14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4033 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég gerði hlé á máli mínu í gær. (Forseti: Já, þm. hefur þegar talað tvisvar þrátt fyrir það.) Ég talaði í morgun einu sinni, sem var áframhald á tali mínu í gær, hélt ég. (Forseti: Þá hef ég skráð þetta rangt.) Ég mun heldur ekki tala mjög lengi. Mál mitt verður kannski ekki örstutt, en það verður ekki langt.

Það er nú fyrst og fremst í tilefni af því sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan. Þegar ég talaði um nauðsyn þess að vera í nánum tengslum við þjóðlífið og fólkið í landinu, þá bendi ég máli mínu sérstaklega að hæstv. fjmrh. og ráðherrum þessarar ríkisstjórnar. Ég vændi ekki þm. þessarar deildar eða aðra þm. um það að þeir væru ekki í nægilega góðum tengslum við kjósendur sína eða fólkið í landinu. Hins vegar tel ég það afar mikilvægt, hv. þm., að þm. séu í góðum tengslum við fólkið í landinu til þess að þeir geti talist verðugir fulltrúar þess fólks sem kýs það inn á þing.

Síðan gerði þm. ljóst í máli sínu að það angraði hann að sjónvarpið skyldi koma hér í morgun og hefja tökur í upphafi fundar. (EG: Var það ekki samkvæmt samningi?) Var það samkvæmt samningi? Nei. Ég veit ekki hvort hv. 3. þm. Vesturl. hefur haft einhvern samning við sjónvarpið, en þó að Kvennalistinn beri hag Ríkisútvarpsins fyrir brjósti, þá höfum við engan sérstakan samning eða sérstök tengsl við þann fjölmiðil og ég kann ekki að skýra komur þess eða brottfarir. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna sjónvarpið var hér í morgun og það var sannarlega ekki ég sem bað um sérstakan frest á fundinum í gær og hefði aldrei hvarflað að mér að fara að beina augum fjölmiðla sérstaklega að fundi hér í deildinni. Aldrei. En það lýsir kannski hugarfari þessara tveggja hv. þm. að þeim skyldi detta í hug að einhver skyldi gera slíkt. Það er mikilvægt að ríkisfjölmiðill og reyndar allir fjölmiðlar séu hlutlausir í umfjöllun sinni og hafi sjálfstæði til þess að velja sér fréttir.

Ég vil reyndar geta þess, vegna þess að ég hlustaði á morgunútvarpið í morgun, að ég heyrði að fréttin af fundi hér í deildinni í gær var hófsöm, hún var mjög tillitssöm við ráðherra og hún var fullkomlega æsingalaus þannig að hún gaf ekkert sérstakt tilefni til að leita hófanna hér í morgun eftir frétt. Nema það væri e.t.v. vegna þess að þingi átti að ljúka hér að morgni dags eða jafnvel um hádegisbil áður en hv. 2. þm. Norðurl. e. fór fram á það að hér færu fram flausturslausar og flumbrugangslausar, ítarlegar umræður um þetta mál og þótt fyrr hefði verið.

Þm. minntist á það að hann hefði það á tilfinningunni að mér leiddist e.t.v. stundum hérna. Reyndar verð ég að segja það að þó að þetta starf sé mjög lærdómsríkt og mjög áhugavert og í heildina tekið hafi mér alls ekki leiðst að gegna því, þá verð ég þó að segja að mér leiðist afskaplega mikið að standa hér með kannski vel undirbúið mál sem ég hef lagt mikinn tíma í að kynna mér og jafnvel að skrifa niður ræðu sem ég oftast geri og flytja síðan mál mitt yfir hálftómum sal. Flytja kannski mál mitt í fjarvist þeirra ráðherra sem gætu haft áhrif á það mál sem ég er að fjalla um. Mér meira en leiðist það. Mér hundleiðist það, hv. 2. þm. Norðurl. e., og mér finnst það hreinlega lítilsvirðandi við þá vinnu sem ég hef unnið og þá vinnu sem ég ætla öðrum þm. að hafa lagt í undirbúning sinna mála. Það gengur auðvitað ekki fyrir þá sem trúa á þingræði og lýðræði að þannig vinnubrögð séu höfð. Við eigum bara eitt líf og ég nenni ekki að eyða mínu í vitleysu. Ég er kannski þegar hálfnuð og vel það og það hvarflar ekki að mér að standa hér og eyða því í tóma vitleysu.

Hv. þm. minntist á þaulsætni ráðherra og minntist á Magnús Jónsson heitinn. Þá vil ég benda honum á það að einmitt í gærkvöld á þeim fundi sem haldinn var hér í hléi var minnst á móðurbróður þessa hv. þm. og hann var tekinn sem dæmi um ráðherra sem ævinlega sat undir umræðum um þau mál sem hann flutti og meira en það, hann var mjög þaulsætinn til þess að hlusta á mál annarra. Ég tel að þessi maður hafi með því sýnt þinginu virðingu og það er ekki leiðinlegt að vera skyldur manni sem þannig vinnur.

Varðandi brtt. Kvennalistans um Ríkisútvarpið, þá ákváðum við að beita fyrst og fremst kröftum okkar að því að reyna að fá lánsfjárlögum breytt til þess að tryggja lögbundna tekjustofna Ríkisútvarpsins þar sem lagt var til að afnema þá. Þess vegna gerðum við ekki brtt. við fjárhag Ríkisútvarpsins á fjárlögum en hitt er alveg rétt hjá hv. þm., við gerum okkur grein fyrir því að það þarf að kunna sér hóf bæði í brtt. og líka í rekstri ríkisins. Auðvitað þarf að kunna sér hóf vegna þess að peningarnir eru takmarkaðir. En það sem öllu máli skiptir er auðvitað forgangsröðunin, hvaða hlutir fá forgang þegar ákveðið er hvert peningarnir eiga að fara.

Og varðandi athugasemdir í sambandi við brtt. sem Þórhildur Þorleifsdóttir mælti fyrir og flutti fyrir hönd Kvennalistans, sem varðaði menningu og listir, þá var það líka með ráðnum huga að Leikfélagi Akureyrar t.d. og Leikfélagi Reykjavíkur var sleppt úr vegna þess að þessi leikfélög eru fyrst og fremst á framfæri sveitarfélagsins þar sem þau eru og þar að auki hefur verið sérstaklega vel gert við Leikfélag Akureyrar á sl. ári vegna afmælis þess.

Síðan vil ég einungis minna hv. þm. á að sú aukning á meðaltalskaupmætti sem hann ræddi áðan er fyrst og fremst orðin vegna launaskriðs en það launaskrið hefur ekki skilað sér til þeirra sem verst eru staddir og þess vegna hefur kaupmáttur þeirra í raun ekki aukist. Þessu má ekki gleyma þegar ævinlega er verið að tala um meðaltöl vegna þess að meðaltölin hafa tvo enda, þau hafa lægri enda og þau hafa hærri enda. Og þeim sem eru í lægri endanum líður jafnan miklu verr og það er fyrst og fremst að þeim sem þarf að beina fjármagni og leiðréttingu til þess að lífskjör þeirra geti orðið sæmileg í þessu landi.