26.10.1987
Neðri deild: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir hefur sætt nokkuð óvæginni og ómaklegri gagnrýni áður en það er tekið til 1. umr. í hv. deild. Ég hygg að um margt eigi þessi gagnrýni sér vart hliðstæðu í þingsögunni. Ekki síst þar sem þessi gagnrýni hefur verið ómakleg og lágkúruleg fremur en efnisleg og eins hitt að gagnrýnin kemur frá stjórnarliðum og samstarfsaðilum. Þá dregur það ekki úr hve einstæð þessi gagnrýni er, sérstaklega þegar oddviti annars þingflokksins dregur hvergi af sér í lágkúrulegri gagnrýni opinberlega sem helst virðist vera skætingur við mig persónulega fremur en efnisleg gagnrýni á frumvarpið.

Þar sem ég er sannfærð um að hvorki frv. sjálft né vinnubrögð gefa tilefni til þessa málflutnings, sem í frammi hefur verið hafður, spyr ég: Hvað býr hér að baki? Kannski skýrist það þó síðar verði.

Þessa gagnrýni alla væri vissulega auðvelt að takast á við ef ekki ættu í hlut stjórnarliðar, en í nafni einingar og samstöðu eru mér nokkur takmörk sett að svara þessu eins og þó nauðsynlegt væri, eins og sumir stjórnarliðar hafa í raun og sannleika boðið upp á. Ég ætla því á þessu stigi málsins aðeins að stikla á stóru í forsögu og undirbúningi þessa máls nema sérstakt tilefni gefist til annars síðar.

Engan skyldi undra að ég geri grein fyrir forsögu og undirbúningi þessa máls sem ég annars hefði látið kyrrt liggja. Í fyrsta lagi er það vegna yfirlýsingar þingflokks Sjálfstfl. eftir að frv. er lagt fram sem kallar á þessi viðbrögð af minni hálfu. Í annan stað vegna yfirlýsingar og ómaklegra árása forustumanna Sjálfstfl. og Framsfl. í fjölmiðlum. Ég ligg þar undir þungum ásökunum og ámæli frá samstarfsaðilum. Í þriðja lagi vegna þess að enn á að halda áfram að höggva, eins og fram kom í sjónvarpi í gærkvöld, þar sem félmrh. er átalinn og gagnrýndur af samstarfsflokknum fyrir vinnubrögð í þessu máli. Að þessu sögðu vil ég taka fram eftirfarandi:

Mín skoðun er sú að gera þurfi nú þegar lágmarksbreytingar á lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem geri kleift að opna húsnæðiskerfið á nýjan leik eins fljótt og unnt er samkvæmt breyttum reglum með það að markmiði að nýta fjármagnið sem best til þeirra sem á þurfa að halda og jafnframt að forða því að húsnæðiskerfið lendi í algjörum ógöngum og að svigrúm verði skapað til að taka næsta skref sem er að ná samstöðu um að draga frekar úr sjálfvirkni, breyta vaxtastefnu og að finna framtíðarlausn á húsnæðiskerfinu og fjármögnun þess. Eftir þessu hef ég unnið.

Forsaga þessa frv. er því sú í megindráttum að í reglugerð um Byggingarsjóð ríkisins er kveðið á um að ákvæði um biðtíma og röðun á afgreiðslu lánsumsókna skuli endurskoðuð að liðnu einu ári frá gildistöku reglugerðarinnar. Í samræmi við það óskaði ég 13. ágúst sl. eftir endurskoðun á þessu ákvæði og tillögum húsnæðismálastjórnar þar að lútandi. Þær tillögur bárust ráðuneytinu 9. sept. sl. þar sem óskað var að sett yrðu bráðabirgðalög um það efni. Ástæða er til að geta þess, þar sem vinnubrögð mín hafa verið gagnrýnd af stjórnarliðum, að í húsnæðismálastjórn eiga sæti m.a. fulltrúar stjórnarflokkanna sem allir stóðu að þeim brtt. sem lagt var til að settar yrðu í bráðabirgðalög.

Tillögur húsnæðismálastjórnar voru að því er ég best veit kynntar í öllum stjórnarflokkunum fyrri hluta septembermánaðar og mættu á þá fundi fulltrúar flokkanna í húsnæðismálastjórn sem að tillögum þessum stóðu. Áður hafði ríkisstjórnin skipað sérstaka ráðherranefnd til að fjalla um málið sem í áttu sæti auk mín hæstv. iðnrh. og hæstv. heilbr.- og trmrh.

Á fundi ríkisstjórnarinnar 19. sept. var fallið frá setningu bráðabirgðalaga en samþykkt að félmrh. mundi í upphafi þings leggja fram frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun í samræmi við tillögur húsnæðismálastjórnar og stefnt að því að fá frv. afgreitt hið fyrsta á Alþingi. Jafnframt skyldi stefnt að því að breyta vaxtastefnu lánakerfisins. Að áliti ríkislögmanns þurfti til þess lagabreytingu. Málið var því aftur lagt fyrir ríkisstjórnina 8. okt. með þeirri meginbreytingu að inn var tekið ákvæði um vexti. En það var ekki síst að ósk samstarfsaðila minna í ríkisstjórn að ákvæði um vexti fylgir nú með í þessu lagafrv. Sama dag sendi ég formönnum þingflokka stjórnarflokkanna frv. ásamt grg. með ósk um að málinu yrði hraðað. Það var 8. okt. sl.

Á þeim tíma sem málið var til umfjöllunar í stjórnarflokkunum reyndi ég ítrekað, m.a. með viðtölum við formenn þingflokkanna, að fá fram hvort um væri að ræða brtt. sem hægt væri að taka tillit til áður en málið kæmi fyrir Alþingi. Þær brtt. komu ekki fram áður en málið var endanlega afgreitt í ríkisstjórn. Að auki var óskað eftir samstarfi við stjórnarflokkana um frekari vinnu í þessu máli, m.a. útfærslu á vaxtastefnunni, og að stjórnarflokkarnir mundu tilnefna einn úr hverjum stjórnarflokki til samráðs um þá vinnu. Ég hef ekkert svar fengið við því hverjir það eru sem kæmu væntanlega til liðs í þeirri vinnu af hálfu stjórnarflokkanna.

Að nýju var samþykkt á ríkisstjórnarfundi 20. okt. að leggja málið fyrir Alþingi með þeim breytingum sem lagðar voru fyrir ríkisstjórnina 8. okt., en fram kom að einstakir þm. í Framsfl. og Sjálfstfl. höfðu fyrirvara um tiltekin atriði í frv. Síðdegis sama dag og frv. var lagt fram á Alþingi, og degi eftir að ríkisstjórnin samþykkti að frv. skyldi lagt fram, bárust mér fyrst skriflegar athugasemdir þingflokks Sjálfstfl. þar sem fram kom að framlagningu á frv. hafði þingflokkurinn heimilað með eftirfarandi fyrirvörum:

„1. Frv. er ekki í samræmi við veigamikil atriði í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins sem skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna byggjast á.

