01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4074 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

159. mál, haf- og fiskveiðasafn

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka vinsamleg ummæli hv. 3. þm. Vesturl. í minn garð. Ég vil fara örfáum orðum frekar um málið í ljósi þeirra umræðna sem hér fóru fram á eftir hans framsögu.

Menn segja sem svo: Það er allt í lagi að samþykkja till. af þessu tagi vegna þess að hún er bara um að undirbúa mál. En einhvers staðar er sagt: Í upphafi skal endinn skoða, og það á við um þessi mál eins og önnur. Það væri kannski þarflegt fyrir Alþingi Íslendinga að ræða safnamál almennt, stöðu þeirra, bæði safna sem varða atvinnumál í landinu, náttúrufræði og önnur menningarmál áður en menn fara að álykta nokkurn skapaðan hlut. Sannleikurinn er sá að þessi mál eru í slíkum ólestri að það er með fádæmum. Hér var skipuð nefnd af menntmrn. 1977 til að endurskoða þjóðminjalög. Sú nefnd skilaði áliti, mig minnir 1981, vel unnum tillögum eftir því sem ég hef kynnt mér þær, en síðan hvíldu þær í skúffum ráðherra í tíð fyrri ríkisstjórnar og liggja þar enn. Mér skilst að það sé búið að taka einar tvær, þrjár atrennur á að endurskoða tillögur nefndarinnar frá 1977 og ekki bólar á neinu nema þessum glaðningi, sem ég leyfði mér að nefna hér, sem liggur fyrir Alþingi frá ríkisstjórninni, byggðasöfn. Með þau hefur ríkið ekki nokkurn skapaðan hlut að gera fjárhagslega. Þau skulu vera verkefni sveitarfélaga. Og lýsir sér nú þekkingin á þessum málum í þeim tillöguflutningi, m.a. í ljósi þess að byggðasöfn eru ekki nema að hluta til í verkahring sveitarfélaga heldur eru það ýmsir aðrir aðilar sem koma að þeim málum fyrir utan ríkið.

Og hver eru svo rökin hjá þeim sem bera þessar tillögur fram hér á Alþingi? Þau komu hér aftur úr munni hv. 3. þm. Vesturl. Jú, það hefur verið veitt svo litlu til þessara mála af ríkinu að undanförnu að það er best að hætta því alveg, láta sveitarfélögin um þetta. Það eru rökin sem má lesa í grg. með frv. í þeim hugmyndabanka frá nefndarmönnum, að hluta sveitarstjórnarmönnum, sem lögðu þær hugmyndir fram og liggja fyrir í skýrsluformi, fólki hérna á höfuðborgarsvæðinu sem um það hefur fjallað. Ég vara við þessum hugmyndum sem liggja fyrir um byggðasöfnin eins og varðandi margt annað. Menn mega alveg velja orð þeim aðvörunum og hafa sín sjónarmið í friði mín vegna.

En ég vil, herra forseti, spyrja hv. flm.: Hvað sér hann á móti því að Náttúrufræðisafn Íslands hafi innan sinna vébanda og gefi mynd af hafsvæðunum umhverfis Ísland, eðli þeirra, lífi og lífsskilyrðum í hafinu? Hvar á þetta heima ef ekki í náttúrufræðisöfnum í landinu, ég spyr, söfnum sem er ætlað að draga upp mynd bæði vísindalega og fyrir almenning af auðlindum Íslands og umhverfi þeirra? Og hvað um fiskveiðar Íslendinga fyrr og nú? Af hverju á að draga það inn í eitthvert sérsafn? Hefur ekki Þjóðminjasafn Íslands reynt að gefa einhverja mynd að fiskveiðum á Íslandi, auðvitað af vanefnum vegna þess hvernig að þeim er búið? Af hverju á ekki að efla Þjóðminjasafnið til að gefa mynd af atvinnusögunni í sjávarútvegi og byggðasöfnin úti um landið til að gera þessu skil? Það hafa þau reynt mörg hver, m.a. byggðasafnið í Görðum á Álftanesi sem hv. þm. væntanlega þekkir. (SkA: Á Akranesi.) Byggðasafnið í Görðum á Akranesi. Hvað sagði ég? (SkA: Á Álftanesi.) Afsaka. Það var mismæli. Á Akranesi. Mér er kunnugt hvar það er.

Og varðandi nýtingu og vernd auðæfa hafsins. Hvar á það heima ef ekki í náttúrufræðisafni? Mér sýnist að efni till. þurfi athugunar við í ljósi þessa, að gera þeim söfnum sem eru að fást við þessa málaflokka og hafa beinlínis lagaskyldur í þeim efnum kleift að sinna þeim. Það er á sinn hátt stefnumarkandi, herra forseti, að taka afstöðu til till. sem þessarar þó það sé ekki annað en að setja upp nefnd til þess, en það á líka að gera fjárhagsáætlun, og auðvitað eru menn að taka afstöðu til hugmyndarinnar, á byrjunarstigi vissulega, ef þeir fara að samþykkja till. í þessu formi eins og liggur hér fyrir.

Ég vænti þess að þetta mál fái verðuga umfjöllun í nefnd. Mér finnst skynsamlegt af hv. flm. að vísa þessu til félmn. Sþ. Þar verði það skoðað í tengslum við önnur söfn sem þegar eru fyrir í landinu, eflingu þeirra, þörfina á eflingu þeirra frá því sem nú er.