02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4121 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

207. mál, barnalög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Frv. sem ég mæli hér fyrir og er á þskj. 292 er samið af sifjalaganefnd. Í henni eiga sæti Ármann Snævarr, sem er formaður nefndarinnar, Auður Auðuns, fyrrv. dómsmrh., Baldur Möller, fyrrv. ráðuneytisstjóri, og Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari. Ritari nefndarinnar er Drífa Pálsdóttir, deildarstjóri í dómsmrn.

Í grg. með frv. er þeim breytingum sem í því felast lýst ítarlega. Meginbreytingin er fólgin í heimild fyrir foreldra til að semja um sameiginlega forsjá barna sinna við skilnað eða slit óvígðrar sambúðar. Sama gildir fyrir foreldra óskilgetinna barna sem ekki hafa verið samvistum.

Samkvæmt núgildandi rétti skal forsjá barns skilyrðislaust vera óskipt í höndum annars foreldris eftir skilnað foreldranna eða samvistarslit. En forsjá óskilgetins barns foreldra sem ekki eru samvistum er í höndum móðurinnar einnar og er skv. frv. ráð fyrir því gert að ákvæði laganna haldist að þessu leyti óbreytt, nema móðirin og faðirinn óski sérstaklega eftir því að forsjá barns verði sameiginleg.

Það er kunnugt að heimild til sameiginlegrar forsjár hefur nú verið lögfest annars staðar á Norðurlöndum. Meginbreytingin sem frv. felur í sér er m.a. lögð til í þeim tilgangi að gætt verði samræmis í norrænum sifjarétti að þessu leyti og í þeirri trú fyrst og fremst að það megi verða til þess að stuðla að betri tengslum foreldra og barna að loknum skilnaði eða samvistarslitum, og enn fremur að með þessu úrræði megi koma í veg fyrir óþarfan ágreining um forsjá barna í einstökum tilfellum.

Ég legg sérstaka áherslu á það að grundvöllurinn fyrir sameiginlegri forsjá er í þessum tillögum samningur eða samkomulag foreldra. Samkvæmt þessari tillögu verður sameiginleg forsjá einungis heimiluð að ósk beggja foreldra. Í því felst þá það skilyrði að foreldrarnir séu sammála um flest atriði er varða barnið og uppeldi þess. Það verður lögð á það áhersla að foreldrum verði leiðbeint um þetta efni áður en gengið er frá samningi um sameiginlega forsjá. Síðan er því við að bæta að hvort foreldri sem er getur krafist niðurfellingar samnings ef forsendur hans bresta.

Ég vek athygli á því einnig að í hugtakinu „sameiginleg forsjá“ í þessu lagafrv. felst hvorki skylda né ábending um það að barn skuli búa jöfnum skiptum á heimili beggja foreldra og má vænta þess að þrátt fyrir samkomulag um sameiginlega forsjá hafi börn oftast fasta búsetu á heimili annars foreldris, en njóti þá góðrar umgengni við hitt. En þetta er þó, eins og ég hef þegar sagt, að sjálfsögðu háð samþykki og samkomulagi beggja foreldranna.

Um rök með og á móti þessu nýja fyrirkomulagi með sameiginlegri forsjá er fjallað ítarlega í grg. með frv. Ég ætla hér aðeins að drepa á örfá atriði. Ég ætla fyrst að nefna röksemdir sem mæla með því að leyfa eða heimila sameiginlega forsjá.

Í fyrsta lagi má telja að sameiginleg forsjá geti höfðað til ábyrgðarkenndar beggja foreldra og ætti að gera þá báða virka við úrlausn í málefnum er varða velferð barnsins eða barnanna, þrátt fyrir sambúðarslitin. Þetta ætti að stuðla að betri samskiptum barna og foreldra.

Í öðru lagi, sem er einkar mikilvægt, hefur sameiginleg forsjá einnig þann ótvíræða kost í för með sér að ef annað foreldra andast eða verður ófært um að gegna forsjánni, þá ber hin sameiginlega forsjá í sér þegar í stað úrlausn á forsjármálinu án atbeina stjórnvalda.

Í þriðja lagi. Sameiginlega forsjá sem um semst má einnig telja líklega til að gera stöðu foreldra jafnari gagnvart barninu sem er grundvallarviðhorf í sifja- og erfðarétti og ætti að vera til þess fallið að auka öryggiskennd barnsins, en það á auðvitað að vera og hlýtur jafnan að vera leiðarljós löggjafans í sifjarétti.

Í fjórða og síðasta lagi vil ég loks nefna að það ættu að vera sjálfsögð og eðlileg mannréttindi foreldra að geta farið sameiginlega með forsjá barns síns hafi þau bæði til þess vilja og getu og jafnframt og ekki síður réttur barnsins sjálfs að njóta forsjár beggja foreldra sinna. En velferð barnsins er og á að vera eina viðmiðunin fyrir löggjöf af þessu tagi.

