14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4009 í B-deild Alþingistíðinda. (2796)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Mér skilst að samkomulag hafi orðið um það að þessi umræða stæði til u.þ.b. kl. 11. (Gripið fram í: Það er nú misskilningur.) Er það misskilningur? Það var tilkynnt úr forsetastóli Sþ. áður en gert var þar hlé. Svo það eru mínar heimildir, forseti Sþ. (Forseti: Það samkomulag er ekki við mig.) (EG: Það var gert um það samkomulag í gær.) Ég endurtek: Ég vitna hér í forseta Sþ. sem tilkynnti það að slíkt samkomulag hefði tekist í gærkvöldi. (Gripið fram í.) Meira hef ég ekki um það að segja.

Ég vil svara nokkrum orðum ýmsum spurningum sem beint hefur verið til mín.

Fyrst þær sakir sem á mig hafa verið bornar fyrir vanrækslu í starfi af hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur. Margt hefur mér verið borið á brýn þessa undanförnu daga en þetta var nú það sem ég átti síst von á. Að því er varðar viðveru mína undir umræðum um þau fjölmörgu og stóru mál sem fjmrh. flytur býð ég hv. þm. að leita til skrifstofu Alþingis um að telja þær stundir í klukkustundum og dögum og sólarhringum. Ég held að það verði ekki undan því kvartað að ég hafi ekki verið við umræður þegar umræður hafa farið fram að því er mín mál varðar þó að það hafi stundum orðið að vera svo að ég varð að beina athygli minni milli beggja deilda á tímabili. Ég hafði gert skrifstofu Alþingis grein fyrir fjarveru minni í gærkvöld af því að ég náði ekki til forseta, þannig að fullgildar ástæður fyrir minni fjarvist voru kunnar skrifstofu Alþingis á þessum tíma. Ég álít því þessar sakargiftir smekklausar í meira lagi. (SvG: Þær voru ekki kunnar okkur hér, hæstv. ráðherra, þannig að ég tel að ásakanir þínar séu smekklausar í meira lagi.) (GA: Né heldur þingflokksformanni Alþfl.) Eins og ég segi, ég hafði gert skrifstofu Alþingis grein fyrir því af hvaða nauðsyn ég var fjarverandi í gærkvöldi. Ég náði ekki til forseta til þess að tilkynna honum það persónulega. Ég tel að ég hafi gert hreint fyrir mínum dyrum í því efni og ber ekki ábyrgð á því máli frekar. Að öðru leyti, af því að þetta var almenn ásökun um fjarvist mína við umræður, held ég að þær ásakanir séu ekki sanngjarnar. (SvG: Ég held að þú ættir að tala við Eið Guðnason áður . . . ) Herra forseti. Er ekki hægt að þagga niður í hv. 7. þm. Reykv.? (SvG: Forsetinn hefur ekki . . . til þess.) (Forseti: Ég bið menn að stilla sig.) (SvG: Það væri ástæða til að biðja ráðherrann að stilla sig áður en hann eys svívirðingum yfir deildina.) Hvers konar tal er þetta, hv. þm.? (Forseti: Af gefnu tilefni vil ég geta þess að það er fullt málfrelsi hér og það er ætlast til að einn tali í einu, úr ræðustól, og ég bið menn að virða þau fundarsköp.) Hvers konar tal er þetta í hv. 7. þm. Reykv.? Er einhver að ausa svívirðingum yfir hv. Ed.?

Hér hafa verið fluttar nokkrar brtt. við lánsfjárlög og um þær vil ég fara nokkrum orðum. Það er fyrst að því er varðar Ríkisútvarpið, því næst um Herjólf og loks um málefni Áburðarverksmiðjunnar.

