14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4052 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

216. mál, heilbrigðiseftirlit á innfluttri matvöru

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 486 að koma fram með fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um heilbrigðiseftirlit á innfluttum matvörum. Fsp. er þannig, með leyfi forseta:

„Hvernig er heilbrigðiseftirliti hagað á innfluttri matvöru, t.d. á grænmeti og ávöxtum?"

Ástæðan fyrir því að ég legg fram fsp. er sú að við höfum af því fréttir að það sé í nágrannalöndunum mjög hert eftirlit með matvörum, bæði þeim sem eru framleiddar þar og ekki síður í sambandi við innflutning frá öðrum löndum. Sögusagnir eru um að t.d. grænmeti frá Hollandi, sem var sent til Finnlands, hafi verið endursent og sagt að þetta væri ekki söluvara. Sömu heimildir segja að Hollendingar hafi staðið frammi fyrir því að setja þessa sendingu annaðhvort á öskuhaugana eða þá að senda það til Íslands þar sem þeir töldu að heilbrigðiseftirliti væri mjög ábótavant hér. Svipaðar sögur hefur maður heyrt og ég hef nýjar fréttir af því t.d. í Svíþjóð að þar er mjög hert eftirlit með sölu á öllum matvörum.

Það er líklegt að þessar hertu aðgerðir séu m.a. vegna þess að nú skömmu fyrir jólin var upplýst í Bretlandi að fyrir 30 árum hefði orðið mikið kjarnorkuslys á Norðvestur-Englandi. Það er talið að það hafi verið, eftir því sem Morgunblaðið segir í fyrirsögn, annað mesta kjarnorkuslysið.

Í þætti í ríkisútvarpi Bretlands kom fram hjá Tony Benn, fyrrv. orkumálaráðherra verkamannaflokksins, að svipuðum atvikum hefði verið haldið leyndum. Ef öll skjöl síðustu þriggja áratuga væru nú gerð opinber mundi tugur svipaðra atvika koma fram í dagsljósið. Þetta er upp úr Morgunblaðinu í sambandi við þessa frétt.

Af þessum ástæðum tel ég sjálfsagt að það verði athugað hvernig þessum málum er fyrir komið hjá okkur. Þó það sé ekki í þessari frétt hvort það er átt við Bretland eitt eða hvort það er átt við veröldina alla í sambandi við þessi kjarnorkuslys hljóta Íslendingar að gera kröfu til að þessu eftirliti sé komið í skikkanlegt horf eins og það er í öðrum löndum. Undanfarna daga hafa verið samþykkt lög á Alþingi sem gætu leitt til þess að það yrði vaxandi innflutningur á matvælum og þess vegna er enn brýnna að þessi mál séu skoðuð og þeir sem kaupa þessar vörur viti að það er haft eftirlit með slíkum innflutningi.