02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4128 í B-deild Alþingistíðinda. (2898)

207. mál, barnalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ríkisstjórn fyrir að leggja þetta frv. nú fram og tel að með framlagningu þess sé brotið blað í málefnum barna hér á landi. Ég held jafnframt að með þessu frv. sé stigið stærsta skref sem stigið hefur verið til jafnréttis karla og kvenna í þessu landi og þá um leið jafnréttis barna.

Flestar greinar þessa frv. eru almennar leiðréttingar sem ég hyggst ekki fara út í hér. Ég held að þær séu allar til bóta. Hér er fyrst og fremst um að ræða breytingar í 16., 17. og 18. gr., um sameiginlegt forræði barna.

Þeir nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa allir sett sambærileg lög. Umræður um þau frv. urðu mjög heitar og langvarandi vegna þess að þau voru lögð nokkuð öðruvísi fram en það frv. sem hér liggur fyrir. Ég held að af þessu hafi sú nefnd sem þetta frv. samdi og hæstv. ráðherra lært og farið, að mínu viti, mjög skynsamlega leið í þessum málum, þ.e. að gefa foreldrum kost á að hafa sameiginlegt forræði barna sinna ef þau þess óska. Slíku er auðvitað ekki hægt að þröngva upp á nokkra manneskju. Og víst er það rétt hjá síðasta ræðumanni, hv. 12. þm. Reykv., að oft eru í málefnum sem þessum við sambúðarslit og skilnað heitar og miklar tilfinningar og oft erfitt fyrir fólk að ná samkomulagi. En ég held að öll viðleitni manneskjunnar til að reyna að tvinna saman tilfinningar sínar og skynsemi sé af hinu góða og ósk mín væri sú að öll löggjöf hins háa Alþingis ynni að því.

Ég held að það hljóti að vera siðferðilega rétt, óumdeilanlega rétt, að tvær manneskjur sem búa til heila manneskju, lítið barn, hljóti að eiga að bera ábyrgð á því barni, hvort sem þær manneskjur kjósa að búa saman eða ekki. Ég held að í miklu meira mæli væri hægt að vinna að því að þetta gæti gengið vel og eðlilega. Fyrst og fremst held ég að með þessu frv., ef að lögum verður, hljóti að verða veruleg hugarfarsbreyting í þessum efnum.

Við vitum öll hvernig stór hluti Íslendinga hefur verið alinn upp — og auðvitað börn annarra þjóða líka en ekki síst hér þar sem tala óskilgetinna barna svokallaðra er mjög há. Móðirin hefur svo til eingöngu alið barnið upp og faðirinn afgreitt málið með því að borga mánaðarlegt meðlag með því. Þetta er auðvitað fullkomlega siðlaust og enginn líður meira fyrir slíkt fyrirkomulag en einmitt barnið.

Ég er því algjörlega ósammála í öllum atriðum ræðu hv. þm. Kristínar Einarsdóttur sem hér talaði áðan. Ég tel ekki að móðirin eigi á nokkurn hátt að vera ábyrgari fyrir þessu barni heldur en faðirinn. Og ég held að allt jafnrétti hljóti að byggjast á gagnkvæmri virðingu tveggja manneskja hvorrar fyrir annarri og sameiginlegri ábyrgð fyrst og fremst. Ég held nefnilega að við værum komin lengra í jafnréttisátt ef jafnréttisbarátta hefði í meira lagi snúist um ábyrgð.

Nokkur önnur atriði eru í þessu frv. sem ástæða er til að nefna, ekki til gagnrýni heldur meira til ábendingar. Þessi kostur, sem nú stendur foreldrum til boða, hvort sem er við skilnað eða um er að ræða uppeldi óskilgetins barns, þ.e. að fá að hafa sameiginlegt forræði barnanna, hlýtur að kalla á nokkra ráðgjöf og nokkuð aukna ráðgjöf þessum foreldrum til handa. Hér er í grg., og síðasti hv. ræðumaður kom inn á það mál líka, minnst á atriði eins og: Hvar á barnið að búa? Ég held að öllum þeim sem með málefni barna fara komi saman um að barninu sé best og eðlilegast að eiga heima á einum stað. Margir hafa reynt að skiptast á um að hafa barnið á heimili sínu þannig að barnið hefur í raun og veru búið á tveim heimilum. Ég held að í flestum tilvikum sé þetta óheppilegt og nægir að nefna skólahverfi, vini og annað slíkt, sem barnið vill helst vera hjá, svo og daglega hluti og umhverfi sem við öll erum heldur fastheldin á. Atriði eins og þessi þurfa menn auðvitað að fá ráðgjöf um. Og vitaskuld er hér um að ræða auknar skyldur foreldra sem vel getur verið að taki fólk nokkurn tíma að aðlaga sig að. Ég held einnig að þetta kalli á kennslu, allt frá grunnskóla, um ábyrgð, meiri kennslu um siðferðilega ábyrgð manneskjunnar. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að breyting sem þessi hlýtur að taka nokkurn tíma.

Ég held þess vegna, og vil benda hæstv. ráðherra á, að ég tel tvímælalaust að þetta frv., ef að lögum verður, hljóti að kalla á að barnaverndarnefndir verði stórlega efldar. Við vitum öll við hvað þær hafa átt að stríða. Þær hafa verið allt of fátækar að starfsliði og þegar vandamál hafa komið upp hafa barnaverndarmál tekið allt of langan tíma, og hið sama gildir um barnaverndarráð. Ég held að til þess að þessi sameiginlega forsjá megi heppnast vel verði foreldrar að eiga miklu meiri aðgang að faglegri ráðgjöf. Ég vona hins vegar að þörfin á því fari síðan dvínandi þegar fólk lærir að aðlaga sig þessum gjörbreyttu viðhorfum því þetta er meiri breyting en ég hygg að margir geri sér ljóst.

