02.02.1988
Efri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4112 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

228. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Forseti. Meginhugmynd þess frv. til l. sem hér er flutt af hv. 5. þm. Austurl. tel ég vera til bóta fyrir sauðfjárbændur og með því er stigið skref til að tryggja þeim greiðslur fyrir afurðir sínar. Sú meðhöndlun sem bændur fengu af hálfu afurðastöðva í lok síðasta árs er með öllu óþolandi og óverjandi. Margir bændur fá tekjur sínar eingöngu af sauðfjárbúskap og þarf ekki að hafa um það mörg orð að þeir eins og aðrir gera sínar fjárhagsáætlanir og fjárskuldbindingar í trausti þess að greiðslur fyrir afurðir berist á tilsettum tíma.

Við 1. umr. ætla ég ekki að hafa mörg orð um efnisatriði frv. eða þá ítarlegu grg. sem því fylgir, en ég vil lýsa stuðningi mínum við þá meginhugmynd sem sett er fram í því.