Að því er varðar Ríkisútvarpið kom það fram í máli hæstv. menntmrh., í umræðum um málið í Nd. að hann hefði í hyggju að beita sér fyrir sérstakri úttekt á fjárhag Ríkisútvarpsins. Að því er varðaði almennar ásakanir um það að ekki væri að finna skilning á þýðingu þess og gildi svaraði hann því með því að rifja upp að á liðnu ári var um að ræða heimilaðar gjaldskrárhækkanir til Ríkisútvarpsins 85% á árinu, í tveimur áföngum, sem var ekki einasta langt umfram allar verðlagsforsendur, heldur miklum mun meira en nokkur önnur ríkisstofnun hafði fengið á þessu tímabili. Ef menn eru þess vegna að spyrja um skilning á fjárhagslegri stöðu held ég að þessi verk segi nú annað.

Hitt er svo annað mál að fjárhagur Ríkisútvarpsins er erfiður af mörgum ástæðum. Sem dæmi skal það nefnt að Ríkisútvarpið hefur varið fjármunum til fjárfestinga langt umfram sínar heimildir. Ríkisútvarpið hefur t.d. gert kaupleigusamninga fyrir tugi milljóna kr. án heimilda, og Ríkisútvarpið er komið í launaskuld við ríkisféhirði upp á sennilega rúmlega 200 millj. kr. Þrátt fyrir ítrekað samkomulag sem gert hefur verið við forsvarsmenn stofnunarinnar um greiðslu á þessum launum á tilteknum dagsetningum, hefur því ekki verið sinnt. Þegar hæstv. menntmrh. víkur að því að gera þurfi sérstaka úttekt á fjárhag Ríkisútvarpsins er hann með í huga þær forsendur að miðað við þá 13% gjaldskrárhækkun í upphafi árs sem heimiluð hefur verið og miðað við í annan stað að Ríkisútvarpið nái 10% hækkun að raungildi á auglýsingatekjum sínum og í þriðja lagi gæti tiltekins hófs í fjárfestingaráætlunum sínum eigi að vera unnt að ná endum saman í rekstri Ríkisútvarpsins á yfirstandandi ári.

Að svo miklu leyti sem einhver vafi leikur á um þessar forsendur og með hliðsjón af skammtímavandamálum sem stafa m.a. af því að Ríkisútvarpið hefur farið umfram áætlanir er það vafalaust rétt og skynsamlegt hjá hæstv. ráðherra að beita sér fyrir sérstakri úttekt á fjárhagsstöðu til lengri tíma litið. Brigslyrði um það að menn hafi eitthvert sérstakt horn í síðu Ríkisútvarpsins styðjast að mínu mati ekki við nein rök. Hér er um að ræða fjárhagsvanda sem m.a. stafar af því hvernig haldið hefur verið á málum.

Að því er varðar lögbundna tekjustofna get ég lýst þeirri almennu skoðun minni sem ég hef reyndar oft gert áður að ég tel það hið versta fyrirkomulag. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að lögbundna tekjustofna eigi almennt að afnema eins og önnur sjálfvirkniákvæði hvað varðar útgjöld fjárlaga.

Ég tek undir það sjónarmið að það væri æskilegt í þeirri könnun á stöðu Ríkisútvarpsins að líta til þess hvort ekki megi stuðla að auknu sjálfstæði stofnunarinnar í vaxandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Það er skynsamleg forsenda að mínu mati. Það sem gert hefur verið að því er varðar Ríkisútvarpið bendir hins vegar ekki til þess að það séu réttlætanleg ummæli að það sæti einhverri óvild af hálfu einstakra ráðherra eða samstarfsflokka í ríkisstjórn. Ég held að því sé ekki til að dreifa.

Að því er varðar þennan sérstaka tekjustofn, þ.e. hlutdeild í aðflutningsgjöldum á sjónvarpstækjum, er þess að geta að sá tekjustofn mun að sjálfsögðu minnka verulega á yfirstandandi ári vegna tollabreytinga þannig að þegar litið er til framtíðarinnar verður hann ekki umtalsverður tekjustofn fyrir Ríkisútvarpið.

Annað mál varðar heimild í lánsfjárlögum til að standa straum af fjárfestingarkostnaði við byggingu nýs ferjuskips fyrir Vestmanneyinga, Herjólfs. Í Nd. var gerð sú breyting á að þessi almenna heimild var staðfest að fengnu samþykki fjmrh., samgrh. og fjvn. Alþingis.