Hér fyrir þinginu liggur og hefur legið í tvö ár frv. til laga um umboðsmann barna. Ég held að þessi breyting undirstriki enn frekar þörfina á því embætti.

Í löndunum í kringum okkur gerist umræða um málefni barna nú æ háværari. Ég hef áður margsinnis farið yfir breytta stöðu barna í öllum þjóðfélögunum hér í kringum okkur þar sem börn eru e.t.v. ekki í forsjá annars foreldris heldur hvorugs, eins og segja má að hér sé á Íslandi, þar sem báðir foreldrar vinna allt of langan vinnudag og börnin eru mestan part á eigin vegum við þá afþreyingu sem við e.t.v. síst kjósum.

Ég held þess vegna að ekkert skuli sparað til að vinna að því að bæta hag barna í þessu þjóðfélagi. Hann er okkur á engan hátt til sóma og við höfum góð efni til þess að gera betur við það fólk sem á að taka við þessu þjóðfélagi. Vegna þess að það tekur ekki nema örfá ár, innan við 20 ár, að eyðileggja heila kynslóð. Og ég held að hv. alþm. ættu að vera betur á verði um málefni barna en þeir hafa verið hingað til. Ég vil þess vegna skora á hv. þingheim að líta á þessi mál í samhengi og samþykkja bæði frv. sem hér liggur fyrir, sem mér þykir vel unnið og skynsamlega, þar er valin sú leið sem ég held að sé ein fær, og jafnframt huga að frv. um embætti umboðsmanns barna. Á meðan við borgum fleiri hundruð milljónir í vexti af Kröflu höfum við efni á að eyða eins og 10 millj. í að gefa börnunum í landinu umboðsmann.

Vegna athugasemda hv. þm. Kristínar Einarsdóttur, 12. þm. Reykv., hér áðan varðandi 7. gr. um framlag til menntunar eða starfsþjálfunar held ég að hér sé um ókunnugleika hennar að ræða sem er fullkomlega eðlilegur vegna þess að hún sat ekki hér á síðasta þingi, síðasta kjörtímabili. Ástæðan fyrir þessum möguleika sem menn hafa nú til að sækja um framhaldsgreiðslu foreldris vegna náms- eða starfsþjálfunar var frv. sem við fluttum, ég og hæstv. núv. félmrh., og tók okkur þó nokkurn tíma að lemja það hér í gegnum þingið, héldum um það margar ræður og langar. Það tókst þó. Hér er um að ræða heimildarákvæði og það er fullkomlega eðlilegt að það sé það vegna þess að í mörgum tilvikum er engin ástæða til þess að framlengja þessar greiðslur. Í mörgum tilvikum eru umrædd börn með eigin tekjur og margir foreldrar það tekjuháir að við getum tekið þann kost að eyða því fé frekar þar sem þess er meiri þörf, þannig að ég sé enga ástæðu til að breyta þessu ákvæði. Við lögðum til að foreldrið sem unglinginn hefur sækti um þetta. Ég held að það sé rétt, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, að nú eigi barnið sjálft að geta sótt um þetta. Það er fullkomlega eðlilegt og það get ég mjög vel samþykkt.

Herra forseti. Hv. 12. þm. Reykv. gat þess áðan að hún teldi að móðirin ætti áfram í flestum tilvikum að hafa börnin og rökstuddi það með því að þjóðfélagið hefði ekki breyst svo mikið að þetta væri í raun og veru raunhæft. Ég er gjörsamlega á annarri skoðun. Ég held, eða vona, að við ætlum að breyta þessu þjóðfélagi og við verðum að byrja einhvers staðar og ég held að þetta frv. sé kannski eitt af fáum raunverulegum skrefum sem tekin hafa verið til þess að jafna kjör karla og kvenna. Ég held að það sé ekkert úr vegi að byrja á siðferðilega sviðinu fremur en því efnahagslega. Þess vegna get ég ekki annað en fagnað frv. og skorað á hv. Alþingi að það verði að lögum á þessu þingi. Ég vona hins vegar jafnframt að þingið taki fyrir áðurnefnt frv. um umboðsmann barna og hæstv. ráðherra vinni að því að barnaverndarnefndir og barnaverndarráð verði efld sem allra best og mest.

Það var eitt atriði sem ég vildi biðja hæstv. ráðherra að skýra og þar kemur kannski bara til tímaskortur minn við undirbúning og lestur þessa máls. Ég áttaði mig ekki alveg á við lestur frv. hvernig, ef svo færi nú að foreldrar ákvæðu að barnið byggi á einhverjum tímabilum hjá hvoru foreldri um sig, meðlagsgreiðslur eru þá hugsaðar. Ég satt best að segja áttaði mig ekki á því og hlýt ég þess vegna bara að spyrja þar sem ég geri ráð fyrir að ýmsir aðrir átti sig ekki á því heldur.

Annað langaði mig svo að lokum að gera athugasemd við og skal ég svo ljúka máli mínu. Ég heyrði að hæstv. ráðherra lagði til að málið gengi til hv. félmn. Það kann að vera rétt en barnalögin sjálf gengu til hv. allshn. Þar er frv. um umboðsmann barna til afgreiðslu. Ég vil því spyrja hvort einhver sérstök ástæða sé fyrir því að ráðherra leggur til að málið fari til félmn.

Ég hef svo lokið máli mínu, herra forseti.