01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4082 í B-deild Alþingistíðinda. (2865)

165. mál, Vesturlandsvegur

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vildi aðeins lýsa skoðun minni á því að hér er hreyft mjög athyglisverðu máli. Ég tel að við samþykkt þessarar till. verði tækifæri til að fá fram niðurstöðu í því, sem hefur verið til umfjöllunar um margra áratuga skeið, hvernig stytta eigi vegalengd einmitt um það svæði sem hér er vikið að. Till. fjallar um göng undir Hvalfjörð. Þetta er ásamt og með því að rannsaka gangagerð í gegnum fjöll verkefni sem Vegagerð ríkisins kemur til með að fjalla um á næstu árum. Það hefur verið á undanförnum árum lögð á það megináhersla að setja slitlag á vegina og þar náðst mikill árangur og við skulum vona að það verði enn hægt að auka þau verk, en það þýðir að sjálfsögðu að það fjármagn sem ætlað er til vegagerðar verður að aukast með einum eða öðrum hætti. Ég trúi því að þeir aðilar sem standa að slíkum till. eins og þessari sem hér er á dagskrá verði sterkir stuðningsmenn í þeim efnum.

Af hálfu Vegagerðar ríkisins hefur einmitt það mannvirki, sem hér var vikið að, gerð ganga undir Álasund í Noregi, verið sérstaklega skoðað og vegamálastjóri var þar á sl. hausti þegar þessi göng voru tekin í notkun til þess að hann gæti fylgst með og fengið tækifæri til að fá þær upplýsingar sem þar voru til staðar til þess að nýta okkur þær þegar að þessum málum kæmi hjá okkur.

Í sambandi við jarðgangagerðina var einnig á vegum vegamálastjóra erlendis aðili til að skoða þau mál og ég vonast til þess að áfram verði haldið, verði þessi tillaga samþykkt er hægt að fá fram þær rannsóknir sem hér er gert ráð fyrir og síðan málið til ákvörðunar hér á Alþingi.

Það hefur verið fjallað um með hvaða hætti við ættum að stytta vegalengdina sem ekin er þegar farið er frá Reykjavík vestur um og norður. Þar hafa komið fram fleiri hugmyndir, m.a. verið gerð athugun á notkun ferju. Í sambandi við þessar rannsóknir verður að kanna hver sé hagkvæmasti mátinn í þessum málum.