð í kúnni. Á því ári var halli. Það var gert ráð fyrir því að miða við það að hallinn á því ári gæti orðið um 80 millj. kr., en síðan hefur það fengist leiðrétt þannig að það er ekki um að ræða hallarekstur þegar árið 1987 er upp gert ef ég skil rétt þær upplýsingar sem ég fékk hjá fjármálastjóra Ríkisútvarpsins. Hins vegar horfir illa með árið 1988.

Síðan spyr hv. 3. þm. Vesturl. 15. okt. 1986: „Spurningin er: Á nú að koma Ríkisútvarpinu; þessum fjölmiðli okkar allra, á kné með því að setja Ríkisútvarpið í fjárhagslega spennitreyju, eins og mér sýnist allt benda til að núverandi stjórnarflokkar séu að gera?"

Síðan segir hv. þm.: „Hér í lánsfjárlögum er gert ráð fyrir að taka með afturvirkum hætti - og ég spyr nú hvernig ráðherranum falli það í geð — í 27. gr. lánsfjárlaga á að taka af Ríkisútvarpinu allar tekjur vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum fyrir árin 1986 og 1987. Á fyrri helmingi þessa árs [þ.e. 1986] eru þetta 60 millj. kr. Og ég spyr m.a. með tilliti til þess að fyrr á þessu ári var Ríkisútvarpinu synjað um hækkun afnotagjalda: Er það stefna ríkisstjórnarinnar og er það með samþykki hæstv. menntmrh. að koma þessari stofnun nú á kné, a.m.k. að setja hana í fjárhagslega spennitreyju þannig að hún megi sig hvergi hræra?"

Hér var skörulega til orða tekið og nú er hv. 3. þm. Vesturl. einn af áhrifamönnum stjórnarflokkanna. Það er ómögulegt að neita því. Hann er formaður þingflokks Alþfl., flokks hæstv. fjmrh. Ég verð að segja það alveg eins og er að þó að maður geri ekki mjög miklar kröfur til manna þegar þeir fara að styðja ríkisstjórnir, stundum við undarlegar aðstæður . . . (Gripið fram í.) M.a. þekki ég eitt og annað af eigin raun eins og hv. þm. veit um og ég gæti farið ítarlega út í ef þörf krefur. En þó er það engu að síður þannig að ég bjóst nú heldur við því að hv. 3. þm. Vesturl. hefði þau áhrif á þessa stjórn að hún mundi skammast til að afgreiða Ríkisútvarpið að því er þennan lið varðar betur en fyrri stjórn gerði. Þess vegna fannst mér ástæða til að halda þessum málflutningi hans sérstaklega til haga ef það mætti verða til þess að rifja upp fyrir honum það sem áður var sagt af honum í þessu efni og gæti kannski orðið til þess að hann snerist á sveif með okkur í stjórnarandstöðunni í þessu máli, annaðhvort nú þegar eða þá með flutningi sérstaks máls eftir þinghlé, þar sem á vandamálum Ríkisútvarpsins verður tekið.

Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hv. Alþingi að gera sér grein fyrir því hvaða hætta er fólgin í því að Ríkisútvarpið sé svelt fjárhagslega á sama tíma og hér fjölgar stöðugt svokölluðum frjálsum útvarpsstöðvum. Hér er ekki einasta um dagskrárgerð að ræða heldur líka dreifingu efnis frá Ríkisútvarpinu og undirbúning að langbylgjukerfi sem er mikilvægt öryggistæki ef FM-kerfið dettur út. Fyrir utan menningarlegu hliðina er Ríkisútvarpið einn meginþátturinn í því að halda uppi þjóðfélagi þar sem menn búa við sæmilegt og nokkurn veginn sambærilegt öryggi.

