27.10.1987
Sameinað þing: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

Stefnuræða forsætisráðherra

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar.

Ríkisstjórn Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. mun standa vörð um lífskjörin í landinu með því að halda verðbólgunni í skefjum og skapa atvinnulífi viðunandi starfsskilyrði. Jöfnuði verður náð í ríkisfjármálum þegar á næsta ári og ríkissjóður mun ekki taka ný erlend lán. Með samræmdum aðgerðum hefur fastgengisstefnan verið styrkt.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir aðgerðum sem örva sparnað og auka frjálsræði í íslensku efnahagslífi. Hún mun koma á fót nýju skattkerfi í landinu sem er einfaldara, réttlátara og skilvirkara.

Ríkisstjórnin mun færa verkefni og tekjur til sveitarfélaga og auka þannig tekjur þeirra og ábyrgð og leggja áherslu á að tryggja jafnvægi milli byggðanna í þróun atvinnulífs og þjónustu.

Ríkisstjórnin mun selja ríkisfyrirtæki og hlutafé ríkisins í fyrirtækjum sem stunda atvinnurekstur, þar sem henta þykir.

Ríkisstjórnin mun með markvissri fjölskyldustefnu vinna að því að treysta stöðu fjölskyldunnar með velferð barna fyrir augum og gera átak til að koma á jafnrétti kvenna og karla með sérstakri áherslu á launajafnrétti.

Ríkisstjórnin mun fylgja utanríkisstefnu sem grundvallast á varnarsamstarfi vestrænna ríkja, norrænu samstarfi og aðild að Sameinuðu þjóðunum. Hún mun styðja alla raunhæfa viðleitni til afvopnunar og upprætingar kjarnorkuvopna með gagnkvæmum samningum.

Ríkisstjórnin vill stuðla að vinsamlegum samskiptum þjóða í milli þar sem friður, frelsi og mannréttindi verða ekki í sundur slitin.

Það er gróandi í íslensku þjóðlífi. Líf og starf þjóðarinnar gerist æ fjölbreyttara og fjölskrúðugra. Við höfum Íslendingar sótt fram á öllum sviðum, hvort heldur er í atvinnu- og efnahagslífi eða í menningu og listum. Við höfum notið árgæsku til lands og sjávar og ytri aðstæður hafa verið þjóðinni hagstæðar á marga lund. Þjóðin býr við betri lífskjör en nokkru sinni fyrr. Athafnagleði landsmanna hefur brotist fram og hvert sem litið er má sjá merki um skapandi hugsun, þrótt, umsvif og framfarir.

Við Íslendingar erum sjálfstæð, vel menntuð þjóð með auðugt menningarlíf. Við eigum gjöful fiskimið og mikilfenglegt og fagurt land. Við búum við efnahagslega velsæld eins og hún gerist, en hjá fámennri þjóð í harðbýlu landi er þó atgervi einstaklinganna hinn raunverulegi þjóðarauður.

Við nálgumst nýja öld ekki aðeins samkvæmt lögmáli tímatalsins heldur einnig öld hátækni og þekkingar, öld meiri samskipta þjóða í milli, nýja upplýsingaöld. Það er ríkisstjórnar og Alþingis Íslendinga að leiða þjóðina inn í þessa nýju öld og sjá svo um að hún dragist ekki aftur úr öðrum þjóðum, heldur standi í fylkingarbrjósti þar sem aðstaða leyfir. Markmiðið er að lífskjör hérlendis standist samanburð við það sem best gerist með öðrum þjóðum. Óvíða eru lífskjör jafnari milli þjóðfélagshópa en hér á landi. Verkefni okkar er að fækka lágtekjustörfum og bæta lífskjör þjóðarinnar allrar með tæknivæðingu og alhliða framþróun. Vaxandi togstreita þéttbýlis og strjálbýlis er áhyggjuefni. Við þurfum að efla skilning og virðingu fyrir störfum og aðstæðum hvers annars. Landsbyggðarfólkið má ekki agnúast út í höfuðborgina eða vanmeta þjónustustörfin sem þar eru unnin. Á móti verður að kveða niður það öfugmæli sem oft heyrist að framleiðslustörfin á landsbyggðinni séu baggi á þéttbýlisfólkinu. Gagnkvæmur skilningur er forsenda fyrir því að okkur takist það ætlunarverk að tryggja uppbyggingu og framfarir landsins alls.

