14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4058 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

222. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands fyrir einkar glögg svör við þessari fsp. Ég tel að það sé mjög mikilvægt, sem fram kom í hans svari, að unnt verði að lesa af hinni nýju vísitölu framfærslukostnaðar upplýsingar um hag mismunandi tekjuhópa. Einnig tel ég mjög mikilvægt að fram koma þarna upplýsingar um mismunandi verðlag eftir landshlutum. Það er ákaflega mikilvægt. Og ég tel einnig mjög jákvætt að þessi nýi grunnur verði gefinn út þannig að Alþingi og þjóðin öll megi átta sig á því hvernig grunnur vísitölu framfærslukostnaðar er settur saman.

Ég vil hins vegar benda á það, eins og hæstv. ráðherra reyndar kom inn á, að ákvörðun um að nota þennan nýja grunn er kjarasamningamál í raun og veru, kauplagsnefndarmál og þar af leiðandi kjarasamningamál og ekki unnt að taka nýjan grunn upp öðruvísi en um það sé samið í nýjum kjarasamningum. Það er meginatriði sem menn þurfa að átta sig á. Einnig er athyglisvert að virða fyrir sér að með nýja grunninum verður vægi matarskattsins minna en í hinum gamla grunni og þess vegna er að mínu mati nýrri grunnurinn verri viðmiðun fyrir láglaunafólk en sá gamli. En það er svo annað mál sem við höfum rætt ítarlegar í þinginu undir öðrum dagskrárliðum, herra forseti.