01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4102 í B-deild Alþingistíðinda. (2880)

183. mál, langtímaáætlun í samgöngumálum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og forseti og hv. þm. vita flytur sá sem hér stendur nær undantekningarlaust mjög stuttar ræður og ég ætla því að freista þess að ljúka máli mínu á eins og tveimur mínútum.

Ég vil segja um efni þáltill. sem hér er rædd að ég fagna því að menn skuli taka samgöngumálin upp og sinna þeim. Ég ætla ekki að tjá mig efnislega um einstaka liði tillögunnar, hvorki gera við þá athugasemdir né lýsa við þá sérstökum stuðningi. Ég held hins vegar að sú hugsun sem liggur að baki tillögunni, þ.e. að á skorti um áætlanagerð og upplýsingasöfnun á sviði samgöngumála, sé rétt og það sé þarft að sinna því verkefni.

En aðalerindi mitt hingað, herra forseti, var að vekja athygli á því að fyrir þinginu liggur nú þegar þáltill. sem er nokkuð skyld, þ.e. till. til þál. um samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar á þskj. 138, 133. mál þessa þings. Þar er einmitt lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að vinna að samræmingu áætlana á sviði samgöngumála. Eins og kom fram í máli frsm. eru þegar til ýmiss konar áætlanir, sumar samþykktar af hinu háa Alþingi, aðrar notaðar sem vinnugögn, þó að þær hafi ekki verið endanlega afgreiddar hér, eins og hafnaáætlun og reyndar langtímaáætlun um stefnumörkun í flugmálum sem ekki hefur verið samþykkt á Alþingi þó að tekjuöflunarfrv. þeirri áætlun tengd hafi hins vegar verið samþykkt.

Ég vildi vekja á því athygli, herra forseti, að það liggur þegar fyrir þinginu svo skyld till. að ég teldi nauðsynlegt að þær verði skoðaðar saman, þessar tvær þáltill. Ég vil því mælast til þess, þar sem þáltill. á þskj. 138 var vísað til atvmn., og beina þeirri spurningu til frsm. hvort hann gæti fallist á að breyta tillögu sinni um nefnd þannig að báðar tillögurnar færu til einnar og sömu nefndarinnar, enda hygg ég að eðli málsins samkvæmt sé ekki óeðlilegt að tillögurnar séu til meðferðar í atvmn. og ég teldi það til bóta ef þessi tvö mál, svo skyld sem þau eru, væru til meðferðar og skoðunar í einni og sömu þingnefndinni.