Þjóðfélög eru gjarnan metin eftir því hvernig þeim farnast við þá sem minnst mega sín, börn, aldraða og öryrkja. Við Íslendingar höfum byggt upp og þróað öflugt velferðarkerfi. En traust atvinnulíf og verðmætasköpun er undirstaða og í raun forsenda velferðarinnar.

Þótt efnahagsmál hljóti á hverjum tíma að vera meðal meginviðfangsefna ríkisstjórnar er ljóst að við fleiri verkefni er að fást. Það er skylda ríkisstjórnar að búa svo í haginn fyrir þjóðmenningu okkar Íslendinga að hún blómgist og dafni. Lífskjör eru ekki einungis efnaleg afkoma. Lífskjör eru einnig menningarlíf, vísindi og menntir. Tilkall okkar Íslendinga til sjálfstæðis byggðist öðru fremur á tungu okkar og bókmenntaafrekum. En hver eru tilvistarrök þjóðarinnar ef hún hættir að skapa menningarleg verðmæti? Gullöld Íslendinga er að sönnu glæst, en þjóðin lifir ekki á fornri frægð einni saman.

Okkur Íslendingum er annt um stöðu okkar meðal þjóðanna. Við viljum ekki vera þiggjendur á öllum sviðum heldur einnig veitendur í þeim efnum sem við höfum sérstakar aðstæður til. Í menningu og vísindum þekkjast engin landamæri. Kröfur á því sviði eru alþjóðlegar. Íslensk menning er okkur bakhjarl vegna þess að hún rís upp úr. Sama á að gilda um vísindin. Íslensk vísindi standa ekki undir nafni nema í þeim felist framlag til alþjóðlegrar þekkingar. Er það ofætlan að Íslendingum takist að leggja sitt af mörkum í samfélagi þjóðanna á sviði vísinda, lista og mennta? Þjóðlegur metnaður kallar á að við sækjum fram, sköpum og gerum okkur gildandi. Það er lífsnauðsyn að slíkri starfsemi verði búin sem best skilyrði í landi okkar, enda blasir við stöðnun að öðrum kosti. Fyrir utan þá sem starfa hér heima eigum við Íslendingar afreksmenn á sviði vísinda og mennta sem starfa í öðrum löndum. Allir vinna þeir þjóð sinni, en ákjósanlegt væri að sem flestir hefðu skilyrði til að starfa hér á landi og að því verður að vinna.

Það er höfuðskylda stjórnvalda að búa svo um hnútana að afrakstur efnahagsstarfseminnar verði sem mestur. Engum vafa er undirorpið að frjálsræði í viðskiptum innan eðlilegra leikreglna skilar okkur bestum árangri. Reynslan sýnir að athafnafrelsi leysir úr læðingi atorku og sköpunarkraft og skilar þjóðarbúinu efnahagslegum afrakstri sem ekki fæst með öðrum hætti. En frelsinu fylgir ábyrgð og þeirri ábyrgð geta hvorki einstaklingar, fyrirtæki eða samtök vikið sér undan.

Á sl. ári tókst í tvígang að semja á almennum vinnumarkaði um kaup og kjör þannig að samræmdist stefnu stjórnvalda um efnahagslegan stöðugleika. Ríkissjóður tók á sig byrðar til að ná fram markmiðum samninga um bættan hlut lágtekjufólks, tryggingu kaupmáttar og lækkun verðbólgu. Sagt hefur verið um þessa samninga að þeir hafi einkennst af hófsemi. Á marga lund er það þó rangtúlkun. Samningarnir skiluðu launþegum í raun kaupmáttaraukningu og lífskjarabót langt umfram það sem björtustu vonir stóðu til um og áður hefur þekkst. Launa- og kjaraþróun skiptir miklu um framvindu efnahagsmála hér á landi. Samningar þessir tókust vegna þess að aðilar vinnumarkaðar voru á þeim tíma tilbúnir til að axla þá ábyrgð sem á herðum þeirra hvílir. Núverandi ríkisstjórn er reiðubúin til áframhaldandi samstarfs við aðila vinnumarkaðarins.