2. Reglur um lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins eiga að vera almennar og afdráttarlausar.

3. Efasemdir eru um ákvæði frv. um mismunandi vexti innan hvers lánaflokks. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til að treysta fjárhagsgrundvölI húsnæðiskerfisins. Þingflokkurinn er reiðubúinn að ræða leiðir til þess.

4. Of rúm ákvæði eru í frv. um heimildir til setningar reglugerðar þar sem lögin eiga að vera afdráttarlaus.“

Lokaorðin í því bréfi sem mér barst í hendur frá þingflokki Sjálfstfl. eftir að málið var lagt fram á Alþingi, og degi eftir að ríkisstjórnin samþykkti að það yrði lagt fyrir Alþingi, eru þessi:

„Ef félmrh. á hinn bóginn kýs að leggja frv. fyrir Alþingi í óbreyttu formi munu fulltrúar þingflokksins í félmn. Alþingis beita sér fyrir breytingum sem hníga í ofangreinda átt.“

Með tilliti til þessa bréfs og þess sem á undan var gengið var það vissulega nokkuð sérkennilegt að lesa í einu dagblaðanna að helsti talsmaður Sjálfstfl. í húsnæðismálum hefði ekki séð frv. að eigin sögn og gæti því ekki rætt það efnislega. Samt kom sama dag frá þingflokki Sjálfstfl. það bréf sem ég hef hér lesið. Þessu bréfi þingflokks Sjálfstfl. vísaði ég auðvitað til ríkisstjórnarinnar sem öll stendur að því frv. sem ég mæli fyrir. Og ríkisstjórnin er einhuga um að reynt verði að hraða afgreiðslu frv. hér á hv. Alþingi.

Að auki hefur borist ályktun frá fulltrúaráði framsóknarfélaganna í Reykjavík þar sem m.a. segir:

„Aðalfundurinn álítur að veigamikil atriði í frv. séu óljós og illa skilgreind og krefjist verulegrar endurskoðunar.“

Það skyldi engan undra í ljósi þess sem ég hef sagt og ég gerði í upphafi máls míns nokkra grein fyrir hvernig unnið hefur verið að þessu frv.

Auk þeirrar ályktunar sem ég vitnaði til og bréfs frá þingflokki Sjálfstfl. hefur einnig komið fram að um sé að ræða skömmtunarkerfi sem verið er að setja upp með þessu frv. ef að lögum verður, hér muni ráða geðþóttaákvarðanir húsnæðismálastjórnar og að draga eigi fólk í dilka. Við skulum líta aðeins nánar á þessi atriði. Það er nefnilega svo að í núgildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er ákvæði sem heimilar að draga fólk í dilka ef einhverjir kjósa að orða það svo. Þar er lánsréttur takmarkaður eftir tekjum og efnahag hjá ákveðnum hópum. Í núgildandi lögum er húsnæðismálastjórn heimilt að synja ákveðnum hópum um lán, jafnvel þó þeir séu sjóðfélagar í lífeyrissjóðum. Þau ákvæði, sem til staðar eru í núgildandi lögum, eru rýmri en hér er lagt til að gildi um efnafólk. Það er 1. gr. frv. sem hefur verið gagnrýnd. 1. gr. kveður á um að húsnæðismálastjórn sé heimilt að skerða eða synja um lán ef ríkar ástæður eru fyrir hendi vegna einnar eða fleiri af eftirfarandi ástæðum:

Umsækjandi á fyrir fleiri en eina íbúð. Umsækjandi á mikla íbúðareign fyrir, skuldlitla eða skuldlausa, samkvæmt nánari reglum sem ákvæði skulu sett um í reglugerð. Fyrri íbúðareign umsækjanda er skuldlítil og stærri en 180 m2 brúttó að frádregnum bílskúr og umsækjandi er að minnka við sig.

Ákvörðun húsnæðismálastjórnar um skerðingu eða synjun á láni skal vera rökstudd.

Það er einmitt þetta ákvæði. sem hefur sætt gagnrýni, að veita eigi húsnæðismálastjórn heimild til að skerða eða synja um lán þegar þær ástæður eru fyrir hendi sem hér eru taldar upp. Er hægt að tala um skömmtun í þessu sambandi þegar fyrir hendi eru að mínu mati sambærileg ákvæði um láglaunahópana í núgildandi lögum? Hvað segir þar? Þar segir, með leyfi forseta:

„Telji Húsnæðisstofnun að augljóst sé að umsækjandi geti með engu móti staðið undir fjármögnun viðkomandi íbúðar skal skýra umsækjanda frá því. Húsnæðismálastjórn er þá jafnframt heimilt að krefjast ríkrar ábyrgðar á láninu en að öðrum kosti synja um lánveitingu.“

Hérna þarf enga reglugerð að setja. Hér eiga láglaunahóparnir í hlut. Talaði nokkur um skömmtunarkerfi á sínum tíma þegar þetta ákvæði kom inn í núgildandi lög? Hefur nokkur talað um að það væri verið að úthýsa fólki þó ljóst sé á þessu eina ári sem lögin hafa verið í gildi að allt að 7% umsækjenda, sem eru láglaunafólk, hefur verið hafnað í kerfinu? Nú er verið að biðja um heimild til að hafna eða skerða lán hjá efnafólki sem er álíka stór hópur, eða um 7%, sem tekur til sín einn milljarð af takmörkuðu fjármagni húsnæðiskerfisins. Þá rísa margir upp til varnar. Ekki bara stjórnarliðar heldur líka verkalýðshreyfingin ef marka má það sem fram kemur í Vinnunni, málgagni ASÍ, málgagni launafólks, sem nýlega er komið út, en þar stendur:

„Hér eru 97% umsækjenda látin bíða eftir því að pólitískur stóridómur sakfelli hin 3%, efnafólkið.“ Kom nokkuð svona í Vinnunni, blaði láglaunafólks, á þessu ári þar sem hundruðum láglaunafólks hefur verið hafnað í þessu húsnæðiskerfi? Ég hef ekki orðið vör við það. Ég er tilbúin til þess að falla frá 1. gr. frv. ef þm. eru tilbúnir til að taka upp það ákvæði sem gildir um láglaunafólk og orðalaginu breytt en það verði heimfært yfir á efnafólkið. Þá gæti ákvæðið, sem nú gildir um láglaunafólk en ætti þá að gilda um þá betur settu, hljóðað svo, með leyfi forseta:

Telji Húsnæðisstofnun að augljóst sé að umsækjandi þurfi ekki á láni að halda vegna góðs efnahags skal skýra umsækjanda frá því. Húsnæðismálastjórn skal gefa viðkomandi tækifæri til að sýna fram á að viðkomandi þurfi á láninu að halda. Geti hann það ekki skal synja um lánveitingu.

Hér væri um sambærilegt ákvæði að ræða fyrir þá efnameiri og nú gildir fyrir láglaunahópana. Það er alfarið á mati húsnæðismálastjórnar hvaða reglum er beitt þegar þessu láglaunafólki er hafnað. Alþingi taldi ekki ástæðu til að setja neitt um það í lög, ekki einu sinni í reglugerð. Þetta er alfarið á mati húsnæðismálastjórnar.

