14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4049 í B-deild Alþingistíðinda. (2829)

209. mál, starfsmenn á vernduðum vinnustöðum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Í byrjun árs 1984 tóku gildi lög um málefni fatlaðra nr. 41 frá 1983. Skv. 1. gr. er markmið laganna m.a. að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna. Til áréttingar lögunum var sett reglugerð um verndaða vinnustaði nr. 329 frá 1983 og öðlaðist hún jafnframt gildi um áramótin 1983/1984.

Í 1. gr. reglugerðarinnar segir að verndaðir vinnustaðir skuli starfræktir í þeim tilgangi að veita fötluðum þjálfun og endurhæfingu til starfa á almennum vinnumarkaði, veita þeim sem ekki eiga kost á að starfa á almennum vinnumarkaði atvinnu við sitt hæfi og veita starfsmenntun í samvinnu við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og/eða skóla á viðkomandi sviði.

Þá er sagt í 11. gr. reglugerðarinnar að fatlað fólk skuli gerast aðilar að stéttarfélögum og njóti sömu réttinda og aðrir í sama stéttarfélagi. Nú hefur borið svo við að hvað eftir annað hafi heyrst kvartanir um að fötluðum gangi illa að fá aðild að stéttarfélögunum og hinn 9. apríl 1986 skrifaði Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður fyrir hönd Alþýðusambands Íslands bréf til Lífeyrissjóðs verksmiðjufólks þar sem svo segir, með leyfi forseta:

„Enn hefur starfsfólk verndaðra vinnustaða á höfuðborgarsvæðinu ekki hafið greiðslur til lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna“ þrátt fyrir ákvæði þeirrar greinar sem hún tilnefnir sem er 11. gr. umræddrar reglugerðar og vangaveltur eru uppi um það til hvaða sjóða starfsfólkið eigi að greiða.

Hún segir jafnframt frá því að miðstjórn ASÍ hafi skipað á því ári, þ.e. árið 1986, nefnd til að fjalla um málefni verndaðra vinnustaða og samskiptamál við samtök fatlaðra.

Sami aðili skrifar enn bréf 22. apríl 1986 f.h. Alþýðusambands Íslands og þá til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda og þar er enn farið fram á að frá þessum málum verði gengið. Síðan er ekki annað að heyra á ýmsum þeim sem á vernduðum vinnustöðum starfa en þessi mál séu enn í ólestri. Þess vegna hef ég leyft mér, herra forseti, að leggja þrjár spurningar fyrir hæstv. félmrh. á þskj. 294 og eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Eru einhver brögð að því að starfsfólk á vernduðum vinnustöðum fái ekki inngöngu í stéttarfélög?

2. Samrýmist það lögum um stéttarfélög og vinnudellur nr. 80/1938, með síðari breytingum, og lögum um málefni fatlaðra nr. 41 frá 1983 ef slíkt viðgengst?

3. Telur ráðherra þörf á að beita sér fyrir því að starfsmenn á vernduðum vinnustöðum njóti félagslegra réttinda til jafns við aðra launþega?"