14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4047 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

170. mál, veiting atvinnurekstrarleyfa til erlendra ferðaskrifstofa

Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svör hans. Mér þykir mjög einkennilegt að það sé hægt að senda hingað hópa á vegum erlendra ferðaskrifstofa sem ekki hafa neina íslenska stjórn. Þar er oft eingöngu um erlendar ferðaskrifstofur að ræða. Ef skoðuð eru lögin um atvinnuréttindi útlendinga, sem eru nr. 26 1982, stendur þar í 9. gr.:

„Útlendingi er óheimilt að vinna sjálfstætt eða starfrækja atvinnufyrirtæki án leyfis félmrh.“, stendur reyndar atvinnurekstrarleyfi, en síðan er talað um: nema þar sem starfinn er framkvæmdur samkvæmt sérstakri löggildingu sem ég held að þetta falli ekki undir. Mér finnst þetta mjög einkennilegt, sérstaklega með tilliti til atvinnuleyfanna. Ég tel að sé alveg nauðsynlegt að þeir leiðsögumenn sem eru með þessa hópa séu með atvinnuleyfi hér á landi. Það þarf að ganga mjög stíft eftir því. Það virðist einmitt vera að það vanti tengsl á milli félmrn. og samgrn. en félmrn. veitir atvinnuleyfi fyrir erlenda leiðsögumenn. Heyrst hefur að félmrn. telji að það sé erfitt að veita atvinnuleyfi vegna þess að það vanti atvinnurekstrarleyfi fyrir ferðaskrifstofurnar. Þarna virðist vera um vandamál að ræða sem ég tel mjög nauðsynlegt að taka á og tel mjög óeðlilegt að erlendar ferðaskrifstofur geti komið hingað með hópa án þess að það sé um neitt eftirlit að ræða af hálfu íslenskra stjórnvalda. Þó að mjög gott sé að það sé reynt að dreifa upplýsingum um lög og reglur til þeirra aðila, sem ætla má að komi hingað, verðum við auðvitað að geta haft þær reglur að allir sem ætla að koma hingað verði að hafa samband við íslensk stjórnvöld. Við eigum ekki að þurfa að giska á nokkurn veginn hverjir ætli að koma hingað. Ég tel mjög eðlilegt að allir sem hingað koma með hópa þurfi atvinnurekstrarleyfi hvort sem það eru útlendingar eða Íslendingar. Það er í mörgum tilfellum samvinna milli erlendra og innlendra ferðaskrifstofa. Þá er væntanlega þessum reglum framfylgt. Ég reikna a.m.k. með því.

En ég tel að það sé ástæða til að endurskoða þetta og fylgjast mjög vel með og sérstaklega tengsl á milli atvinnurekstrarleyfanna og atvinnuleyfa fyrir þá sem starfa í tengslum við þessar ferðir.