14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4039 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs hér til að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf við spurningum okkar — loksins. Þó seint sé þá var gott að fá þær upplýsingar sem fram komu. Hinar almennu hugleiðingar hans um stefnu í vaxtamálum voru gagnlegar.

Það er rangt að stjórnarandstaðan hafi gagnrýnt jöfnuð í ríkisfjármálum út af fyrir sig. Alþb. hefur gagnrýnt matarskattinn en talið að það ætti að stuðla að jafnvægi í ríkisfjármálum með því að leggja á eignarskatta, stóreignarskatta. Við höfum verið fylgjandi endurskipulagningu bankakerfisins og hæstv. ráðherra nefndi fleiri atriði eins og t.d. endurskoðun á skattlagningu vaxta- og eignatekna. Ég er sammála honum um það.

En niðurstaðan af máli hans var því miður sú að ríkisstjórnin eða ráðherrann telur ekki ástæðu til að grípa til neinna ráðstafana í vaxtamálum til lækkunar vaxta hér og nú, eins og hæstv. utanrrh. hefur sagt að sé óhjákvæmilegt. Út af fyrir sig kemur þetta mér ekki á óvart en ég held að þetta sé býsna athyglisverð niðurstaða.

Ég er sammála ráðherranum um að það er eðlilegt að taka hér til meðferðar vaxta- og peningamálin og bendi á að ég flutti ásamt hæstv. fjmrh. á síðasta þingi tillögu um breytingu á seðlabankalögunum sem lýtur að því að vaxta- og peningamál séu tekin hér til meðferðar einu sinni á hverju þingi. Ég tel að það komi fyllilega til greina að sú ítarlega skýrsla um peningamál, sem við höfum fengið, þm., frá Seðlabankanum núna fyrir nokkrum vikum, verði beinlínis tekin hér á dagskrá þannig að vaxtamálin og peningamálin fái verulega ítarlega umræðu.

Það er svo rétt sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði: Það er dálítið hart að fá loksins þessi svör þegar maður er búinn að margtala sig dauðan. Ég ætla ekki að þreyta hæstv. forseta með því að tala hér lengur að sinni. Hefði auðvitað verið æskilegra að fá þessi svör fyrr. Þetta staðfestir hvað það er nauðsynlegt og brýnt að ráðherrar séu hér viðstaddir strax og umræður um mál af þessu tagi eða þeirra eigin mál hefjast í þinginu.