Spurt var: Felur þessi skilyrðing í sér þá hættu að það verði einhverjar tafir á því að leysa þetta verkefni af höndum?

Nú er því til að svara að þetta er brtt. sem fram kom eftir umfjöllun í nefnd um málið. Og af viðræðum mínum við bæði flm. og aðra nefndarmenn þá fer því fjarri að af þessu eigi að álykta að fyrir mönnum vaki að koma málinu fyrir kattarnef. Því fer víðs fjarri. Það er enginn ágreiningur um lántökuheimildina. Enginn. Það sem fyrir mönnum vakti var hins vegar að tryggja eðlileg, skynsamleg vinnubrögð í málinu. Hér er auðvitað um að ræða mjög viðamikið verkefni. Ég vek athygli á því að málið er mjög skammt á veg komið í undirbúningi. Fyrir liggur skýrsla sem kalla má eins konar forkönnun að hagkvæmnis- og rekstrarkönnun þannig að undirbúningur hönnunar er mjög skammt á veg kominn og eftir er að taka ákvarðanir um stærð skipsins, burðarmagn og fleiri tæknilega þætti. Áætlun bendir til þess nú, og hún er auðvitað mjög óvarleg af því að hönnunin er svo skammt á veg komin, að stofnkostnaður kunni að vera 660 millj. og kann mjög að hækka. Það fer að sjálfsögðu eftir því hvaða ákvarðanir verða teknar um það hvers konar skip um er að ræða. Og í annan stað, atriði sem ég mundi nú gjarnan vilja staldra við, verður hönnun skipsins hagað á þann veg að unnt kunni að vera t.d. að annast smíði þess hér innan lands?

Ef hér er um að ræða fjárfestingu upp á 600–700 millj. kr. og gæti hækkað enn, þá er mér kunnugt um að í nefndinni fóru fram miklar umræður um rekstrargrundvöll ferju sem hefði slíkan fjármagnskostnað. Og ef miðað er við hallarekstur, sem verið hefur á ferjunni, hann endurskoðaður með hliðsjón af auknum fjármagnskostnaði og rekstrarkostnaði nýrrar ferju og tekið tillit til eðlilegrar afskriftar af slíku fjármagni, þá eru nefndar tölur um það að rekstrarkostnaðarframlag gæti verið á bilinu 150–180 millj. kr. á ári. Auðvitað eru þetta tölur sem menn eiga ekki að skrifa niður á blað og slá föstu að séu réttar. Þetta eru tölur sem lýsa ákveðnum ugg eða efasemdum um þann kostnað sem kæmi í kjölfarið.

Og hvað þýðir þetta þá allt saman? Þetta þýðir þetta: Það er fullur skilningur á því að Vestmanneyingar þarfnist nýrrar ferju og það er þeirra vegasamband við meginlandið. Í annan stað: Það er enginn ágreiningur um það að veita þetta fé til þessa verkefnis á lánsfjárlögum. En með tilliti til þess hve skammt á veg málið er komið hefur verið höfð uppi ósk um það að þess verði gætt að fulltrúar ríkisins sem inna eiga þessar greiðslur af höndum hafi einhverja hönd í bagga um það, þegar komið er að ákvörðunartöku, hvers konar skip þetta verði, hvaða skipstegund, hversu mikið skipsburðarmagn, hvaða stærð og mat á því hvaða rekstrarkostnaður fylgi í kjölfarið. Þetta er auðvitað afar eðlilegur hlutur. Ég nefni það sem dæmi að hér erum við að tala um svo háar fjárhæðir að því má jafna t.d. við tillögugerð um jarðgangagerð í ýmsum landshlutum norðan lands, á Vestfjörðum og Austurlandi, þar sem nefndar hafa verið tölur um einstök verkefni upp á 600–700 millj. kr. Auðvitað þarf að kanna mjög rækilega allar fjárhagslegar forsendur fyrir svo viðamiklum verkefnum. Ég átti satt að segja ekki von á því að þeir hv. þm., sem hafa gagnrýnt t.d. harðlega vafasama fjárráðstöfun í stórum fjárfestingarverkefnum sem hafa ekki verið nægilega undirbúin, andmæli því að höfð sé eðlileg gát á undirbúningi verkefnis af þessu tagi. M.ö.o.: Menn eru að segja að það sé ekki nóg að skrifa upp á lánsfjárheimild upp á 125 millj. í ár, menn verði að vita hvað kemur í kjölfarið. Það hefði ég talið að væri ákaflega eðlileg málsmeðferð og í samræmi við rétt vinnubrögð.

