01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4071 í B-deild Alþingistíðinda. (2855)

159. mál, haf- og fiskveiðasafn

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir erindi þessarar till. Hún var flutt á síðasta kjörtímabili, ef ég man rétt, og þá tók ég einnig undir erindi hennar. Ég tel að þessi hugmynd sé mjög góð og eftir að ég sjálf átti þess kost að heimsækja svipað safn í Noregi finnst mér eiginlega sjálfsagt mál að þjóð eins og Íslendingar eigi kost á að varðveita sinn menningararf á þennan hátt eða hluta hans. Hins vegar er ég alveg sammála hv. 2. þm. Austurl. þegar kemur að framkvæmd málsins og þeirri forgangsröð sem þarf að gegna í safnamálum okkar. Þar er ýmislegt illa gert eða ekki gert og þegar við skoðum öll málin í heild sinni hljótum við að þurfa að taka tillit til allra þeirra hugmynda sem þar eru uppi. En þá hugmynd að hafa sérstakt haf- og fiskveiðasafn styð ég. Ég held að hún sé hin þarfasta. En hana verður auðvitað að skoða með tilliti til þeirrar heildarmyndar sem er á safnamálum okkar. Og það er alveg hárrétt sem kom fram hjá 2. þm. Austurl. Það er afar illa að þeim búið og okkur til skammar eins og nú er og þurfum við verulega að taka okkur á í þeim efnum.