14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4046 í B-deild Alþingistíðinda. (2823)

170. mál, veiting atvinnurekstrarleyfa til erlendra ferðaskrifstofa

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. spurði fyrr á þinginu um réttindi og eftirlit með erlendum leiðsögumönnum og hér er spurt um erlendar ferðaskrifstofur og eftirlit með þeim. Hæstv. félmrh. svaraði fsp. varðandi leiðsögumenn sem eðlilegt var, en einmitt í þessum svörum hæstv. ráðherra kemur skýrt fram að þarna vantar eðlileg tengsl á milli ráðuneyta. Hér er í rauninni verið að fylgjast með þáttum svipaðs eðlis og það er alveg brýnt og það hefur komið fram sem árangur af þessum fsp. að þarna þurfa ráðuneytin að taka betur saman á málum fyrir utan fjárskortinn sem þjáir allt sem lýtur að umhverfisvernd í sambandi við ferðamál hérlendis, jafnt gagnvart innlendum sem erlendum ferðamönnum, og mikið hefur verið rætt hér í þinginu.