En að lokum, herra forseti. Ég legg á það áherslu að það er algjörlega ástæðulaust að tortryggja þessa fyrirvara með þeim hætti að segja að þetta lýsi einhverri andstöðu við málið. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég tel ákaflega eðlilegt að samgrh., sem er sá maður sem fer með samgöngumál, það ráðuneyti, hafi eitthvað um það að segja með hvaða hætti þetta mál verði leyst tæknilega. Í raun og veru lýtur þetta að því að tæknilegur undirbúningur málsins verði eins vandaður og kostur er.

Þá er rétt að víkja að tillögu sem hér hefur verið flutt og varðar heimild til þess að taka lán allt að 30 millj. kr. til þess að standa straum af kostnaði vegna breytinga á Áburðarverksmiðju ríkisins. Í því tilefni var vísað til umræðna í ríkisstjórn og spurt hvort ákvörðun hafi verið tekin þar. Ég vil þess vegna, með leyfi forseta, kynna hv. Ed.-mönnum þá samþykkt sem gerð var í ríkisstjórn í morgun, en hún er svohljóðandi:

„Ríkisstjórnin samþykkir að fela félmrh. að leggja fyrir stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins að hefja nú þegar markvissar aðgerðir í því skyni að auka og treysta öryggi vegna ammoníaksframleiðslu og geymslu verksmiðjunnar í samræmi við skýrslu starfshóps. Fyrstu aðgerðir felist í því að stjórnin taki afstöðu til hvor þeirra leiða skuli valin sem um getur í tillögu félmrh. dags. 12. þ.m.

1.a. Að tekin verði upp kæling á ammoníaki í núverandi geymi verksmiðjunnar og efnið geymt án yfirþrýstings. Byggt verði sérstakt öryggishús umhverfis geyminn sem skýlir honum og tekur við innihaldinu ef leki verður og komið verði fyrir búnaði til að brenna ammoníaki ef langvarandi bilun verður á kælikerfi og ef ammoníak lekur út í öryggishús.

Jafnframt verði gerðar eftirfarandi ráðstafanir:

1. Undirstöður geymisins verði styrktar til að auka jarðskjálftaöryggi hans.

2. Skipt verði um mannop og það gert úr stáli sem hefur nægilegt kæliþol.

3. Gerðar verði ráðstafanir til að tryggja að undirstöður glati ekki styrkleika vegna kælingar og að samdráttur kúlunnar vegna kælingar dragi ekki úr jarðskjálftaöryggi.

4. Haft verði reglubundið eftirlit með öllum búnaði sem notaður er til að landa, flytja og geyma ammoníak. Gerð verði sérstök áætlun um slíkt eftirlit.

5. Gerð verði neyðaráætlun vegna Áburðarverksmiðjunnar í tengslum við almannavarnaáætlun Reykjavíkur.

1.b. Að byggja nýjan, kældan geymi og framfylgja að öðru leyti þeim öryggisráðstöfunum sem nauðsynlegar eru og starfshópurinn leggur til.“

Í þessu sambandi er rétt að fram komi að upplýst hefur verið að ekki sé kunnugt um að aðgerðir skv. staflið á hafi verið framkvæmdar. Það muni ekki koma að fullu í ljós fyrr en við hönnun, hvort tilskilinn árangur muni nást.