Láglaunafólk fær svona bréf eins og þetta: „Greiðslubyrði fyrirhugaðrar fjárfestingar er umfram líklega greiðslugetu yðar. Samkvæmt framkomnum upplýsingum telur raðgjafarstöðin því ekki fært að mæla með lánsumsókn yðar að svo komnu máli. Jafnframt þessu skal yður tilkynnt að ráðgjafarstöðin er að sjálfsögðu reiðubúin til viðræðna við yður um þau íbúðarkaup sem ætla má að samræmist greiðslugetu yðar og unnt væri að mæla með lánveitingum til.“ Síðan eru faldar upp hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar þessari synjun, m.a. að mánaðartekjur viðkomandi hafi ekki dugað fyrir láninu. Opinber gjöld sýni líka að það þurfi að hafna viðkomandi o.s.frv.

Það er alfarið á valdi Húsnæðisstofnunar hvernig hún hafnar láglaunafólkinu. Af hverju er húsnæðismálastjórn þá ekki alveg eins treystandi til að fara með lög og reglur gagnvart þeim efnameiri? Að beita þeim lögum og þeim reglum sem hugsanlega yrðu sett um þá efnameiri af þeirri skynsemi sem til er ætlast með þeirri lagasetningu? Enda er talað um það um 1. gr. að túlka eigi þetta ákvæði mjög þröngt.

Ákvæði 3. gr. hefur einnig verið gagnrýnt. Hvað er verið að fara fram á með þeirri lagabreytingu sem þar er lögð til? Fjármagnið er takmarkað í húsnæðislánakerfinu. Það fjármagn sem er til ráðstöfunar dugar einungis til að mæta umsóknum þeirra sem eru að kaupa í fyrsta sinn og þeirra sem eru að stækka við sig úr lítilli, skuldum hlaðinni íbúð vegna stækkunar á fjölskyldu. Hvað er verið að reyna að gera með ákvæði 3. gr. sem einnig hefur verið gagnrýnt og talað um skömmtunarkerfi og að draga eigi fólk í dilka? Það er engin breyting að því er varðar röðun og afgreiðslu umsókna til þeirra sem eru að kaupa í fyrsta sinn. En það er beðið um heimild til þess að húsnæðismálastjórn geti af þessu takmarkaða fjármagni veitt t.d. fjögurra manna fjölskyldu, sem býr í tveggja herbergja íbúð en þarf að stækka við sig upp í þriggja herbergja íbúð, forgang fram yfir hjónin sem eru í raðhúsi og eru að stækka við sig upp í einbýlishús. Eins og ákvæðin eru núna er það þannig að hjón sem eru að stækka við sig úr raðhúsi upp í einbýlishús eða þeir sem eiga kannski þrjár eignir og eru að fá sér þá fjórðu og sækja um í janúar — þetta fólk er tekið fram yfir láglaunafjölskylduna sem sótti um í september og er að stækka við sig upp í þriggja herbergja íbúð. Hún þarf að bíða ári lengur en þetta fólk. Og hvaða fólk er það sem er í þessum biðröðum, þetta efnafólk? Er þetta ekki fólk sem hefur t.d. fengið lán úr lífeyrissjóðunum áður og byggt sínar íbúðir og sín hús? Er þetta ekki það fólk sem hefur grætt t.d. á verðbólgunni, þar sem verðbólgan hefur greitt niður lán þess? Það er t.d. talið að þeir sem eignuðust húsnæði áður en lán voru verðtryggð, fyrir 1980, einkum þó á árunum 1970–1980 þegar neikvæðir raunvextir voru, hafi fengið að gjöf 90 milljarða króna. M.ö.o., þetta fólk hefði þurft að greiða 90 milljörðum meira fyrir sínar eignir ef það hefði búið við sömu lánakjör og þeir sem byggðu eftir 1980. Það er þetta fólk kannski, margt hvert, sem á að taka núna í forgang fram yfir láglaunafjölskylduna, fjögurra manna, sem er í tveggja herbergja íbúð og þarf að bíða mörgum mánuðum lengur af því að kerfið býður þessu fólki að fá lán til jafns við það.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að fara ofan í stærstu atriðin sem gagnrýnd hafa verið í frv. í ljósi bréfs frá þingflokki Sjálfstfl. og í ljósi þeirrar ályktunar sem fram kom frá fulltrúaráði Framsfl. í gær og í ljósi þeirra ummæla sem viðhöfð hafa verið í fjölmiðlum af forustumönnum stjórnarflokkanna um vinnubrögð af minni hálfu og um það að ég væri að búa til skömmtunarkerfi í Húsnæðisstofnun. Ég hefði gjarnan viljað að þessir sömu aðilar hefðu tekið undir það þegar ég og fleiri stóðum í þessum ræðustól fyrir nokkrum mánuðum síðan og töluðum einmitt um það fólk sem hafnað hafði verið úr húsnæðiskerfinu. Ég sé ekkert að því þó að sömu ákvæðum sé beitt að því er efnafólkið varðar, þá sem eiga margar eignir fyrir, þá sem eru að bæta við sig einni eign í viðbót við þá fimmtu sem þeir eiga.

Ef til er nóg fjármagn gætu þeir sem gagnrýna þá leið sem ég vil fara bent mér á hvar það er að fá. Ef við höfum þessar almennu reglur eins og nú hafa gilt þurfum við bara einfaldlega á miklu meira fjármagni að halda. Mér finnst ég einhvern tíma hafa heyrt raddir tala um það að nógu mikið fjármagn væri komið í húsnæðislánakerfið, þar þyrfti að draga í land. Þar væri verið að ausa of miklu í, bæði í ríkisframlagi og í lánveitingum. Ég er einmitt tilbúin til þess að aðstoða þá sem hafa þessar skoðanir á að mikið fjármagn fari í húsnæðiskerfið með því að draga úr sjálfvirkni í húsnæðiskerfinu, eins og ég er að reyna að gera með frv.

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um reynsluna af nýja húsnæðislánakerfinu. Í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem undirritaðir voru í febrúar 1986 tókst þetta víðtæka samkomulag um breytingar á húsnæðislánakerfinu. Um var að ræða grundvallarbreytingar á húsnæðiskerfinu og var frv. um það flutt á tiltölulega skömmum tíma á Alþingi, en nýja húsnæðislánakerfið tók gildi í september 1986. Samkomulag aðila vinnumarkaðarins var gert í febrúarmánuði 1986, en frv. varð að lögum í maí 1986. Af þessu sést að lítill tími gafst til að kanna til þrautar ýmsar þær forsendur sem lögin byggðu á og gengið var út frá á þeim tíma. Áður en ég geri í einstökum atriðum grein fyrir ákvæðum frv., sem hér er til umræðu, tel ég rétt að draga fram nokkrar staðreyndir í ljósi reynslunnar af nýja húsnæðislánakerfinu.

