01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4099 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

183. mál, langtímaáætlun í samgöngumálum

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Á þskj. 206 er till. til þál. um langtímaáætlun í samgöngumálum. Flm. þessarar till. eru allir þm. Borgarafl. 1. flm. till. er Benedikt Bogason, varamaður Borgarafl. í Reykjavíkurkjördæmi. Þar sem hann situr ekki lengur á þingi hefur það komið í minn hlut sem meðflm. að hafa um till. framsögu og gera grein fyrir efni hennar. Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að skipa nefnd sérfræðinga til að gera tillögur um áætlun í samgöngumálum fyrir landið allt og gera rökstudda spá um framvindu einstakra þátta til ársins 2010.

Nefndin skal einkum taka til meðferðar eftirfarandi þætti:

1. Vegagerð, flugvallagerð og hafnargerð.

2. Farþega- og vöruflutninga til og frá landinu og innan lands.

3. Flutninga- og umferðarmiðstöðvar.

4. Skipakost, flugvélakost og bifreiðaeign.

5. Innbyrðis samspil og áhrif allra þátta.

6. Fjárfestingar og rekstur hjá ríki og sveitarfélögum. Tekjustofna, markaða tekjustofna.

7. Skilyrði til einkarekstrar, svo sem verðlagningu, skatta og skyldur og möguleika til aðlögunar að tækniframförum.

Nefndin skili áfangaskýrslu í nóvember 1988 og lokaskýrslu í október 1989.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þróað velferðarríki á nútímavísu er algjörlega háð því að allar samgöngur séu greiðar. Hvort sem um er að ræða þéttbýli eða dreifbýli eru það gæði farvega og tækja í samgöngum sem skera úr um það hversu stór svæði geta boðið upp á dagleg samskipti og stuðlað að bættri afkomu og betra mannlífi. Samtenging slíkra heimamarkaðssvæða með tilliti til öryggis, hraða og hagkvæmni sker svo úr um hæfni á þjóðhagslegum grundvelli, auk jafnra möguleika allra til samfélagsþjónustu og menningarlegra og félagslegra samskipta. Það er engu að síður mikilvægt að samgöngur landa í milli séu greiðar, tíðar og reknar á sem hagkvæmastan hátt, sérstaklega á síðustu árum eftir að möguleikar hafa opnast fyrir því að öll jörðin verði eitt markaðssvæði.

Ný og æ fullkomnari og hagkvæmari flutningstæki haldast í hendur við framfarir í fjarskiptum, tölvutækni og upplýsingaflæði, auk þess sem nú er verslað með hugvit og oft staðlaða einingahluti í stað fullunninnar vöru áður. Hráefni er flutt frá fjarlægustu stöðum og ferðamannastraumar liggja heimsálfa á milli.

Hér á landi hefur þróunin í samgöngum bæði innan lands og við útlönd verið mjög hröð á síðustu árum. Hinir einstöku þættir hafa þróast sjálfstætt án þess að um verulega samræmingu hafi verið að ræða. Stundum hafa orðið árekstrar milli ólíkra greina svo sem landflutninga og sjóflutninga og blandast ríkisafskipti inn í það dæmi.

Fyrir um aldarfjórðungi var fyrst farið að gera athuganir og áætlanir í samgöngumálum á vegum Efnahagsstofnunar og Framkvæmdabanka Íslands. Þá gerði Framkvæmdastofnun ríkisins samgönguáætlanir í landshlutunum á 8. áratugnum og á síðustu árum hefur samgrn. látið gera slíkar áætlanir en þær hafa flestar fremur verið gagnasöfnun og skammtímaáætlanir en heildarstefna. Margar fleiri áætlanir hafa verið gerðar varðandi ýmsar greinar samgöngumála, svo sem í ferðamálum og staðbundnum verkefnum.

Með þessari þáltill. um langtímaáætlun í samgöngumálum viljum við flm. leggja áherslu á að skyggnst verði fram í tímann svo stjórnvöld, almenningur og sérstaklega þeir sem að samgöngumálum vinna geti áttað sig á því hverju þeir megi búast við á sviði samgöngumála næstu árin. Þá er hún ekki síður sett fram í því skyni að athugað verði hvort verja megi þeim fjármunum sem nú er varið til samgöngumála betur en nú er gert og mat lagt á það í hvaða ástandi samgöngumál eru í dag og hvort við erum á réttri leið á þessu sviði.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að sú nefnd sem skipuð verður taki til meðferðar vegagerð, flugvallagerð og hafnargerð og birti álit þar að lútandi til ársins 2010, hvernig hún sér fyrir sér þróun þessara mála og einnig hvort hægja megi á einhverjum framkvæmdaþætti verði framlög til annars aukin. Þá mætti hugsa sér að nefndin taki til athugunar hvort tengja megi tvo staði saman með tilliti til samgangna þannig t.d. að leggja bundið slittag á milli þannig að dregið sé úr þörfinni fyrir að byggja flugvelli á báðum stöðunum eða þá hvort hætta megi við stækkun hafnar er til framtíðar er litið teljist það ónauðsynlegt með tilliti til annarra samgönguþátta eða breytts skipulags í vöruflutningum.

