14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4055 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

216. mál, heilbrigðiseftirlit á innfluttri matvöru

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir hans svör. Ég vil taka fram að það er rétt að hann svaraði hér um bil þessu eftir að ég var búinn að spyrja um þetta þrisvar sinnum í umræðum á Alþingi. Ástæðan fyrir því að fsp. fór svo þessa leið var sú að ég var ekki búinn að fá neitt svar þegar ég lagði hana fram og síðan hef ég fengið enn þá fyllri upplýsingar um í hvaða ástandi þessi mál eru hér á landi.

Ég vil taka undir að það er sjálfsagt að rannsaka þetta í tolli, en nú hafa komið fram upplýsingar um slys sem fyrrv. orkumálaráðherra Bretlands segir að skipti tugum. Það hlýtur að verða til þess að við gerum kröfur til þess að stjórnvöld sjái um að geislamælingar fari fram á innfluttum matvælum. Mér er alveg ljóst að landbrn. á að fylgjast með innflutningi og hefur eftirlit með því, en ekki í sambandi við geislamælingar. En því miður er það þannig að þó það sé í lögum að grænmeti og kartöflur og annað eigi í hvert sinn að fá innflutningsleyfi hefur það ekki haldið. Við höfum a.m.k. orðið vör við það sum að t.d. hvítkál er á boðstólum mikinn hluta sumars. Hvort það er flutt inn áður en framleiðsla hér kemur á markað veit ég ekki, en það er mál sem þarf að kanna. Það er ekki hægt að sætta sig við neitt annað, miðað við þessar upplýsingar, en að nú sé tekið í taumana og þetta sé rannsakað og íslenskir neytendur geti ekki átt á hættu að hér komi á boðstóla vörur sem aðrar þjóðir hafa jafnvel vísað frá vegna þess að þær fullnægja ekki heilbrigðiskröfum þeirra landa.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þessi mál frekar, en ég skora á hæstv. heilbrmrh. að sjá til þess að það verði ekki nein vettlingatök á þessu máli.