13.01.1988
Efri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4001 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði áðan, að það er alveg óþolandi að ráðist sé á hv. 6. þm. Reykv. með þeim hætti sem hv. 3. þm. Vesturl. gerði. Við þm. í stjórnarandstöðu getum ekki þolað að formaður þingflokks eins stjórnarflokksins standi upp og ráðist með þessum hætti að stjórnarandstöðunni og telur að hún hafi valdið því óbeint að fjmrh. er ekki hér. Málið var að fundi þessum var frestað til kl. 9 vegna þess að stjórnarandstaðan bað um að fjmrh. væri hér og hann svaraði fsp.

Ég verð að segja að það mál sem hér er er eitt af þeim málum sem varða þessa þjóð miklu og þetta er mál sem getur skipt sköpum fyrir marga aðila. Þess vegna og með vísan til stjórnarskrárinnar er það einnig frumskylda ráðherra, sem ber fram stjfrv., að vera á staðnum. Það er ekkert, það er nákvæmlega sama hvað það er, eða á ekkert að vera sem á að hlífa honum við því. Þetta vil ég segja.

Að lokum var upplýst að hæstv. fjmrh. ætti að vera á Stöð 2 í kvöld og ræða þar mál ásamt einhverjum fleiri þm. Þá sýnist mér beinast liggja við að hringja nú á Stöð 2, ég held að þm. Alþfl. ættu að vita númerið þar miðað við þann mikla tíma sem þeir hafa verið á þeirri stöð, og fá að vita hvar þessi fundur er og reyna að hafa upp á með hjálp manna þar á hvaða fundi hann er.