Komið hefur í ljós að margar af veigamiklum grundvallarforsendum, sem húsnæðislánakerfið byggði á, hafa ekki staðist. Forsendur frv. 1986 voru að 3800 umsóknir mundu berast fyrstu tvö árin og 3400 umsóknir eftir það. Í stað 3800 umsókna á ári sem gert var ráð fyrir í forsendum frv. hafa á liðlega einu ári borist á milli 10 og 11 þús. umsóknir eða nær þrefalt fleiri umsóknir en forsendur laganna byggðu á. Fjármagn sem til þarf til þess að standa undir þessum lánsumsóknum er um 15 milljarðar kr., þ.e. 10 milljörðum meira en ráð var fyrir gert. Á fyrstu 12 mánuðum hins nýja húsnæðislánakerfis bárust jafnmargar umsóknir og reiknað hafði verið með á 32 mánuðum.

Hinn 1. okt. sl. hafði Húsnæðisstofnun ráðstafað um 8,7 milljörðum króna í lánsloforð vegna umsókna sem bárust á tímabilinu frá 1. sept. 1986 til 12. mars sl. þegar hætt var að gefa út lánsloforð, en þá voru lánsloforðin orðin um 6100. Þegar hætt var að gefa út lánsloforð í nýja húsnæðislánakerfinu í marsmánuði hafði verið ráðstafað öllu fjármagni Byggingarsjóðs ríkisins 1987 og 1988 og auk þess um 380 millj. kr. af ráðstöfunarfé ársins 1989. Biðtími eftir lánum hefur sífellt verið að lengjast og er nú orðinn um 29 mánuðir, en forgangshópar fá þó fyrri hluta láns eftir 23 mánuði. Um næstu áramót hefur verið lofað 14–15 milljörðum kr. í lán sem koma eiga til greiðslu á næstu tveimur til þremur árum. Þegar afgreiðslu þeirra tæplega 4000 umsókna, sem nú bíða, lýkur verður búið að ráðstafa öllu ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins fyrir árið 1989 og sennilega fram í mars 1990. Þegar kemur fram á næsta vor eða sumar verður að óbreyttu einnig búið að ráðstafa öllu fjármagni ársins 1990. Innan fárra mánaða verður farið að tilgreina á lánsloforðum um bindandi greiðsludaga árið 1991.

Þegar verið er að velta fyrir sér ýmsum breytingum Á nýja húsnæðislánakerfinu, jafnvel algjörri uppstokkun, er einmitt nauðsynlegt að hafa í huga að þegar er búið að binda það fjármagn sem húsnæðiskerfið hefur yfir að ráða fram á árið 1989. Verði áfram gefin út lánsloforð í óbreyttu kerfi verður innan örfárra mánaða búið að ráðstafa fjármagni húsnæðiskerfisins fram til 1991 eða fjögur ár fram í tímann. Með útgáfu bindandi lánsloforða svo langt fram í tímann er svigrúmið í raun mjög þröngt til þess að gjörbreyta þessu kerfi næstu árin. Þær breytingar, sem eru lagðar til í frv., eru í raun forsenda fyrir að skapa það svigrúm, ef vilji er fyrir hendi og samstaða næst, til þess að breyta þessu húsnæðislánakerfi.

Ég er vissulega tilbúin til að skoða allar þær hugmyndir sem geta fært húsnæðiskerfið til betri vegar. Ég tel að húsnæðiskerfið hafi fyrst og fremst skyldur við þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn og við þá sem eiga litla íbúð fyrir og eru að stækka við sig af fjölskylduástæðum eða vegna annarra sambærilegra ástæðna. Síðan þarf bankakerfið að vera í stakk búið til þess að taka við öðrum og bjóða þá gjörbreytt lánakjör frá því sem nú er. T.d. þyrftu bankarnir að bjóða upp á miklu lengri lánstíma en nú er og taka að öðru leyti þátt í fjármögnun til húsnæðismála með sama hætti og gengur og gerist hjá okkar nágrannaþjóðum.

Það mætti hugsa sér, þegar jafnvægi væri komið á hið almenna húsnæðiskerfi, að hluta af fjármagni lífeyrissjóðanna yrði veitt í bankakerfið. Við útfærslu húsnæðiskerfisins og sérstaklega með aukinni þátttöku bankakerfisins í húsnæðismálunum kemur þessi leið afar sterklega til greina sem framtíðarlausn. Ástand kerfisins nú er hins vegar með þeim hætti að þessar breytingar hljóta að taka nokkurn tíma því við höfum þegar bundið fjármagnið langt fram í tímann. Fjárþörf þeirra kaupenda sem kaupa á hverju ári í fyrsta sinni er 4,1 milljarður. Fjárþörf þeirra sem eiga lítinn eignarhluta í fyrri eign er ekki undir 1,4 milljörðum á ári. Heildarlánaþörf þessara tveggja hópa er samanlagt um 5,5 milljarðar á verðlagi haustsins 1987. Það samsvarar öllu ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins á næsta ári, 1988, samkvæmt fjárlögum. Um áramótin næstu verða aðrir umsækjendur á biðlista ekki færri en um 3000 sem samkvæmt þessari hugmynd ætti að vísa á bankakerfið, en áætluð lánsfjárþörf þessa hóps yrði hátt í 4–41/2 milljarður króna. Ef þessum hópi væri öllum vísað á bankakerfið mundi ráðstöfunarfé Byggingarsjóðsins duga til að stytta til muna biðtíma hinna. Hins vegar gæti Byggingarsjóðurinn ekki séð af neinu fé í a.m.k. tvö ár að óbreyttu til bankakerfisins af því fé sem hann fær frá lífeyrissjóðunum því að það er þegar bundið eins og ég áður sagði.

Eftir að þær breytingar sem lagðar eru til á húsnæðislánakerfinu hafa tekið gildi má hins vegar hugsa sér að flytja ákveðinn hóp úr opinbera húsnæðislánakerfinu inn í bankakerfið í áföngum. Þá ætti að byrja á þeim efnameiri sem synjað yrði um lán af efnahagsástæðum. Síðan kæmu hópar með minnstan forgang til lána og svo koll af kolli. Snögg breyting á húsnæðiskerfinu í þessa veru gæti að ýmsu leyti skapað mikil vandamál. Hún er hins vegar hugsanleg í áföngum og er í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Nauðsynlegar foraðgerðir til að skapa það svigrúm sem þarf felast hins vegar í þeim tillögum sem lagðar eru til í þessu frv.

Það er nauðsynlegt að vekja athygli á að 3800 umsóknir bíða afgreiðslu og þær munu kosta um 61/2 milljarð króna. Ef á nýjan leik verður opnað, að óbreyttum lögum, mun á örskömmum tíma vera upp urið 20 milljarða kr. fjármagn sem nýlega var samið um við lífeyrissjóðina. Því verður að óbreyttu öllu ráðstafað á næstu mánuðum og kemur til greiðslu næstu þrjú árin. Til samanburðar má geta þess að Byggingarsjóður ríkisins hefur haft frá upphafi eða á 30 ára tímabili 52 milljarða til ráðstöfunar á verðlagi í júlí 1987. Ljóst er að ef allir sem nú eiga óafgreiddar umsóknir fá lánsloforð samkvæmt gildandi lögum mun það hafa mjög óheppileg áhrif á húsnæðismarkaðinn í landinu og gæti það valdið mikilli þenslu og óeðlilegri hækkun á íbúðaverði.

