14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4042 í B-deild Alþingistíðinda. (2812)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti þakka svör hæstv. fjmrh. við sumum þeirra spurninga sem ég hef sett fram hér í umræðum um lánsfjárlög. Hvað varðar þá athugasemd sem hæstv. ráðherra gerði áðan í máli sínu, að stjórnarandstaðan gagnrýndi fyrst og fremst að verið væri að rétta við halla ríkissjóðs, þá er það nú ekki alveg rétt. Í stefnuskrá Borgarafl. a.m.k. er það skýrt tekið fram að við teljum að ríkissjóð eigi að reka hallalausan í góðæri. Hins vegar er ekkert óeðlilegt að nota möguleika á því að reka ríkissjóð með halla í vondu ári til þess að stýra á þann hátt peningamálum þjóðfélagsins.

Það sem við kannski fyrst og fremst höfum gagnrýnt er það að við teljum allt of mikið að leggja það á allan almenning í landinu að ná niður þeim geigvænlega halla sem var kominn á ríkissjóð á árinu 1986 og 1987 á einu ári í stað þess að dreifa því yfir þrjú ár eins og þó upphaflega var gert ráð fyrir í samstarfssamningi stjórnarflokkanna við myndun ríkisstjórnarinnar frá því í sumar.

Þá má einnig minnast á það að hæstv. fjmrh. nefndi það aðeins að til þess að ná niður hallanum á ríkissjóði ætti að auka tekjur, auka skatta, leggja meiri álögur á almenning og fyrirtækin í landinu. En hann minntist hvergi á það að það væri líka hægt að reyna að draga úr útgjöldum. (Fjmrh.: Útgjöldin voru stóraukin í meðferð Alþingis.) Ja, það komu engar raunhæfar tillögur heldur af hálfu ríkisstjórnarinnar um það að reyna virkilega að draga úr ríkisútgjöldunum. (Fjmrh.: Jú.) Það hafa engar slíkar tilraunir komið hér fram þannig að eitthvert mark sé á takandi.

Að öðru leyti vil ég taka undir það með hæstv. ráðherra að það væri afar fróðlegt að taka hér langa umræðu um vaxtamál og skal ekki standa á okkur að taka þátt í því að ræða hér okurvextina sem nú eru við lýði í þjóðfélaginu. Hins vegar sakna ég þess að hafa ekki fengið nein skýr svör við því hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í gengismálum, hvort á að halda áfram þeirri fastgengisstefnu sem hæstv. ráðherrar hafa ríghaldið sér við á undanförnum mánuðum.

Eigi heldur hafa fengist nokkur svör við því hvað til bragðs skuli taka ef verðbólguþróun verður með þeim hætti sem margir hafa nú spáð, þ.e. að verðbólgan geti farið hér upp í marga tugi prósenta, langt umfram þær forsendur sem eru þó til grundvallar þeim stóru og miklu tekjuöflunar- og peningafrumvörpum sem hæstv. ráðherrann hefur verið að mæla fyrir hér í deildinni.