01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4094 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

199. mál, framtíðarhlutverk héraðsskólanna

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég er meðflm. að þeirri till. til þál. sem hv. 1. flm., Óli Þ. Guðbjartsson, hefur mælt fyrir í ágætu máli og ég ætlaði aðeins að bæta við fáeinum hugleiðingum almennt og sérstaklega víkja að málefnum þess héraðsskóla sem ég þekki best til af þeim sem starfræktir eru, en það er Alþýðuskólinn á Eiðum.

Ég tel að mál þetta sé hið þarfasta, sem hv. 1. flm. hafði forgöngu um að flytja í þinginu, og ég vænti þess að það verði til þess að ríkisvaldið rumski, taki helst vel við sér í sambandi við þessi efni, en á þeim bæ hefur að mínu mati verið sofið ansi lengi að því er snertir málefni héraðsskólanna.

Það hefur blasað við nú um alllangt skeið að hallað hefur undan fæti hjá þessum skólum og fyrst og fremst fyrir þá sök að því hefur ekki verið sinnt, sem hefði þurft að verða fyrir meira en áratug, að það yrði skilgreint hlutverk þeirra, markmiðið með starfrækslu þeirra með hliðsjón af öðru skólastarfi í landinu.

Árið 1962 var gerð breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við skóla sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Þá var ákveðið að héraðsskólarnir yrðu séreign ríkisins ef hlutaðeigandi sveitarfélög óskuðu þess og í framhaldi af því urðu fimm héraðsskólar ríkisskólar á árinu 1962 og hinir þrír skömmu síðar.

Ég nefni þetta atriði sérstaklega, virðulegur forseti, í ljósi þess að verið er að ræða hugmyndir nú um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að einfalda verkaskiptingu þessara aðila. Samkvæmt þeim tillögum liggur það fyrir í nál. frá sl. vori frá stjórnskipuðum nefndum að framhaldsskólastigið komi í hlut ríkisins í heild sinni að öllu leyti, en sveitarfélög taki að sér stofnkostnað við grunnskóla.

Ég held að áður en menn ganga til verks með þessum hætti, sem þarna eru tillögur um, ættu þeir aðeins að huga að því hvernig farið hefur fyrir málefnum alþýðuskólanna, héraðsskólanna í landinu undir forsjá ríkisins. Ég er ekki með þessu út af fyrir sig að hafna með öllu hugmyndum um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi þessa þætti. Þar getur ýmislegt þurft athugunar við, ekki síst að því er snertir fjárhagsleg samskipti sveitarfélaga við ríkið. En það er kannski reynslan af þeim samskiptum sem ýtt hefur undir hugmyndir þær sem nú liggja fyrir, þar sem mjög hefur hallað á sveitarfélögin í sambandi við uppgjör á því sem ríkinu ber varðandi þátttöku í sameiginlegum kostnaði af rekstri skóla.

En það er afar einkennilegt að sjá hversu lítið ríkisvaldið og menntmrn. hefur hugsað um þessi fósturbörn sín, héraðsskólana, á þeim tíma sem það hefur verið eitt um hituna, að vísu með blessun Alþingis, þ.e. fjárveitingavaldsins, en tillögur um fjárveitingar til héraðsskólanna koma fram í fjvn., eru þar ræddar og eftir atvikum eitthvað breytt. En um það ætla ég ekki að ræða með mörgum orðum. Það liggur þó fyrir á heildina litið að það fjármagn hefur verið allt of naumt skammtað og má segja að upphæðin til stofnkostnaðar við héraðsskólana til endurbóta á húsnæði þeirra upp á 26,2 millj. kr. á fjárlögum þessa árs hefði rétt kannski dugað til að koma húsnæðismálum þess skóla sem ég nefndi hér sérstaklega, Alþýðuskólans á Eiðum, í sæmilegt horf, án þess að bæta þar nokkru við, heldur bara að sinna óhjákvæmilegu og nauðsynlegu viðhaldi. Slík er staða þessara mála undir handarjaðri menntmrn.

