13.01.1988
Efri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4000 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég held að það sé lítið annað að gera í málinu heldur en að fresta fundi þar til hæstv. fjmrh. getur verið viðstaddur og þá getum við haldið fund í fyrramálið eða hvernig svo sem samningar takast um það.

Ég kvaddi mér sérstaklega hljóðs til að mótmæla því að leiðtogi Alþfl. í þessari deild og einn fremsti forustumaður stjórnarliðsins í deildinni sá ástæðu til að gagnrýna þm. stjórnarandstöðunnar og sérstaklega hv. 6. þm. Reykv. fyrir að hún sinnti ekki sínum þingskyldum. Ég hygg satt að segja að hv. þm. hafi ekkert sérstakt umboð til að gagnrýna þm. í þessa veru.

Í öðru lagi tel ég að það sitji síst á honum og þm. stjórnarflokkanna að vera að ráðast á stjórnarandstöðuna að tilefnislausu eins og var gert áðan. Ég tel það ósmekklegt og ekki við hæfi.

Að öðru leyti vil ég segja, herra forseti, að ég tel langeðlilegast að þessum fundi verði frestað þangað til hæstv. fjmrh. finnst. Það hefur verið beitt ýmsum brögðum í sögu þingsins til að finna þm. eins og kunnugt er. Ég get bent forseta utan fundar á þá aðferð sem árangursríkust er, en ég kann ekki við að nefna hana héðan úr ræðustól.