14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4044 í B-deild Alþingistíðinda. (2819)

Skipulag þingstarfa

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er orðið langt síðan Sþ. hefur komið saman og það er vissulega tímabært að menn hittist í sameinuðu þingi. Hér var boðaður fundur kl. 10 í morgun og ég var einn af þeim þm. sem reyndu að vera þar stundvíslega til að hlýða þá á hæstv. forseta fresta fundi til kl. 11 og í þeim svifum sem ég mætti til fundar kl. 11 tilkynnti þingvörður mér að frestað væri fundi til kl. 1 og við erum að hefja hér fund kl. 1.10.

Ég vil, herra forseti, finna að þessu skipulagi eða réttara sagt, skipulagsleysi þingstarfanna. Við höfum í Nd. þingsins haft miklar annir frá því um jól og þurft að vera á fundum daga og stundum nætur til að vinna að þingstörfum og það er sérstaklega bagalegt þegar hagað er fundarboðun með þeim hætti sem gerðist í morgun þegar hlýtur að hafa verið ljóst eftir að fundi Ed. í gær var frestað að það gæti komið til framhaldsfundar og ég geri athugasemdir við það að forusta þingsins skuli ekki hafa gert þm. aðvart fyrst það var ákveðið að halda áfram fundi í hv. Ed. Ég hefði talið eðlilegt að Sþ. fundaði á auglýstum tíma og Ed. hefði síðan nógan tíma til að ráðslaga. Þar hafa ekki háð mönnum þar fundarseturnar á undanförnum vikum og ég hefði ekkert talið það óeðlilegt að það hefði verið haldið hér við auglýstan fund í Sþ. og Ed. síðan fengið að ljúka sínum verkum og eftir atvikum að kvatt yrði þá til fundar í Nd. ef breyting yrði enn á frv. til lánsfjárlaga sem rætt var í hv. Ed.

Ég vildi, herra forseti, koma þessu á framfæri því að þm. hafa mörgu að sinna við að undirbúa störf nú í þinghléi eftir þetta allóvenjulega þinghald að undanförnu.