Það má sannarlega ekki dragast, virðulegur forseti, að á þessum málum verði tekið og ég tel því að sú till. sem liggur hér fyrir um nefndarskipan sé þörf og hef því tekið undir hana sem meðflm. Ég vænti þess að tillagan fái brautargengi og verði samþykkt og verði til þess að það verði mörkuð stefna um stöðu þessara skóla. Ég er ekki í minnsta vafa um að þeirra getur verið þörf sem menntastofnana, flestra a.m.k. Ég þori ekki að dæma um einstök tilvik því að ég þekki ekki nógu vel til. En það má ekki gerast að skólar þessir drabbist niður, lendi í vanhirðu, eins og þegar er orðið hvað húsnæði snertir, og nýtist ekki viðkomandi byggðum og landshlutum til fræðslu- og menningarstarfsemi svo sem sjálfsagt er og þörf er fyrir, aðeins ef menn horfa til veðurs og hafa augun opin fyrir þörfinni.

Það er vikið í grg. sérstaklega að fullorðinsfræðslunni. Fyrir utan það að sinna fræðslu innan skólakerfisins er vikið sérstaklega að fullorðinsfræðslunni og ég get tekið undir það efni. Það er einnig gefin skýr mynd af því hvernig þróast hefur aðsókn að þessum skólum. Ég vek athygli á að einn skóli sker sig nokkuð úr í þessum efnum þar sem er Alþýðuskólinn á Eiðum. Þar var nemendafjöldi fyrir mörgum áratugum, 1952–1953, 91 nemandi. Hæst hefur nemendatala farið í 140. Þá held ég að ég megi segja að skólinn hafi verið ofsetinn miðað við húsnæði, árin 1970–1971. Og síðan helst nemendafjöldi nokkuð í horfinu, minnkar þó frá þessu hámarki og hefur verið á bilinu 113–122 samkvæmt yfirliti sem við höfum hér og var á síðasta skólaári 119 nemendur.

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa þetta mikið lengra, en ég vek athygli á að í töflu sem fylgir grg. á bls. 4 er heimavistarrými þessa skóla talið nákvæmlega 119 nemendur, enda er skólinn fullsetinn og notaður fyrir brýnar þarfir nemenda í efsta bekk grunnskóla, nemenda m.a. og fyrst og fremst af Austurlandi en einnig nokkurra úr öðrum landshlutum að ég hygg, og síðan fyrir tvo árganga á framhaldsskólastigi.

En húsnæðismálum skólans er þannig háttað, virðulegur forseti, svo að ég leyfi mér hér við lok máls míns að vitna til erindis sem okkur þm. Austurlands barst sl. haust frá skólastjóra Alþýðuskólans á Eiðum, Kristni Kristjánssyni, þar sem hann segir:

„Um langt árabil hefur viðhald húsa og búnaðar skólans verið vanrækt og er málum nú þannig komið að hús liggja undir skemmdum og aðbúnaður að nemendum og kennurum er langt undir þeim kröfum sem almennt eru gerðar í dag. Sérstakt áhyggjuefni er að brunavörnum hefur ekki verið sinnt sem skyldi, viðvörunarkerfi vantar og hluti nemenda hefur ekki aðgang að neyðarútgangi.“

Síðan rifjar skólastjórinn upp hverjar fjárveitingarnar eru, 1,1 millj. á árinu 1987 til framkvæmda og aðeins 1,2 að ég hygg á fjárlögum þessa árs, en þörfin var metin á árinu 1986 upp á 20 millj. kr. á þáverandi verðlagi til að koma húsnæði skólans í sómasamlegt horf.

Þetta mun eiga við um marga aðra héraðsskóla þó ég vilji ekki um það fullyrða hvað snertir aðbúnaðinn. Hann er vissulega einn þáttur þessa máls, en hitt ekki síður að fundinn verði skynsamlegur farvegur fyrir starf í þessum skólum innan skólakerfisins eða þá til annarra þátta.