14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4053 í B-deild Alþingistíðinda. (2833)

216. mál, heilbrigðiseftirlit á innfluttri matvöru

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Fyrir nokkrum sólarhringum svaraði ég mjög svipaðri fsp. frá hv. fyrirspyrjanda, 6. þm. Norðurl. e., og þeirri sem hér er á dagskrá nú. Það var í umræðum um frv. um söluskatt. Ég lét koma þá fram þá skoðun mína og það álit að þessum málum væri ekki nægjanlega vel fyrir komið hjá okkur eins og málum er háttað og það þyrfti sannarlega að taka á þeim málum og ég hef þegar sett í gang athuganir og undirbúning að því að á verði breyting.

Heilbrigðiseftirlit með innfluttri matvöru er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna í samræmi við lög nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. og lög nr. 24/1936, um tilbúning og dreifingu matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara. Eftirlitið fer fram undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, en hlutverk þeirrar stofnunar er fyrst og fremst að vera leiðbeinandi og aðeins í undantekningartilfellum fer stofnunin með beint eftirlit. Sem dæmi um slíka undantekningu má nefna eftirlit með innflutningi matvæla frá Austur-Evrópulöndum, en hann sætir ákveðnum takmörkunum eftir kjarnorkuslysið í Tsjernóbil 1986. Framkvæmd sjálfs eftirlitsins eins og annars heilbrigðiseftirlits er hins vegar í höndum heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaganna í samræmi við áðurnefnd lög.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að koma á þessu eftirliti í landinu öllu og er nú svo komið að starfandi eru sérfróðir heilbrigðisfulltrúar með starfsréttindi á hverju eftirlitssvæði, en þau eru 13 talsins.

Heilbrigðiseftirlit með innfluttri matvöru er framkvæmt á svipaðan hátt og annað matvælaeftirlit. Það fer fyrst og fremst fram í verslunum og hjá dreifingaraðilum. Um nokkurt skeið hafa ráðuneytið og Hollustuvernd ríkisins bent á nauðsyn þess að tekin verði upp önnur stefna varðandi þetta eftirlit og að það verði framkvæmt sem mest áður en varan er tollafgreidd. Ekki hefur þessi viðleitni hlotið náð fyrir augum fjárveitingavaldsins enn sem komið er. Það þekkja hv. alþm., ekki síst nú eftir nýafgreidd fjárlög, að umsóknum eða beiðnum um auknar fjárveitingar til Hollustuverndarinnar varð því miður ekki fram komið eins og óskir stóðu til. Ég hafði lagt fram óskir um að fjölga þar um tvö stöðugildi til að geta bætt og aukið m.a. það eftirlit sem hér er til umræðu.

Ég hef fyrir nokkru beðið sérfræðinga Hollustuverndar ríkisins og ráðuneytisins að gera tillögur um framkvæmd eftirlitsins. Byggjast tillögur þeirra fyrst og fremst á því að Hollustuvernd ríkisins verði falið að reka þetta eftirlit sem sérhæft eftirlit í beinni samvinnu við tollayfirvöld, enda sé heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna ekki í stakk búið að annast það. Eftirlitið krefst töluverðrar sérkunnáttu og rannsókna, auk þess sem mestur hluti innflutnings fer um tiltölulega fáar hafnir og því eru ekki rök til þess að eftirlitið lendi með misjöfnum þunga á sveitarfélögunum. Á þennan hátt yrði tekið upp beint eftirlit áður en til tollafgreiðslu kæmi og er enginn vafi á því að slíkt eftirlit yrði miklu áhrifaríkara en það sem framkvæmt er í dag.

Ég vil nota tækifærið og vekja athygli á því að eigi áðurnefndar tillögur að ná fram að ganga og innflutningseftirlit að vera eins og gerist hjá nágrannaþjóðunum þarf að koma til stóraukinn skilningur hjá fjárveitingavaldinu á störfum Hollustuverndar ríkisins. T.d. þarf að koma fyrir efnarannsóknum á matvælum innan stofnunarinnar, en fyrirmæli þar að lútandi hafa verið í lögum frá 1976 án þess að hægt hafi verið að framfylgja þeim. Vil ég benda á að fyrir Alþingi hefur verið lagt frv. til laga um breytingu á lögum nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og var reyndar dreift í þingsölum í dag, hefur tafist nokkuð, því miður, hefði átt að vera komið fram fyrir alllöngu því það er nokkuð síðan það var afgreitt í ríkisstjórn og þingflokkum, en hefur einhverra hluta vegna tafist að koma því hér fram. En því var dreift í dag.

Ég vænti þess að mér muni fljótlega gefast tækifæri til að mæla fyrir frv. Þar er reynt að taka á þessum þáttum og bendi ég sérstaklega á ákvæði frv. til bráðabirgða, en þar segir m.a. svo, með leyfi forseta:

„Innan árs frá gildistöku þessara laga skal á vegum Hollustuverndar ríkisins komið upp innflutningseftirliti með matvælum og öðrum neysluvörum svo og nauðsynjavörum sem innihalda eiturefni eða hættuleg efni.“

Að lokum vil ég benda á að meðan heilbrigðiseftirlit með innfluttri matvöru fer ekki fram áður en varan er tollafgreidd er hætta á því að til landsins berist alls kyns óþurftarvarningur sem jafnvel hefur verið vísað frá í öðrum löndum. Kann að vera, ekki ætla ég að bera neinar brigður á það sem kom hér fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að það sem hann sagði frá, reynslu frá öðrum löndum, kunni að vera rétt. Það getur því verið of seint að stöðva dreifingu eftir að varningurinn er kominn inn í verslanir eins og eftirlitinu er nú háttað hér hjá okkur.

Ég mun beita mér fyrir því að tillögur Hollustuverndar ríkisins um innflutningseftirlit nái fram að ganga sem allra fyrst. Vænti ég fulltingis hv. þm. við áðurnefnt frv. um breytingar á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit svo sú geti orðið raunin á.

Varðandi innflutning á hráu kjöti, nýju grænmeti og kartöflum gilda svo enn aðrar reglur er varða a.m.k. að hluta til verndun innlendrar framleiðslu, en það mál heyrir undir önnur ráðuneyti en heilbr.og trmrn. og mun ég því ekki fjalla nánar um það mál hér.