Á það má einnig benda að með nýju húsnæðislögunum reis mikil alda verðhækkana á fasteignamarkaði. Söluverð íbúða sl. 20 ár hefur ekki nema eitt ár, 1982, verið hærra en nú. Greiðslukjör á fasteignamarkaðinum eru mjög slæm og hækkun fasteignaverðs á milli áranna 1986 og 1987 stefnir í að verða sú mesta sem mælst hefur. Þetta hefur rýrt verðgildi lánanna mikið. Lán sem dugði á árinu 1986 fyrir útborgun í fjögurra herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu dugir nú einungis fyrir lítilli þriggja herbergja íbúð. Að óbreyttu gæti stefnt í enn meiri verðhækkanir á fasteignamarkaði en þegar er orðið.

Þá stefnir í að loka fyrir húsnæðiskerfið á nýjan leik á miðju næsta ári þar sem öllu fjármagni Byggingarsjóðs ríkisins, sem um hefur verið samið við lífeyrissjóðina, verður þá ráðstafað.

Á þetta vil ég leggja mikla áherslu, þ.e. að við erum að binda fjármagnið mjög langt fram í tímann og að við ráðstöfum þessum 20 milljörðum, sem um var samið við lífeyrissjóðina, á örskömmum tíma og bindum fjármagn húsnæðiskerfisins enn lengra fram í tímann en nú þegar er gert. Og líka það að ef á að afgreiða alla umsóknirnar, sem nú liggja fyrir, gæti það valdið verðhækkunum á íbúðunum og rýrt verðgildi þeirra lána sem fólk fengi. Í annan stað held ég að enginn vildi standa frammi fyrir því aftur að það þurfi að loka húsnæðiskerfinu í marga mánuði eins og nú hefur gerst.

Ég tel að lánakerfið gefi almenningi miklu meiri fyrirheit en það rís undir og fjárþörfin þar er mjög mikil eins og ég nefndi. Bara vegna þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu eign og þeirra sem eru að stækka hóflega við sig af fjölskylduástæðum er fjármagnsþörfin um 5–51/2milljarður kr.

Ég tel hins vegar á því annmarka að gjörbreyta kerfinu á skömmum tíma þar sem við höfum bundið ráðstöfunarféð langt fram í tímann. Ég vil undirstrika það og ítreka að þær aðgerðir, sem nú er gripið til, muni einar sér ekki nægja til að koma jafnvægi á húsnæðiskerfið. Þeim er einungis ætlað að koma í veg fyrir að húsnæðislánakerfið lendi í enn meiri ógöngum en þegar er orðið.

Ég vil líka benda á að ef allir eiga að njóta vaxtaniðurgreiðslu að jöfnu eins og nú gerist og ekki verða gerðar breytingar á vaxtastefnu sjóðsins mun allt framlag ríkissjóðs, um 1 milljarður á núgildandi verðlagi, renna til að greiða niður vexti árið 1992. Eftir það nægir það ekki til og veldur vaxtamismunurinn því að sjóðurinn verður gjaldþrota innan tveggja áratuga. Þá er talið að þegar kerfið hefur náð fullri stærð renni að óbreyttu ekki nema fjórðungur af ríkisframlaginu til þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu eign.

Með frv. fylgir ítarleg greinargerð sem skýrir markmiðið með einstökum greinum þess og heildarstefnu. Ég hef áður getið um þá hópa í 1. gr. sem heimilt er að hafna og skerða lánveitingar til. Það er áætlað að frá 1. september 1986 til október 1987 geti lánveitingar til þessa hóps kostað um 1100–1200 millj. kr. Og eins og fram kom í mínu máli áðan samsvarar það öllu ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs verkamanna til félagslegra íbúða á yfirstandandi ári.

Það er áætlað að um 400–500 aðilar muni að líkum tilheyra þessum hópi á hverju ári framvegis. Lán til þeirra munu nema 500–700 millj. kr. á ári. Þá eru ótaldir þeir sem eru að stækka við sig og eiga miklar skuldlausar eignir fyrir. Talið er að ekki færri en tíundi hver umsækjandi eigi fyrir skuldlausa eign í íbúð að verðmæti yfir 4 millj. kr. En í frv. er opnaður möguleiki á að breyta innbyrðis röðun þeirra umsækjenda sem eiga íbúð fyrir. Í núverandi kerfi þurfa þeir sem eiga íbúðir fyrir allir að bíða jafnlengi óháð öllum aðstæðum eins og ég greindi frá áðan.

Ég tel að frá því að kerfið var tekið í notkun hafi þýðing lánanna fyrir umsækjendur minnkað vegna þenslu á fasteignamarkaðinum. Vil ég í því sambandi benda á að í ágúst 1986, rétt fyrir gildistöku nýju húsnæðislaganna, hefði fullt lán til kaupa á notuðu húsnæði numið 84% af útborgun í 100 m2 fjögurra herbergja íbúð í Reykjavík. Í mars þegar úthlutun loforða var hætt dugði lánið einungis fyrir 66% af útborgun í sömu íbúð.

Það er einnig ljóst að umsækjendur, sem eiga miklar skuldlausar eignir fyrir, hafa fengið þessi loforð um lán úr nýja húsnæðiskerfinu. Lausleg könnun á eignarstöðu umsækjenda þegar liðlega 6000 umsóknir höfðu borist bentu til að ekki færri en 15% umsækjenda hafi um síðustu áramót átt fyrir skuldlausar eignir að verðmæti meira en 3 millj. kr., um 3% áttu fyrir skuldlausa eign að verðmæti yfir 4 millj. kr. Um 12% umsækjenda eða tæplega 1000 aðilar höfðu þá samkvæmt skattaframtali yfir 1 millj. kr. í tekjur árið 1985, fyrir tveimur árum, sem ætla má að svari til 1,7 millj. kr. árslauna í ár.

Miðað við fjölda umsókna sem borist höfðu í byrjun þessa mánaðar má áætla að 1500–1600 aðilar, sem eiga fyrir skuldlausa eign að verðmæti yfir 3 millj. kr., hafi öðlast lánsrétt. Samanlögð lánsloforð til þeirra gætu nú numið 2–2,2 milljörðum króna, en það er helmingi hærri upphæð en félagslega húsnæðiskerfið hafði úr að spila á þessu ári.

Kannanir benda einnig til að um 450 aðilar sem sóttu um á fyrstu 12 mánuðunum, sem húsnæðiskerfið var í gildi, hafi átt eignir að verðmæti 4 millj. kr. eða meira. Lánsloforð til þessara aðila kosta um 600 millj. kr. Nokkrir aðilar sem fengið hafa lánsloforð hafa átt fyrir fleiri en eina íbúð og eru dæmi um að umsækjandi hafi átt fimm íbúðir fyrir sem fengið hefur lánsloforð.