Það er fróðlegt í þessu sambandi að virða það fyrir sér að skv. lögum um almannavarnir er gert ráð fyrir því að Almannavarnir sendi frá sér ákveðin hættumerki þegar vá steðjar að af einhverju tagi. Í lögum er miðað við að fólk eigi við þær aðstæður og heyrandi þau merki að snúa sér að útvarpinu. Hvaða útvarpsstöð er það sem þarna hefur skyldur? Hver er það sem þarna hefur skyldur? Það er Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið hefur þessa skyldu. Ég geri ekki ráð fyrir því að aðrir mundu neita að neinu leyti, ég geri ráð fyrir að aðrir myndu hlaupa þarna undir bagga, en forgangsskyldan við að koma á framfæri upplýsingum við slíkar aðstæður er hjá Ríkisútvarpinu. Þess vegna er Ríkisútvarpið í fyrsta lagi menningartæki, í öðru lagi öryggistæki og í þriðja lagi einn stærsti þátturinn í því að við erum þrátt fyrir allt og getum gert okkur vonir um það að vera áfram nokkurn veginn ein menningarleg heild í þessu landi. Af þessum ástæðum er það, herra forseti, sem við endurflytjum þá brtt. sem felld var í Nd., að vísu að breyttu breytanda eins og ég sagði hér áðan.

Eftir að ég talaði fyrir hlé skaut hæstv. samgrh. að mér ljósriti úr lögum varðandi ríkisstofnanir og ábyrgðir vegna lántöku þeirra. Þar kemur það fram að viðkomandi fagráðherra á að koma að máli eins og lántökuheimild vegna Herjólfs hf. Það er auðvitað samgrn. sem rekur á eftir því að Herjólfur fái þarna fjármuni til framkvæmda á árinu 1988 allt að 100 millj. kr. Þess vegna er út af fyrir sig ástæðulaust að eiga frekari orðastað við samgrh. í þessu efni.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að þó ég hafi saknað deildarinnar núna um nokkurra sólarhringa skeið og hæstv. forseta alveg sérstaklega er það ekki svo að ég hafi ástæðu til að gera mér leik að því að lengja mjög fundi í þessari deild og hafði ekki hugsað mér að hafa uppi neina slíka tilburði. Mér finnst það hins vegar sérkennilegt og óþægilegt þegar maður er að ræða mál eins og lánsfjárlög, sem eru hluti af fjárhagsdæmi ríkisins, að hafa ekki ráðherrana nálægt til að tala við þá, til að spyrja þá og fá skýringar. Mér er ekkert að vanbúnaði að koma á fund eftir kvöldmat, en ég hefði fyrir mitt leyti verið tilbúinn að reyna að hraða svo meðferð málsins að það hefði ekki þurft að taka langt kvöldmatarhlé. En mér finnst eiginlega ekki hægt þegar maður er búinn að biðja um hæstv. fjmrh. annað en að ítreka það og fara fram á að hann komi hér. Þá getum við rætt um málin betur eftir kvöldmatinn.

Það birtist t.d. í dag mjög athyglisverð skýrsla frá Vinnuveitendasambandi Íslands varðandi verðbólgu, gengi, efnahagsmál á þessu ári, afar athyglisvert plagg. Vinnuveitendasamband Íslands er merkilegt apparat eins og kunnugt er og býr á góðum stað í Garðastræti, sögulegum stað. Ég held að plaggið sem kom frá Vinnuveitendasambandinu sé allrar athygli vert og ég hef ekkert á móti því að það gæfist kostur á því fyrir hléið að þessi mál yrðu aðeins rædd við hæstv. fjmrh. vegna þess að í næstu viku mun birtast ný þjóðhagsspá og fjölmiðlar allir og þjóðin fylgjast með því máli þegar þar að kemur. Mér finnst nauðsynlegt að halda því til haga að stjórnarandstaðan fái tækifæri til að ræða við hæstv. ráðherra og mér finnst hann ekkert of góður til að vera hérna. Ég veit að hann er að sinna mikilvægum skyldustörfum, ég dreg ekkert úr því og þekki það. Mér finnst satt að segja engin goðgá þó að hæstv. forsrh. fengi að vera hérna líka nema hann sé úti í búð með Ólafi Ragnari, en ég veit ekki til þess að svo sé, hæstv. forseti. En mér þætti vænt um ef þessir snillingar létu svo lítið að láta sjá sig. (EG: Hann er kannski í búðinni hjá Ólafi Ragnari.) Ja, eða öfugt. Ég skal ekkert um það segja, hv. þm.