02.02.1988
Efri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4109 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

228. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 516 flyt ég frv. til l. um breytingar á lögum nr. 46/1985, um verðlagningu og sölu á búvörum. Ég vil í upphafi máls míns benda á og leggja á það áherslu að með frv. fylgir allítarleg grg. og auk þess fylgja því þrjú fskj. þannig að þar er málið býsna vel útskýrt og þar af leiðandi þarf ég ekki að hafa mína framsöguræðu eins ítarlega og ella væri.

En ástæðan fyrir því að ég hef skýrt málið svona rækilega út í grg. og með fskj. er m.a. sú að inn í þessa umræðu, þ.e. um greiðslu afurðaverðs til bænda, hefur jafnan blandast greiðslumátinn og hefur mönnum þar oft og tíðum sýnst sitt hverjum, en til að taka af öll tvímæli í þeim efnum hef ég fjallað um það mál þótt það sé framkvæmdalegs eðlis og skipti í rauninni ekki neinu sérstöku meginmáli í sambandi við þá efnisbreytingu sem ég legg til að gerð verði á þessum málum.

Sú merka ákvörðun var tekin upp við setningu búvörulaganna að bændur skyldu fá greiðslur afurðaverðs að fullu sem næst afhendingu varanna, en eins og menn vita var fyrirkomulag þannig að lokagreiðslur bárust ekki til bænda fyrr en uppgjöri afurðastöðva var lokið og fór það þá eftir ýmsu hvort framleiðendur fengu greitt framleiðsluverðið að fullu.

Í búvörulögunum, 29. gr. þeirra laga, þar sem fjallað er um greiðslu afurðaverðs, er tilgreint hvernig beri að inna greiðsluna af hendi til mjólkurframleiðenda og til sauðfjárbænda og með þeirri breytingu sem ég legg til að gerð verði á lögunum, verði hún að lögum, verða teknir upp sams konar greiðsluhættir til sauðfjárbænda og mjólkurframleiðenda. Þetta er þannig samræmingaratriði á milli þessara tveggja höfuðgreina í íslenskum landbúnaði.

Ástæðan fyrir þeirri skipan mála sem nú er var sú að þessi mál lágu ekki skýrt fyrir þegar búvörulögin voru sett og ýmsir voru með miklar efasemdir um að afurðastöðvar gætu innt þessar greiðslur af hendi. Það lá heldur ekki fyrir þá hvernig fullvirðisréttur eða búmark yrði ákveðið. Þar af leiðandi þótti eðlilegt að afurðastöðvar fengju nokkurt ráðrúm til að ljúka þessu uppgjöri. En sem kunnugt er kveður svo á í lögum nú að það fari fram eigi síðar en 15. des.

Nú liggur hins vegar fyrir að hverjum framleiðanda í sauðfjárrækt hefur verið ákveðinn fullvirðisréttur sem er ákveðin stærð. Það hefur verið tekin ákvörðun um að það sé ekki hægt að færa hann til á milli framleiðenda. Hann er þannig alveg bundin og ákveðin stærð sem liggur fyrir í upphafi sláturtíðar og hver einasti viðskiptaaðili og afurðastöðvarnar hafa á borði fyrir framan sig hver réttur hvers framleiðanda er í þessum efnum. Þetta vandamál, hafi það einhvern tíma verið til, er því úr sögunni.

Það liggur líka fyrir að sá greiðslumáti sem ég legg til samrýmist þeirri fyrirgreiðslu sem afurðastöðvar hafa notið og njóta. Ég get þess í grg. og ætla að hafa það hér yfir, með leyfi forseta, sem er niðurstaðan í þeirri umfjöllun í greinargerðinni:

„Hér er því einungis um óverulegar breytingar að ræða á afhendingu staðgreiðslulána til að tryggt sé að sú tilhögun sem frv. kveður á um skapi afurðastöðvum sömu möguleika á greiðslum og nú eru fyrir hendi.“

Það skiptir hins vegar miklu máli fyrir sauðfjárbændur, sem fá nú framleiðsluvörur seinna greiddar en nokkrir aðrir framleiðendur í landbúnaði, að því uppgjöri sé flýtt eftir því sem kostur er og að um það gildi sömu reglur og í mjólkurframleiðslu. Þess vegna er þetta frv. flutt.

Það er kannski vert að ég geti þess til viðbótar af því að það kemur ekki fram í grg. frv. og ekki heldur þeim fskj. sem því fylgja, en mér hefur verið bent á af ýmsum þeim mönnum sem hafa haft samband við mig út af flutningi þessa frv., sem hefur fengið afar góðar móttökur hjá sauðfjárbændum, að hér er e.t.v. um stærra hagsmunamál að ræða en í fljótu bragði virðist því að sauðfjárbændur eru að þreifa fyrir sér með að stækka markað fyrir dilkakjöt og það hyggjast þeir m.a. gera með því að hefja slátrun fyrr. Ég hef m.a. talað alveg nýlega við einn bónda sem hyggst byrja slátrun í júlímánuði og enn frekar í ágústmánuði. Þá er það að sjálfsögðu mikið hagsmunaatriði fyrir þessa bændur, sem mundu þá fella hluta af sínum lömbum áður en þau hafa tekið út fullan þroska, að fá greiðslurnar skilvíslega 10. næsta mánaðar eftir að slátrun fer fram eins og frv. kveður á um.

Með þessu frv. er m.a. mætt þessum nýju og breyttu viðhorfum hjá bændastéttinni með að lengja sláturtíðina og hafa ferskt dilkakjöt á boðstólum miklu lengur en verið hefur.

Herra forseti. Ég vitna til þess sem ég sagði áðan um greinargerðina með frv. og fskj. og ég reyndar trúi því og treysti að jafnmikið sanngirnismál og hér er um að ræða, sjálfsagt sanngirnismál, fái greiða og góða leið í gegnum þessa hv. deild og raunar í gegnum Alþingi. Það væri mikilvæg niðurstaða fyrir bændur landsins sem byggist, eins og ég sagði áðan, á sanngirni og kostar ekki neitt fjármagn. Þegar ekki þarf að líta eftir öðru en því sem er sanngjarnt og réttlátt á að vera auðvelt að koma góðum málum áfram á Alþingi.