„Ákvörðun stjórnar Áburðarverksmiðju ríkisins skal liggja fyrir eigi síðar en 1. febr. n.k. Á meðan á undirbúningi og framkvæmdum stendur, hvort heldur er skv. kosti 1a eða -b, skal verksmiðjunni gert að draga svo sem frekast er unnt úr framleiðslu og geymslu ammoníaks og hlutast til um að í geymi séu lágmarksbirgðir á hverjum tíma.“

Loks segir hér:

„Ríkisstjórnin ákveður að láta fara fram úttekt á starfrækslu Áburðarverksmiðju ríkisins til lengri framtíðar og í því sambandi verði kannaðir möguleikar á nýrri staðsetningu verksmiðjunnar. Við úttektina verði tekið sérstakt tillit til öryggis- og umhverfissjónarmiða.“

Þetta er ályktun ríkisstjórnarinnar, herra forseti. Af henni leiðir að ekki er að vænta ákvörðunar fyrr en í fyrsta lagi 1. febr. um það hvor leiðin verður valin, en það er mikill munur á því hvaða fjárhagskostnaður fylgir hvorri leið. Í því efni er rétt að nefna að áætlun á frumstigi um kost 1a er um 26 millj. kr. Áætlaður kostnaður við kost 1b er a.m.k. 80 millj. kr. En ef flytja ætti verksmiðjuna og endurbyggja, þá er áætlaður endurbyggingarkostnaður 11/2 milljarður. Þess skal getið að áætluð skuldastaða verksmiðjunnar er í lok árs núna um 460 millj. kr.

Um þessa tillögu hef ég því það að segja að með vísan til þessarar samþykktar ríkisstjórnarinnar er ljóst að hér er um alvarlegt öryggismál að ræða. Það verður vafalaust umtalsverður kostnaður sem fylgir því að tryggja viðunandi og trygga lausn. Endanleg ákvörðun um það hvort sá kostnaður verður á bilinu 25–30 millj. kr. eða 80–100 millj. kr. liggur ekki fyrir. Þess vegna tel ég að þessi tillaga sé út af fyrir sig ekki tímabær.

Vafalaust má slá því föstu að það er enginn ágreiningur á hv. Alþingi um það að nauðsyn beri til að tryggja slíka lausn þegar tillögur liggja fyrir og samstaða er um tæknilega, og þess vegna auðvelt að afla sérstakra heimilda ef þörf krefur um leið og þær tillögur liggja fyrir.

Ég vil þess vegna með vísan til þessa rökstuðnings beina því vinsamlega til hv. flm. að þeir skoði það hvort þeir væru ekki reiðubúnir til að draga tillögu sína til baka á þessu stigi máls eins og mér skilst að tilmæli hafi borist um fyrr.

Að því er varðar brtt. um afnám skerðingar á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra læt ég mér nægja að vísa til þess að við fjárlagaafgreiðslu voru fjárveitingar til Framkvæmdasjóðsins stórauknar. Ef ég man rétt úr rúmlega 130 millj. í 180 millj. kr. Ef litið er á fjárhag Framkvæmdasjóðs fatlaðra, bæði vegna framlaga á fjárlögum og vegna tekna af lottói, þá er ljóst að fjárhagur hans hefur aldrei verið neitt viðlíka jafngóður og traustur og nú. Yfirleitt má segja að það hafi verið mjög áberandi hversu vel hafi verið gert í fjárframlögum við afgreiðslu fjárlaga nú til þessa málaflokks og er það almennt viðurkennt af þeim sem þeim málum stýra. Ég tel þessa tillögu þess vegna ekki nauðsynlega eins og málum er háttað.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess hér að efna til eldhúsdagsumræðna um almenn efnahagsmál, um mat manna á þróun gengis eða kjarasamninga sem munu skera úr um hver verða raunveruleg svör við þeim spurningum sem hv. 7. þm. Reykv. bar hér fram. Það er einfaldlega ekki tímabært á þessu stigi málsins. Læt ég mér þess vegna nægja þau svör sem hér hafa verið fram borin við þessum spurningum.