26.10.1987
Efri deild: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

50. mál, almannatryggingar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er ekki nýtt mál á ferðinni. Hér er á ferðinni frv. sem flutt er á hv. Alþingi í sjötta sinn og verður flutt áfram ef þörf krefur.

Þannig er að í núgildandi tryggingalöggjöf hefur það ákvæði verið um alllangt skeið, ég hygg frá 1971 a.m.k., að tryggingayfirlæknir er einvaldur um úrskurð örorkumats. Þetta fyrirkomulag hefur að mínu mati ekki reynst nægilega vel. Annars vegar frá sjónarmiði viðskiptamanna almannatrygginga og hins vegar frá því sjónarmiði að enginn einn maður getur sem skyldi borið ábyrgð á svo þýðingarmiklum þætti í tryggingakerfinu. Þess vegna er hér flutt frv. þar sem lagt er til að skipuð verði úrskurðarnefnd þriggja manna til að fjalla um þessi mál.

Þegar ég hafði verið um skeið í heilbr.- og trmrn. áttaði ég mig á því að hér er um að ræða einn versta og erfiðasta hnútinn í almannatryggingakerfinu. Þetta mál var flutt sem stjfrv. á þinginu 1982–1983 og hefur síðan verið flutt á hverju þingi. Frv. hlaut ágætar undirtektir hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh., Ragnhildar Helgadóttur, á síðasta þingi þegar hún hafði eins og ég kynnst þessu kerfi og hvað það voru alvarlegar brotalamir á því. En þrátt fyrir víðtækan skilning í þinginu hefur með undarlegum hætti tekist að bregða fæti fyrir þetta mál aftur og aftur. Ég kann ekki við að rekja það úr þessum ræðustól af hverju ég tel að það sé. Ég hygg þó að ég geti nefnt það án þess að það flokkist undir óviðeigandi ummæli að ég tel að tryggingayfirlæknir hafi beitt áhrifum sínum gagnvart einstökum alþm. og einstökum þingflokkum með afgerandi hætti til að koma í veg fyrir að þetta mál fengi eðlilega meðferð.

Í frv. er gert ráð fyrir þeirri breytingu á almannatryggingalögunum að á eftir 3. mgr. 12. gr. komi nýjar mgr. sem orðast svo:

„Úrskurður tryggingayfirlæknis tekur gildi strax og hann liggur fyrir og frá þeim tíma er örorkan skapaðist.

Nú er öryrki óánægður með úrskurð tryggingayfirlæknis og getur hann þá óskað eftir skriflegri greinargerð læknisins um forsendur matsins. Þeirri greinargerð ásamt athugasemdum skal öryrkinn síðan vísa skriflega til úrskurðar örorkumatsnefndar. Í örorkumatsnefnd eiga sæti þrír menn:

1. Öryrkjabandalag Íslands tilnefnir einn mann.

2. Hæstiréttur tilnefnir einn mann. Hann skal vera læknir og vera formaður matsnefndarinnar.

3. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tilnefnir einn mann og skal hann vera lögfræðingur. Auk aðalmanna skulu tilnefndir varamenn.

Nefndin skal í störfum sínum hafa hliðsjón af öllum þeim þáttum sem b-liður 1. mgr. þessarar greinar gerir ráð fyrir. Þá skal nefndin einnig taka tillit til félagslegra sjónarmiða við úrskurði sína.

Ráðherra setur nánari ákvæði um starfssvið nefndarinnar í reglugerð.“

Þegar frv. þetta var sent til umsagnar á næstsíðasta þingi þá sendi Öryrkjabandalag Íslands mjög jákvæða umsögn um það, lagði að vísu til nokkrar breytingar á frv. sem mér fannst allar vera þess eðlis að á þær væri hægt að fallast.

Nú hafa þau ánægjulegu tíðindi gerst um síðustu helgi að Öryrkjabandalag Íslands og Samtökin Þroskahjálp hafa ákveðið að efna til samstarfs um mjög veigamikla þætti í starfsemi sinni, m.a. kynningarstarf o.fl., og þess vegna teldi ég eðlilegt að taka það til íhugunar að þessi samtök í sameiningu tilnefndu mann í þessa nefnd um úrskurð örorkumats ef um það getur tekist sæmileg samstaða við aðila.

Það er sem sagt ekki um einstök útfærsluatriði sem ég er fyrst og fremst að hugsa. Ég held að þar megi vafalaust haga hlutum öðruvísi og betur en lagt er til í þessu frv. Það sem ég er að hugsa um er að því óeðlilega ástandi verði aflétt að einn maður, tryggingayfirlæknir, ráði öllu um úrskurði örorkumats. Þar er um að ræða lífskjör þúsunda láglaunafólks og þegar þessi úrskurður tryggingayfirlæknis liggur fyrir, þá á þetta fólk engan rétt gagnvart öðrum aðila í þjóðfélaginu. Það er óeðlilegt fyrirkomulag. Þar sem þetta frv. er flutt snemma á þessu þingi vænti ég þess að það verði tekið til afgreiðslu og óska eftir því við heilbr.- og trn. að hún taki málið til afgreiðslu. Ég tel að það væri betra að nefndin legði til ákveðna afgreiðslu á þessu máli heldur en láta það liggja í nefndinni í allan vetur eins og gerst hefur stundum undanfarin ár. Ég vil geta þess að fyrir liggur að hæstv. heilbr.- og trmrh. mun vera með í undirbúningi eða hafa þegar jafnvel ákveðið að skipa nefnd til að endurskoða almannatryggingalögin í heild. Ég tel það ákaflega mikilvægt skref og jákvætt. Almannatryggingalögin hafa verið löguð af og til með margvíslegri breytingalöggjöf á undanförnum 16 árum frá því að þau voru sett 1971, en þau hafa ekki verið tekin til heildarendurskoðunar með myndugum hætti eins og þarf að gera. Ég tel að það sé mjög þýðingarmikið að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur ákveðið að taka á því máli. Vissulega gæti frv. eins og þetta eða þær hugmyndir sem í því felast verið gildur þáttur í þeirri endurskoðun á almannatryggingalögunum sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur nú ákveðið.

Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.