Ég taldi brýnt að draga fram þessar staðreyndir sem ég hef rakið til þess að hv. alþm. væri það vel ljóst hve mikill vandi er hér á ferðinni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að dregið verði úr þeirri miklu sjálfvirkni sem er í húsnæðislánakerfinu og á að gera það með breyttum útlánareglum til að draga úr eftirspurn eftir lánum.

Ég vil leggja á það áherslu að með þeim breytingum, sem hér eru lagðar til, er einungis verið að stíga fyrsta skrefið til að draga úr þessari miklu sjálfvirkni í húsnæðislánakerfinu, en ljóst er að til frekari aðgerða þarf að grípa til þess að koma jafnvægi á því að að öðrum kosti stefnir í algert óefni. Ég taldi rétt að stíga þetta fyrsta skref nú þannig að þegar opnað verður fyrir á nýjan leik í húsnæðiskerfinu taki afgreiðsla lánsumsókna mið af breyttum útlánareglum.

Í grg. með frv. er að finna ítarlegan rökstuðning fyrir þeim breytingum sem ég mæli fyrir. Ég vil því láta nægja að draga hér fram til viðbótar því sem ég hef áður sagt helstu rökin fyrir þessum breytingum í húsnæðislánakerfinu ásamt því að skýra hvers vegna brýnt er að þessar breytingar fái hraða afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi en ekki verði frestað að taka á þessu máli þar til heildarendurskoðun á nýja húsnæðislánakerfinu liggur fyrir.

Afgreiðsla á þessum 3800 umsóknum sem enn hefur ekki verið svarað og nú bíða afgreiðslu mun kosta um 61/2 milljarð. Ég tel að það sé mikilvægt að ráðstöfun þessa mikla fjármagns og afgreiðsla umsókna, þegar hún hefst á ný, verði með þeim hætti að sem best nýtist þeim sem nauðsynlega þurfa á fyrirgreiðslu að halda. Ég held að mjög brýnt sé að allir geri sér ljóst að ef þeir sem nú eiga óafgreiddar umsóknir fá lánsloforð samkvæmt gildandi lögum, þá geti það haft mjög óheppileg áhrif á húsnæðismarkaðinn í landinu og gæti valdið mikilli þenslu og óeðlilegri hækkun á íbúðaverði. Í þessu sambandi vil ég nefna að einhver brögð eru að því að umsækjendur sem fengið hafa lánsloforð sem koma eiga til greiðslu eftir marga mánuði og jafnvel ár leita eftir lánum út á lánsloforð sín á verðbréfamarkaðnum með miklum afföllum. Þetta getur líka haft mjög óheppileg áhrif á fasteignamarkaðinn auk þess sem það gæti leitt til þess að lánin nýtist umsækjendunum verr en ella. Í fyrsta lagi þarf að greiða mikið í afföll þegar lánsloforðin eru seld á verðbréfamarkaðnum og í annan stað er veruleg hætta á því að hluti lánanna hverfi með þessu móti í verðhækkanir sem hægt væri að komast hjá með þeim breytingum sem hér eru lagðar til á húsnæðislögunum.

Varðandi skerðingu lána til þeirra sem eiga fyrir stórar skuldlausar eignir minni ég enn á það og bið menn að hafa það í huga að lánsréttur er nú þegar takmarkaður í kerfinu eftir tekjum og efnahag og þá vitna ég til þeirra sem hafa lágar tekjur og lélega eignastöðu að þeir fá oft synjun á lánum.

Í 2. gr. er að finna tvær efnisbreytingar. Þar er í fyrsta lagi lagt til að ákvæðinu, sem leggur þá skyldu á herðar Húsnæðisstofnunar að veita öllum umsækjendum bindandi lánsloforð innan tveggja mánaða, er breytt. Þess í stað er kveðið á um að svar berist þremur mánuðum eftir að umsókn er lögð fram í stað tveggja mánaða frests samkvæmt núgildandi lögum, en sá tími hefur reynst of skammur samkvæmt upplýsingum Húsnæðisstofnunar. Í þessu svari, sem á að berast þremur mánuðum eftir að umsókn er lögð fram, fengi viðkomandi að vita um lánsrétt sinn og líklegan afgreiðslutíma láns. Svar um lánsupphæð á síðan að berast eigi síðar en einu ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu. Það ákvæði er mjög mikilvægt eins og fram kemur í grg. með þessu frv. Með þessu móti þarf Húsnæðisstofnun til að mynda ekki að binda fjármagn sitt nema 1–11/2 ár fram í tímann sem er vissulega mikilvægt fyrir fjármálastjórn Byggingarsjóðsins og sveigjanleika í röðun og afgreiðslu lánsloforða. Með þessu móti gefst líka betri tími en áður fyrir ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar að sinna því veigamikla hlutverki að láta umsækjendum leiðbeiningar í té og gera með þeim greiðsluáætlun, en ætlunin er að ráðgjafarstöðin sýni frumkvæði í þessum efnum og er því hér um nýja leið að ræða til að koma í veg fyrir að fólk lendi í ógöngum.

Þær reglur, sem nú gilda og skylda Húsnæðisstofnun til að veita bindandi svar innan tveggja mánaða, eru mjög óeðlilegar í því ástandi sem við búum nú við og mjög óeðlilegt að þurfa að gefa bindandi lánsloforð kannski þrjú ár fram í tímann eins og nú stefnir í. Einnig verður að ætla að það sé nægjanlegt svigrúm fyrir umsækjendur að vita með eins árs fyrirvara hvenær lánið kemur til útborgunar ef þeir fá vitneskju um það í upphafi hvenær líklegt er að lánið verði afgreitt.

Um 3. gr. er þetta að segja: Eins og nú er á að afgreiða lánin í sömu röð og umsóknir berast, þó þannig að þeir sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn fái forgang. Í 3. gr. þessa frv. er engin breyting að því er varðar þá sem kaupa í fyrsta sinn og skulu lánin eftir sem áður afgreidd til þeirra í sömu röð og þau berast inn. Aftur á móti er um að ræða breytingu fyrir þá sem eiga íbúð fyrir, en í frvgr. er kveðið á um að heimilt sé að láta fjölskyldustærð og skuldlausan eignarhlut í fyrri íbúð hafa áhrif á biðtíma eftir láni til þeirra innbyrðis, þannig að þeir sem eru verr settir að þessu leyti gangi fyrir hinum. Með þessu ákvæði er leitast við að stytta biðtíma þeirra sem mesta þörf hafa fyrir aðstoð. Í þessum hópi geta verið fjölskyldur sem eiga fyrir litlar eignir skuldum hlaðnar og þurfa nauðsynlega sakir fjölskyldustærðar að stækka við sig. Enginn greinarmunur er í núgildandi lögum gerður á röðun og afgreiðslu til þessara fjölskyldna eða þeirra t.d. sem eiga fyrir stórar skuldlausar eignir og eru að minnka við sig, svo að ekki sé talað um til þeirra sem eiga fyrir margar íbúðir og eru kannski að bæta við sig fleirum.

