14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4051 í B-deild Alþingistíðinda. (2830)

209. mál, starfsmenn á vernduðum vinnustöðum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún hefur gefið og báru eins og vænta mátti vitni um að hún hefur fullan hug á því að þessi mál verði í lagi. Sannleikurinn er sá að að því eru töluverð brögð að fólki gangi illa að fá inngöngu í lífeyrissjóði og það segir sig sjálft að með það er óánægja vegna þess að slík innganga tryggir fólki t.d. aðgang að lánum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins svo eitthvað sé nefnt.

Vitaskuld er fötlun manna og ástæða fyrir störfum á vernduðum vinnustað harla margbrotin og margvísleg þannig að ég tek undir það með hæstv. ráðherra að ég held að það sé nauðsynlegt að frá þessum málum verði gengið við kjarasamninga. Í því bréfi sem ég minntist á áðan að Lára V. Júlíusdóttir hefði skrifað fyrir hönd Alþýðusambands Íslands segir, með leyfi forseta:

„Miðstjórn ASÍ skipaði á sl. ári nefnd til að fjalla um málefni verndaðra vinnustaða og samskiptamál við samtök fatlaðra. Í nefndinni hefur það verið samdóma álit að eðlilegt sé að það fólk sem áður hefur verið á almennum vinnumarkaði, greitt í lífeyrissjóð og verið félagsmenn í verkalýðsfélögum haldi áfram tengslum sínum við fyrri félög og greiði í sinn lífeyrissjóð áfram. Vinna þess á vernduðum vinnustað sé oft tímabundin endurhæfing og því eðlilegt að það rjúfi ekki tengslin við fyrra verkalýðsfélag og lífeyrissjóð. Aðrir starfsmenn á vernduðum vinnustöðum, sem ekki hafa verið í verkalýðsfélagi eða greitt í lífeyrissjóð, eigi hins vegar að vera í viðkomandi stéttarfélagi og greiða í viðkomandi starfsgreinasjóð. Enn hefur ekki verið gengið frá samningi við verndaða vinnustaði þar sem eðlilegt væri að ákvæði sem þetta væri umsamið.“

Ég held, herra forseti, að þetta fólk sé einmitt verst sett. Venjulega fær fólk aðgang að sínum fyrra lífeyrissjóði, en ég held að það sé erfiðara fyrir fólk sem er að koma í fyrsta skipti út á vinnumarkað á vernduðum vinnustað að finna sér stað eða fá sér fundinn stað innan lífeyrissjóðakerfisins.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Ég treysti því og veit raunar að hæstv. félmrh. mun ganga í þetta mál og ég held að það sé rétt að það þurfi að gera könnun á hvernig þessum málum sé varið. Mér er t.d. kunnugt um að það hefur gengið mjög illa fyrir þetta fólk að fá inngöngu í Iðju, ekki af neinni sérstakri mannvonsku á þeim bæ heldur hafa menn ekki verið vissi, um hvernig ætti að fara með þessi mál. Ég vil því skora á hæstv. félmrh. að vinda að því bráðan bug að ganga frá málum sem þessum. Það er óviðunandi að einhverjir þegnar í þjóðfélaginu sem vinna vinnuna sína nái ekki félagslegum réttindum.