13.01.1988
Efri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4000 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er mjög slæmt að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér. Að vísu hefur hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir haft tækifæri til að ræða þessi mál mjög ítarlega við hann í þessari hv. deild, en ég dreg ekkert úr því að það væri mjög æskilegt og nauðsynlegt að ráðherrann væri hér, en ef hv. þm. hefði hlýtt á það sem ég sagði hér í umræðunum fyrr í kvöld og gegnt þeirri þingskyldu sinni að hlýða á umræður hér vissi hún að ég sagði að ráðherrann hefði ekki reiknað með þessum fundi og hann væri bundinn við skyldustörf annars staðar á fundi. Ég hef gert allar þær ráðstafanir sem mér eru kleifar til þess að ná sambandi við hann. Það svarar ekki síminn á þeim stað þar sem mér var sagt að þessi fundur væri og það er verið að reyna að ná til hans. Hann er ekki heima hjá sér, eins og ég hygg að hér hafi verið gefið í skyn áðan ranglega. Auðvitað ljúkum við þessari umræðu ekki án þess að ráðherrann komi hér og svari þeim spurningum sem þm. kjósa að beina til hans. Hann gat ekki verið á fyrri fundinum í dag sem var um sexleytið vegna þess að þá var hann að taka þátt í beinni útsendingu ásamt fleirum í útvarpi og var síðan búinn að ráðstafa sér á annan fund sem ekki varð svo auðveldlega breytt. En ég endurtek það, sem ég sagði fyrr í kvöld, að ég geri og það er verið að gera hér allar þær ráðstafanir sem eru í okkar valdi til að ná til hæstv. ráðherra. Ég er m.a.s. ekki viss um að honum hafi verið kunnugt um að þessi kvöldfundur væri í kvöld. En auðvitað getur það farið svo að við þurfum að fresta þessum fundi og halda þá áfram umræðunni um þetta mál á morgun.