Ég legg áherslu á að í 3. gr. er kveðið á um það að settar verði nákvæmar reglur um afgreiðslu á lánunum og að þessar reglur verði öllum aðgengilegar. Þannig viti allir umsækjendur um lánsrétt sinn svo að ekki á að þurfa að koma til að þar verði um geðþóttaákvarðanir að ræða eins og sumir hafa haldið fram. Ég vil ítreka að nú þegar eru umsækjendur valdir úr og þeim hafnað. Við mat á því hverjum skuli hafnað eru notaðar reglur sem húsnæðismálastjórn eða Húsnæðisstofnun hefur samið. Einnig er af hálfu stofnunarinnar túlkað hversu mikill eignarhluti í fyrri eign sé og þar með forgangur. Um þetta er engin sérstök reglugerð eða kveðið á um það í lögunum. Ákvæðið er mjög rúmt og alfarið í valdi Húsnæðisstofnunar að túlka þetta ákvæði varðandi þessa tekjulægstu hópa eins og það er frágengið í lögunum.

Ég vil í lokin fara örfáum orðum um 4. gr. frv. sem kveður á um heimild til þess að ákvarða mismunandi vexti innan hvers lánaflokks eða endurgreiða vexti, hvort tveggja eftir nánari reglum sem settar verða í reglugerð. Allir sem kynnt hafa sér fjármögnun og framtíðarhorfur húsnæðiskerfisins eru um það sammála að sá mikli vaxtamunur sem er á inn- og útlánum Byggingarsjóðs ríkisins mun að óbreyttu fljótlega sliga húsnæðiskerfið. Í skýrslu félmrh. á síðasta þingi um störf milliþinganefndar í húsnæðismálum kemur fram að útreikningar bendi til að verði mismunurinn á vöxtum á teknum lánum og veittum hjá Byggingarsjóði ríkisins meiri en 2–3% til lengdar muni lánakerfið sligast. Eftir síðustu samninga nú í september við lífeyrissjóðina er vaxtamismunurinn orðinn 3–31/2%. Ljóst er að ríkissjóður mun ekki ráða við að greiða niður vexti af lánum til húsnæðiskaupenda úr Byggingarsjóði ríkisins nema í fá ár ef kerfið verður eins og það er nú í lögunum og því verður ekki breytt. Miðað við óbreytt ríkisframlag, þá vexti sem samið hefur verið um við lífeyrissjóðina og óbreytta útlánsvexti mun allt framlag ríkissjóðs ekki duga til að greiða niður vaxtamuninn nema fram á árið 1992. Árið eftir, 1993, mun sjóðurinn þurfa að ganga á eigið fé og verður af þessum sökum gjaldþrota innan tveggja áratuga. Ef sú leið verður farin að hækka vextina um 0,5% mun allt ríkisframlagið eins og það er í ár, 1987, fara í vaxtaniðurgreiðslur árið 1993. Eftir það gengur sjóðurinn á eigið fé og verður gjaldþrota innan tveggja áratuga. Þó að vextirnir verði hækkaðir um 1% dugar það einungis þremur árum lengur. Þá verður sjóðurinn að fara að ganga á eigið fé eftir 1996. 1,5% vaxtahækkun dugar einungis til ársins 1998. Það jafngildir því að miðað við núverandi útlánareglur er fyrirsjáanlegt að jafnvel þó vextir af útlánum verði hækkaðir úr 31/2% í 5% dugir framlag ríkissjóðs eins og það er nú ekki lengur en til ársins 1998 til að greiða vaxtamuninn. Það fjármagn sem Byggingarsjóður ríkisins mun hafa að láni frá lífeyrissjóðunum mun vaxa mjög hratt á næstu árum. Þær upplýsingar sem nú er byggt á um ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna sýna að skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna verða á árinu 1990 um 18,6 milljarðar, 1995 48 milljarðar og árið 2000 um 80 milljarðar á núgildandi verðlagi. Ef menn hafa hugsað sér að greiða niður vaxtamun af þessum fjárhæðum til húsnæðiskaupenda er ljóst að annaðhvort þarf að koma til mikið árlegt framlag úr ríkissjóði eða lítill munur verður á vöxtum af skuldabréfum lífeyrissjóðanna og útlánsvöxtum Byggingarsjóðsins.

Ég nefndi áðan að eftir fjögur ár færi allt ríkisframlag, eða um 1 milljarður, í niðurgreiðslu vaxta og að tveim áratugum liðnum yrði húsnæðiskerfið að óbreyttu gjaldþrota. Árið 1996 eða eftir 10 ár yrði niðurgreiðsla vaxta um 1740 millj. kr. á núverandi verðlagi og jafnvel þó að nú yrði ákveðin 2% vaxtahækkun eða útlán Byggingarsjóðs ríkisins hækkuðu úr 31/2% í 51/2%, þá þyrfti engu að síður á árinu 1996 um 650 millj. kr. í vaxtaniðurgreiðslu.

Ég tel að til þess að leysa það vandamál sem hér hefur verið lýst þurfi að breyta uppbyggingu lánakerfisins sjálfs. Beina verður niðurgreiðslum á vöxtum til þeirra húsnæðiskaupenda sem taldir eru þurfa þeirra með. Losa verður um þá sjálfvirkni í kerfinu sem færir öllum sömu niðurgreiðslu án tillits til þess hverjar aðstæður þeirra eru. Ég hygg að það þekkist hvergi að niðurgreiðslur vaxta séu til allra með þeim hætti sem nú er f okkar húsnæðiskerfi. Af þessum sökum leysir einföld ákvörðun um allsherjarvaxtahækkun í kerfinu að mínu mati ekki vandann. Þó að þessa vaxtamismunar gæti ekki verulega í útstreymi Byggingarsjóðs ríkisins á þessu eða næsta ári, þá mun vaxtamismunurinn mjög fljótlega koma með miklum þunga á Byggingarsjóð ríkisins. Nefna má að ef ekkert verður að gert mun að fjórum árum liðnum allt ríkisframlagið eða 1 milljarður á núgildandi verðlagi fara í að greiða niður vexti. Því er nauðsynlegt að huga að því nú hvernig þessu mikla fjárhagsvandamáli Byggingarsjóðs ríkisins verði mætt og hvaða leiðir eru færar nú. Ég vil nefna nokkrar leiðir:

Í fyrsta lagi gætu valkostirnir verið óbreyttir vextir eins og nú er.

Í öðru lagi: Hækka vexti jafnt á öll lán.

Í þriðja lagi: Gera grundvallarbreytingu á stýringu vaxtaniðurgreiðslna a) með því að ákvarða mismunandi vexti innan hvers lánaflokks, b) að hækka alla vexti þannig að þeir verði allt að því marki sem ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði og endurgreiða síðan vexti gegnum skattakerfið eða Húsnæðisstofnun niður að ákveðnu marki til ákveðinna hópa, t.d. þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, þeirra sem stækka við sig hóflega vegna fjölskyldustærðar eða við aðrar sambærilegar aðstæður.