Ég ætla svo að nefna röksemdir sem mæla gegn sameiginlegri forsjá að sumra áliti.

Þar er í fyrsta lagi að nefna að frá uppeldissjónarmiði getur ugglaust orðið af því bagi, að því kynni að fylgja óöryggi þegar uppalendur búa ekki saman og e.t.v. hætta á að sjónarmið foreldranna í uppeldinu stangist á og þetta valdi barninu vandræðum þess vegna. Þetta er auðvitað vandamál sem er kannski eðlilegra að rekja til samvistarslitanna fremur en þessa fyrirkomulags á forsjá.

Í öðru lagi er það auðvitað svo að umsamin sameiginleg forsjá fólks sem slitið hefur samvistum kann að reynast skammgóður vermir og í reynd aðeins frestun á lausn vanda sem verði til lengdar óheppileg bæði gagnvart börnum og foreldum. Þetta er eins og það fyrrnefnda að það varðar sambúðarslitin en ekki úrlausnina. Þó má það vera að þarna sé nokkur fyrirvari fólginn.

Það er ekki auðvelt að vega og meta svona röksemdir eða skoðanir til einnar niðurstöðu. Nálæg ríki hafa valið í þessu efni mismunandi leiðir. 1 Vestur-Þýskalandi var því t.d. hafnað árið 1979, þegar forsjárreglurnar í því landi voru endurskoðaðar, að heimila samninga um sameiginlega forsjá við slit sambúðar sem þó voru uppi tillögur um. Á Norðurlöndunum hins vegar, öllum nema Íslandi til þessa, hefur slíkt úrræði verið lögfest en með nokkuð ólíkum hætti eftir löndum. Niðurstaðan hjá sifjalaganefnd og í þessu frv. er að leggja til að hér á landi verði heimilt að semja um sameiginlega forsjá. Tillagan sem hér er gerð er þó eingöngu um sameiginlega forsjá sem samkomulag er um. Hún verður ekki tekin upp að fyrirmælum dómstóla eða stjórnvalda eins og t.d. felst í gildandi rétti í Noregi. Við höfum í þessu frv. við þetta atriði einkum tekið mið af nýjum dönsku lögum. En þó er áherslan á samning og samkomulag e.t.v. enn ríkari í þessu íslenska frv.

Aðrar breytingar á barnalögunum, sem lagðar eru til í frv., eru þær helstar að í 18. gr. er lagt til að allir samningar um forsjá barna skuli staðfestir af valdsmanni og er það gert til þess að tryggja að hægt sé að sannreyna eftir á efni slíkra samninga, enda liggi þá fyrir um þá upplýsingar hjá opinberum aðila. T.d. hver fari með forsjá barns og einnig hvernig koma megi við leiðbeiningum og eftirliti við gerð slíkra samninga.

Þá er lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum greinum barnalaganna um meðlagsgreiðslur og er þeim eingöngu ætlað að einfalda og skýra núgildandi ákvæði laga fremur en að breyta þeim að efni. Enn fremur er í frv. lagt til að ákvæði barnalaganna um heimild dómsmrn. til að leggja dagsektir á þann sem tálmar umgengni foreldris og barns verði skýrt nánar varðandi framkvæmd úrskurða og innheimtu dagsekta og hámark þeirra verði hækkað, auk þess sem er lagt til að hámarksfjárhæð dagsekta taki breytingum í samræmi við lánskjaravísitölu. Loks eru í frv. þessu ýmsar aðrar minni háttar breytingar og lagfæringar á barnalögunum sem mér finnst ekki þurfa að skýra frekar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa öllu lengri þessa framsögu fyrir frv. til breytinga á barnalögum, nr. 9 1981, enda góðar skýringar að finna í grg. sem frv. fylgir.

Frv. er samið vegna þeirrar reynslu sem nú er komin á framkvæmd barnalaganna, en forsjá barna er oft á tíðum deilumál sem taka þarf til úrskurðar. Slíkir úrskurðir eru tímafrekir og vandasamir þótt reynt sé að beita allri tiltækri sérfræðiþekkingu. Hlýtur niðurstaðan jafnan eða a.m.k. oft að orka tvímælis samkvæmt eðli slíkra mála.

Til þess að fækka deilumálum um forsjá barna og í því skyni að auka samband barna við foreldra sína báða er nú lagt til að við reynum sameiginlega forsjá sem er talin hafa gefist vel í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna og á Norðurlöndum. Ég treysti í þessu efni á ráð þeirra sérfræðinga sem frv. hafa samið og ekki síður starfsmenn dómsmrn. sem um þennan málaflokk fjalla og hafa fjallað.

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að frv. þetta verði að lögum á yfirstandandi þingi og því verði að lokinni 1. umr. hér í deildinni vísað til hv. félmn. og 2. umr.