14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4061 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

217. mál, innflutningur á fatnaði með fölsuðum upprunaskírteinum

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Fyrirspurnin er í þremur liðum. Fyrst hvort farið hafi fram könnun á því hvort stundaður sé innflutningur á fatnaði og öðrum varningi með fölsuðum upprunaskírteinum.

Svar: Könnun á því hvort stundaður sé innflutningur á varningi með fölsuðum upprunaskírteinum fer fram af hálfu tollyfirvalda sem liður í almennu tolleftirliti. Um síðustu áramót hófst tölvuvædd vinnsla tollskjala hjá tollstjóranum í Reykjavík og þar með kerfisbundin skráning athugasemda þeirra sem tollyfirvöld gera vegna tollskýrslugerðar innflytjenda, þar með talið athugasemda vegna upprunaskírteina. Áætlað er að tölvuvæðingu tollstjóraembætta úti um land allt verði lokið fyrir árið 1990, en hún er þegar orðin virk að því er varðar stærsta tollafgreiðslusvæðið. Þar með segir að athugasemdir af þessu tagi eru skráðar, tölvutækar og auðfengnar.

Í annan stað er svo spurt: Ef svo er, hvað leiddi hún í ljós?

Svar: Engar endanlegar tölur eru enn til eða hafa verið teknar saman enn um umfang slíks innflutnings, en að sögn yfirmanns vöruskoðunardeildar embættis tollstjórans í Reykjavík mun töluvert bera á því að fölsuðum upprunaskírteinum sé framvísað við tollafgreiðslu á vörum einkum þegar um fatnað er að ræða. Af þeim sökum er fatnaður m.a, talinn til þeirra viðkvæmu vörusendinga sem taldar eru þurfa sérstakrar skoðunar við og óheimilt að tollafgreiða svokallaðri DHL-hraðafgreiðslu.

Þá er spurt: Hafi slík könnun ekki farið fram, hyggjast ráðherrar þá beita sér fyrir að svo verði?

Svar: Já, sbr. þau gögn sem hér hafa verið rakin.