Í fjórða lagi mætti einnig nefna að þeir hópar sem njóta eiga sérstakra lánskjara af opinberu fé fá húsnæðislán með verulega niðurgreiddum vöxtum hjá Húsnæðisstofnun. Öðrum verður vísað á bankana og það jafnframt tryggt að bankastofnanir geti veitt lán til mun lengri tíma en nú er þó lánskjörin að öðru leyti verði bundin við markaðsvexti.

Í fimmta lagi: Endurgreiðsla eða niðurgreiðsla vaxta ráðist af tekjum viðkomandi og verði tekjutengd.

Þær fimm leiðir sem ég hef nefnt hafa allar sína kosti og galla. Um þær leiðir, sem eru auðveldastar í framkvæmd og þar sem reglur eru almennar og eins fyrir alla, gilda sömu veigamiklu annmarkarnir og í húsnæðislánakerfinu almennt. Þær eru of dýrar. Kerfið fær ekki undir þeim risið. Á þeim leiðum sem skila hvoru tveggja í senn, að treysta fárhagsstöðu sjóðsins og að vaxtaniðurgreiðslur renni til þeirra sem nauðsynlega þurfa á að halda, geta komið upp ýmsir erfiðleikar í framkvæmd sem ég tel þó að hægt sé að leysa ef sæmilegt samkomulag getur tekist um þau markmið sem að ber að stefna. Það markmið sem ég vil vinna eftir er að hlífa þeim við vaxtahækkunum sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, þeim sem eru að stækka hóflega við sig vegna fjölskyldustærðar og þeim sem búa við aðrar þær aðstæður sem teljast mega sambærilegar.

Miðað við þá umræðu sem um þetta ákvæði hefur orðið í fjölmiðlum tel ég ástæðu að nefna að engin ákvörðun liggur enn fyrir um hvaða leiðir verði farnar í þessu efni. Mín skoðun er sú að það muni enn taka nokkurn tíma, kannski vikur eða mánuði, að fá niðurstöður um frambúðarlausn á stýringu vaxta í húsnæðiskerfinu og hvaða leiðir séu heppilegastar að fara, ef gera á grundvallarbreytingu á vaxtaniðurgreiðslum í húsnæðiskerfinu. Auðvitað er hægt að ákvarða nú þegar einfalda vaxtahækkun í húsnæðiskerfinu sem gangi jafnt yfir alla. Ég er ekki fylgjandi þeirri leið því að ég tel að sú leið komi þungt niður á þeim sem nauðsynlegt er að hlífa við vaxtahækkunum og að jöfn vaxtahækkun, 1%, 11/2% eða 2%, hafi enga grundvallarþýðingu til að koma jafnvægi á stöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Þessi mál þarf því að skoða vandlega því að það getur skipt sköpum um fjárhagsafkomu sjóðsins og greiðslubyrði þeirra sem þurfa helst á niðurgreiddum vöxtum að halda hvernig á þessu máli er tekið.

Í 4. gr. frv. er einungis um heimild að ræða til að beita mismunandi vöxtum eða endurgreiða vexti, en til þarf að koma lagabreyting ef beita á vöxtum í húsnæðiskerfinu með öðrum hætti en verið hefur.

Ég hef lagt á það mikla áherslu að frv. þessu verði hraðað hér á hv. Alþingi. Er það einkum vegna ákvæðis 1.–3. gr. frv. sem ég tel brýnt að afgreiðsla lána taki mið af þegar opnað verður á nýjan leik fyrir húsnæðislánakerfið. Það þarf síðan að skoða sérstaklega ef ákvæði 4. gr. um vexti veldur því að mikil töf getur orðið á afgreiðslu frv. hér á hv. Alþingi, ekki síst ef sá misskilningur er uppi hjá stjórnarliðum að ákvæðið um vextina í frv. sé fyrst og fremst inni í frv. að minni kröfu og ósk og helst að skilja án nokkurs samráðs við aðra.

Sannleikur málsins er hins vegar sá að ég taldi lengri tíma þurfa í vaxtamálin og því væri skynsamlegra að stíga aðeins þau skref nú sem bein áhrif hefðu á afgreiðslu lána þegar opnað yrði fyrir húsnæðislánin á nýjan leik. Vaxtamálin yrðu síðan tekin í 2. áfanga þannig að ekki þyrfti að tefja að opnað yrði fyrir húsnæðislánakerfið á nýjan leik. En í þessu efni að því er 4. gr. varðar tók ég tillit til óska samstarfsaðila minna í ríkisstjórn og því er það nokkuð sérkennilegt og kom mér algjörlega í opna skjöldu að þurfa að sæta ómaklegum árásum stjórnarliða í fjölmiðlum um vaxtaákvæði þessa frv. sem og reyndar annað sem þessu frv. viðvíkur. Verði þetta ákvæði í 4. gr. til þess að stjórnarliðar ætli að tefja afgreiðslu málsins á þingi þá kemur fyllilega til greina að fella vaxtaákvæðið út úr frv. og taka það upp í öðru og nýju frv. sem lagt yrði fyrir Alþingi, þannig að ekki þurfi nú vegna vaxtaákvæðanna að tefja frv. því að það er brýnt orðið að létta af þeirri óvissu sem nú ríkir um afgreiðslu lána hjá Húsnæðisstofnun.

Um gildistökuákvæði frv. er þetta að segja: Ég leitaði álits ríkislögmanns á því að ákvæði frv. yrðu látin gilda afturvirkt, þ.e. til þeirra umsókna sem lagðar voru inn eftir lokun á afgreiðslu lánsumsókna frá 13. mars sl. Ríkislögmaður taldi að mjög varhugavert væri að láta 1. gr. frv. gilda afturvirkt frá 13. mars. Vísaði hann þar til þess að ákvæðið næði til þröngs hóps og í sumum tilfellum gæti skerðing á lánsrétti verið algjör. Með vísan til þessa álits ríkislögmanns taldi ég rétt að leggja málið fyrir Alþingi með þeim hætti að ákvæðið gilti fyrst frá þeim degi að frv. var lagt fyrir Alþingi. Verður að telja slík ákvæði nauðsynleg til að koma í veg fyrir að meðan Alþingi hefur málið til meðferðar verði um óeðlilega mikinn fjölda nýrra umsókna að ræða hjá þeim sem telja hættu á að þeirra lánsumsóknum verði hafnað eða lán til þeirra skert eftir gildistöku laganna.

Herra forseti. Miðað við það sem á undan var gengið með þetta frv. taldi ég nauðsynlegt að skýra þetta í ítarlegu máli. Ég legg áherslu á skjóta afgreiðslu málsins hér á hv. Alþingi þannig að ekki þurfi að verða frekari dráttur en þegar er orðinn á að opna fyrir afgreiðslu lána á nýjan leik og ég óska eftir samstöðu hv. þm. um það að létta af þeirri óvissu sem nú er í húsnæðislánakerfinu.

Ég óska eftir, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.