14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4032 í B-deild Alþingistíðinda. (2804)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef þegar talað þrisvar í þessari umræðu þannig að ég á ekki rétt á að tala oftar, en ég vildi gera hér örstutta athugasemd. Hún er fyrst og fremst sú að ég hef tekið eftir því, ef það skyldi hafa farið fram hjá öðrum deildarmönnum, að hæstv. fjmrh. hefur engu svarað um vaxtastefnuna. Hvaða vaxtastefnu hefur hann? Hvaða skoðun hefur hann á vaxtamálum? Hefur hann skoðun viðskrh. eða hefur hann skoðun utanrrh.? Eða hvaða skoðun hefur hann í málinu? Ég held að það sé nauðsynlegt að fá um það upplýsingar áður en þessi fundur er allur hvaða skoðun ráðherrann hefur. Nú, ef hann hefur enga þá komi hann hingað í stólinn og segi það.

Varðandi hins vegar orð hv. 2. þm. Norðurl. e. um hið almenna efnahagsástand vil ég segja þetta. (Gripið fram í: Þetta er ekki um þingsköp?) Þetta er ekki um þingsköp. Nei, þetta er athugasemd. (Forseti: Örstutt athugasemd.) Mjög stutt. Um hið almenna efnahagsástand vil ég segja þetta: Það hafa verið teknar ákvarðanir um að leggja á skatta. Það hafa verið teknar um það ákvarðanir að ríkissjóður verði rekinn í jafnvægi. En allir aðrir þættir efnahagslífsins eru í óvissu: Afkoma útflutningsatvinnuveganna er slæm, kaupmáttur launa er minnkandi, verðbólga er vaxandi, gengisskráning krónunnar er hæpin, gengið er valt.

Ég hygg að það sé út af fyrir sig að mörgu leyti ekki óeðlilegt þó að menn líki ástandinu núna við ástandið í ársbyrjun 1983 þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var að fara frá. Ég tel að ástandið í efnahagsmálum núna sé að mörgu leyti svipað, sérstaklega í einu, því að verðbólgan æðir upp og samt eru ekki í gildi ákvæði í lögum eða kjarasamningum um sjálfvirkar verðbætur á laun. Og ég spyr hv. þingheim: Hvernig telur hann að verðlags- og verðbólgumálum væri háttað hér nú ef í þessu ástandi sem er í dag væru auk þess sjálfvirkar verðbætur á laun? Þá stæðu menn frammi fyrir býsna háum verðbólgutölum.

Þetta finnst mér sýna það að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sagði ósatt varðandi efnahagsmálin í aðdraganda kosninganna 1987 og þjóðin er nú að súpa seyðið af því.

En það er vaxtastefnan sem ég vil ítreka fyrirspurnir mínar um til hæstv. fjmrh.