Í vegamálum er nú unnið samkvæmt fjögurra ára áætlun frá 1983, en ekki var samþykkt tólf ára áætlun sem lögð var fyrir þingið á síðasta ári. Hins vegar er tíu ára áætlun í flugvallamálum samþykkt á síðasta þingi.

Þá var lögð fram á síðasta þingi fjögurra ára hafnaráætlun sem unnið hefur verið að en ekki fengist formlega samþykkt á Alþingi. Mun sú áætlun vera í endurvinnslu.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir í þáltill. að nefnd sú sem skipuð verði athugi framvindu í farþega- og vöruflutningum til og frá landinu og innan lands. Á undanförnum árum hefur ný tækni rutt sér til rúms í vöruflutningum á sjó með gámavæðingunni og hefur það fyrirkomulag tekið stakkaskiptum. Þá var komið nokkuð fast form á landflutninga með vörubílum og má búast við aukinni hlutdeild þeirra með bættum vegasamgöngum. Flytja þeir frekar pakkaflutninga en skipin þungaflutninga þar sem um samkeppni er að ræða.

Í ferðaiðnaði hafa orðið verulegar breytingar á undanförnum árum og hafa hótelbyggingar og gistiheimili sprottið upp. Á þennan þátt verður sérstaklega að líta með tilliti til samgangna til landsbyggðarinnar.

Í þriðja lagi er bent á flutninga- og umferðarmiðstöðvar. Það er verðugt verkefni að athuga hvaða áhrif sú þróun hefur, sem nú er hafin, að skipafélög hætti strandflutningum og einbeiti sér að vöruflutningum til eins staðar og síðan öðrum flutningaleiðum til ákvörðunarstaða.

Í fjórða lagi felur tillagan í sér athugun á því hvernig skipakostur, flugvélakostur og bifreiðaeign kemur til með að verða. Það má t.d. benda á hér að brýnt er fyrir flugfélögin að endurnýja flugvélakost sinn í innanlandsflugi. Við val á nýjum flugvélum fyrir þá aðila er nauðsynlegt að vita stefnu í flugvallamálum, hvort búast megi við löngum eða stuttum brautum og hvort flugvellir verði með bundnu slitlagi eða ekki. Þá getur tímasetning skipt verulegu máli.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að athugað verði innbyrðis samspil hinna ýmsu samgöngugreina og áhrif sem einn þáttur getur haft á hinn þegar til lengri tíma er litið.

Í sjötta lagi er komið inn á þátt ríkisins og sveitarfélaga í samgöngumálum og þá sérstaklega er varðar fjármögnun og hvernig tekna skuli aflað í því skyni að standa straum af þeim fjárfestingum sem nauðsynlegar eru til að halda uppi góðum samgöngum.

7. liðurinn varðar einkaaðila er vinna að samgöngumálum og þá sérstaklega hvernig ríkið skuli búa að þeim varðandi verðlagningu, þjónustu þeirra, skatta og hvað langt eigi að ganga í þeim efnum að setja þeim skyldur á herðar. Þá er einnig í þessum lið lagt til að athugað verði hvernig ríkisvaldið geti komið inn í til að auðvelda einstaklingum að taka í sína þjónustu nýja tækni.

Það er gert ráð fyrir því í þáltill. að nefnd sú sem skipuð verði skili áfangaskýrslu í nóvember 1988 og lokaskýrslu í október 1989.

Eins og fram hefur komið gerir till. þessi ráð fyrir framtíðarsýn í samgöngumálum og hvernig þróun geti litið út og þá sérstaklega hvað tekur við eftir 510 ár að lokinni grunngerð helstu samgöngukerfa þegar allir staðirnir á landinu verða komnir í sæmilegt samgöngusamband með flutningum á sjó, landi og í lofti. Þá hefst nýtt þróunarskeið sem gefur enn meiri möguleika á stóraukinni hagkvæmni, styttingu leiða og samræmingu á milli mismunandi kerfa.

Till. þessi er því flutt til að gefa okkur innsýn inn í það sem koma skal og við verðum að vera í stakk búin til að taka á móti framtíðinni.

Það er lagt til að þessi tillaga verði samþykkt og henni vísað til allshn.