14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4016 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Í umræðunum í gær flutti ég langa ræðu þar sem ég fjallaði nokkuð um forsendur fyrir bæði fjárlögum og lánsfjárlögum og lýsti áhyggjum mínum yfir því að þessar forsendur væru að verulegu leyti brostnar, þ.e. að verðbólga, eins og gert er ráð fyrir í forsendum fyrir þessum tveimur frv., verði ekki nema 10% til ársloka 1988. Ég gerði nokkra grein fyrir nýútkominni skýrslu sem Vinnuveitendasamband Íslands hefur sent frá sér þar sem varað er við og reyndar ekki talið ólíklegt að verðbólgustig geti farið jafnvel upp í 35–70% á árinu 1988.

Í ljósi þessa hafði ég vænst þess að hæstv. fjmrh. mundi fjalla nokkuð um þessi mál, þ.e. verðlagsforsendur lánsfjárlaga, en hann kaus að segja það hér áðan í ræðu sinni að það yrði tíminn að leiða í ljós þegar kjarasamningar væru gerðir. Þegar upp væri staðið í árslok þá kæmi þetta allt saman í ljós. Ég er ekki alveg ánægður með þessi svör. Ég mundi vilja fá viðbrögð hæstv. ráðherra við því hvað verður gert ef svo fer sem horfir að verðbólga verður hér miklu miklu hærri, þ.e. verðbólgan nálgist það sem hún var þegar hún var hvað mest hér á árum áður, fari jafnvel hér upp í 50–70%.

Samkvæmt fjárlögunum sem voru samþykkt milli jóla og nýárs hafði tekjuhlið þeirra hækkað um 3 milljarða kr. í meðförum hæstv. ríkisstjórnar. Síðan gera lánsfjárlögin ráð fyrir 5 milljörðum kr. umfram tekjur og umfram skuldbreytingar vegna erlendra lána. Þar með má ætla að þarna séu u.þ.b. 8 milljarðar kr. sem geti valdið þenslu í þjóðfélaginu á yfirstandandi ári.

Síðan má ekki gleyma því að verði um verulega verðbólgu að ræða þá gerir hið nýja staðgreiðslukerfi skatta það að verkum að tekjur ríkissjóðs munu aukast jafnharðan og það mjög verulega, þannig að allt bendir til þess að tekjur ríkissjóðs verði miklum mun hærri heldur en tekjuáætlunin í fjárlögum gerir ráð fyrir enda hafa undanfarin ár sannað að svo reynist yfirleitt. Ef ég man rétt þá er aðeins um undantekningu frá þessu að ræða árið 1986 er rauntekjur ríkissjóðs við árslok urðu minni eða nánast þær sömu og hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum. Öll árin þar á undan, og svo er um árið 1987 einnig, verða rauntekjur ríkissjóðs miklu meiri en tekjuáætlun fjárlaga hafði gert ráð fyrir.

Það hefur gjarnan verið þannig, eins og var í gamla skattkerfinu, þá kom það í ljós við álagningu um mitt ár hverjar yrðu rauntekjur ríkissjóðs. Þegar þær urðu miklum mun hærri heldur en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir þá flýttu menn sér að finna nýja útgjaldaliði. Ný verkefni voru sett í gang en minna hirt um að reyna að greiða niður skuldir og minnka halla ríkissjóðs sem var orðinn allnokkur og er búinn að vera mikill til margra ára.

Nú stefnir í það á þessu ári að tekjur ríkissjóðs verði verulega hærri en tekjuáætlunin segir til um. Ég hefði fyrir mitt leyti gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra svara því hvernig hann hyggst taka á því máli ef svo reynist að verðbólgan verði hér miklu meiri og tekjur ríkissjóðs þar af leiðandi mun meiri en tekjuáætlunin gerir ráð fyrir. Á þá að hleypa þeim strax út í þjóðfélagið með nýjum verkefnum eða er fyrirhugað að reyna að minnka ríkissjóðshallann með því að auka niðurgreiðslu á erlendum skuldum? Það væri gaman að fá svör hæstv. ráðherra við þessu. Enn fremur tel ég alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra komi hér með sínar hugmyndir um það hvað verðbólga muni verða mikil á yfirstandandi ári. Það er alveg fráleitt að ætla að standa á því enn þann dag í dag að verðbólgan verði ekki meiri en 10% eins og gert var ráð fyrir í upphaflegum forsendum fyrir þessum tveimur miklu frv. ríkisstjórnarinnar. Það hefur orðið algjör breyting á öllum forsendum þá mánuði sem þessi frv. hafa verið til meðhöndlunar hér á hinu háa Alþingi og er alveg nauðsynlegt að við fáum einhver svör um það hvernig eigi að bregðast við ef verðbólgan færi hér hugsanlega upp í 50–70% eins og sumir virðast ætla.