Framvinda efnahagsmála að undanförnu og horfur fyrir næstu missiri sýndu vaxandi verðbólgu og viðskiptahalla. Því var nauðsynlegt að beita samræmdum aðgerðum á öllum sviðum efnahagsmála til að koma á stöðugleika.

Ríkisstjórnin ákvað að leggja fram hallalaus fjárlög fyrir árið 1988 og grípa auk þess þegar í stað til fjölþættra aðhaldsaðgerða á sviði fjármála og peningamála sem halda ríkisútgjöldum því sem næst óbreyttum í hlutfalli við landsframleiðslu. Með þessum aðgerðum er ráðstöfunarfé þjóðarinnar beint að sparnaði en frá neyslu og innflutningi og þannig dregið úr viðskiptahalla. Brýna nauðsyn ber til að koma á betra jafnvægi á lánamarkaði og draga úr innstreymi erlends lánsfjár. Ríkissjóður mun ekki taka ný erlend lán og skuldir ríkisins munu lækka að raungildi og í hlutfalli við landsframleiðslu. Lánsfjárlagafrv. stefnir að miklum samdrætti í erlendum lántökum. Einnig hefur verið gripið til almennra ráðstafana til að draga úr erlendum lántökum auk margvíslegra aðgerða til að halda aftur af útgjöldum, bæta hag ríkissjóðs og auka sparnað. Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar treysta gengi krónunnar, en stöðugt gengi ásamt aðhaldi í fjármálum og peningamálum eru forsendur þess að verðbólga hjaðni. Við höfum alla möguleika á að ná þessu marki.

Með stefnumörkun sinni hefur ríkisstjórnin búið efnahagslífinu og þar með aðilum vinnumarkaðarins almenna starfsumgjörð. Að öðru leyti ræðst framvinda efnahagsmála af ytri skilyrðum þjóðarbúsins á næstu mánuðum og missirum. Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar eyða þeirri óvissu er gætt hefur í efnahagsmálum að undanförnu og með þeim er lagður grunnur að stöðugleika í efnahagslífinu og áframhaldandi sókn til bættra lífskjara.

Ákvörðun um að heimila bönkum og sparisjóðum að ákveða eigin vexti í ágúst 1984 var fyrsti áfangi á braut frjálsræðisþróunar á peninga- og lánsfjármarkaði. Síðan hefur hver áfanginn rekið annan í átt til aukins frjálsræðis á þessu sviði. Þessi grundvallarbreyting hefur verið mikilvæg forsenda vaxtar og velmegunar í þjóðarbúskap Íslendinga.

En þó að fjármagnsviðskipti hafi tekið stórstígum framförum á undraskömmum tíma er margt óunnið á þeim vettvangi. Gjaldeyrisverslun og fjármagnshreyfingar milli Íslands og umheimsins verður að gera frjálsari en nú er. Þróun í viðskipta- og samkeppnislöndum stefnir hröðum skrefum í þá átt að fjármagnsstraumar lúta engum landamærum. Í þessum efnum þurfum við þó ætíð að gæta að sérstöðu okkar í þeim tilgangi að varðveita efnalegt sjálfstæði þjóðarinnar. Erlent áhættufé getur orðið íslenskum fyrirtækjum mikil lyftistöng og komið í stað erlends lánsfjár, enda greiðist arður af slíku fé í samræmi við afkomu rekstrarins, en vexti af lánsfé verður að greiða hvernig sem árar. Því er nú unnið að því á vegum ríkisstjórnarinnar að endurskoða og samræma lög og reglur um erlent fjármagn í íslensku atvinnulífi. Markmiðið er að greiða fyrir því að íslensk atvinnufyrirtæki hafi eðlilegan aðgang að erlendu áhættufé, en tryggja um leið með öruggum hætti að erlendir aðilar nái ekki tökum á náttúruauðlindum lands og sjávar.

Ákvæðum iðnaðarlaga verður breytt þannig að hægt verði að veita erlendum aðilum heimild til að eiga meiri hluta í iðnfyrirtækjum. Þessari heimild verður einkum beitt vegna nýsköpunar á vegum samstarfsfélaga íslenskra og erlendra aðila. Brýnt er að hlutabréfamarkaður komist á legg, annars vegar til að fyrirtæki séu ekki ofurseld lánsfé og því viðkvæmari fyrir sveiflum í afkomu og rekstri. Hins vegar til að almenningur geti með ráðdeild og sparnaði eignast hlut í fyrirtækjum og þannig í gegnum arðgreiðslur og verðbreytingar bréfa öðlast hlutdeild í afrakstri atvinnustarfseminnar í landinu.

Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar opna ýmsar nýjar leiðir fyrir almenning og fyrirtæki til að ávaxta sparifé. Bankar fá að bjóða gengisbundna reikninga og heimildir verða veittar til að kaupa erlend verðbréf. Ríki efi eða óvissa um gengi krónunnar þarf enginn lengur að kaupa bíl eða heimilistæki, heldur geta menn sparað á gengistryggðum bankareikningum eða keypt gengistryggða eign sem skilar eigandanum ávöxtun erlendis frá. Hröð uppsöfnun í lífeyrissjóðum gerir og nauðsynlegt að hægt sé að fjárfesta í öðru en innlendum verðbréfum og tryggja á þann hátt hag lífeyrisþega framtíðarinnar. Skattalegum hindrunum fyrir því að almenningur spari með hlutabréfakaupum verður rutt úr vegi. Hlutabréfakaup verða þannig jafngild öðrum sparnaði. Ríkisábyrgð á skuldbindingum fjárfestingarsjóða atvinnuveganna verður afnumin. Ríkisstjórnin hefur gert ítarlega áætlun um breytingar á ríkisfjármálum er hafa það að markmiði að gera skattakerfið einfaldara, réttlátara og skilvirkara. Jafnframt mun ríkisstjórnin bæta framkvæmd og eftirlit með skattalögum til að uppræta skattsvik. Allir eiga að sitja við sama borð þegar kemur að því að greiða í sameiginlega sjóði.

Eftir tvo mánuði, í upphafi árs 1988 kemur til framkvæmda staðgreiðsla tekjuskatts sem er umfangsmesta kerfisbreyting og mesta einföldun sem gerð hefur verið á tekjuskatti einstaklinga til þessa. Ári síðar kemur til framkvæmda virðisaukaskattur sem mun leysa af hólmi söluskattinn sem verið hefur þrándur í götu samkeppnishæfni í íslensku atvinnulífi og ýtt undir skattundandrátt.

Ríkisstjórnin hefur tekið til við að undirbúa sölu ríkisfyrirtækja sem betur eru komin í höndum annarra aðila en ríkisins. Þá voru nú stigin fyrstu skrefin við endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Stefnt er að auknu sjálfstæði ríkisstofnana, þar á meðal rannsóknastofnana atvinnuveganna. Ríkisstjórnin hefur sett sér að vinna að umbótum á stjórnkerfinu og mun leggja fyrir Alþingi frv. að nýjum lögum um stjórnsýslu og Stjórnarráð Íslands. Nýrri skipan verður komið á yfirstjórn umhverfismála.

Heimilið er hornsteinn þjóðfélagsins. Ekkert getur komið í stað fjölskyldu og heimilis við að búa börnum og ungmennum þroskavænleg skilyrði í uppeldi. Nýjar aðstæður og aukin atvinnuþátttaka kvenna hafa gjörbreytt þörfum fjölskyldunnar, en þjóðfélagið hefur ekki lagað sig að þessum breytingum. Ríkisstjórnin hefur nú hrundið af stað starfi sem miðar að því að treysta stöðu fjölskyldunnar og tryggja velferð barna. Leitað hefur verið eftir tillögum um leiðir að þessu markmiði á sviði skóla- og dagvistunarmála, lífeyris- og skattamála og hvað snertir sveigjanlegan vinnutíma foreldra. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á starf þetta og mun ganga fast fram við að hrinda úrbótum og stefnu að framangreindum markmiðum í framkvæmd.

Í stefnuyfirlýsingu ríkistjórnarinnar er lögð áhersla á varðveislu auðlinda lands og sjávar og skynsamlega nýtingu þeirra. Í starfsáætlun sinni ákvað ríkisstjórnin að fiskveiðistefnan skyldi tekin til endurskoðunar og stefna mörkuð sem taki gildi þegar í upphafi næsta árs. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að ná sem víðtækastri samstöðu um stjórn fiskveiða. Áfram verður lögð megináhersla á þjóðhagslega hagkvæmni í fiskveiðum. Með takmörkuðum heildarafla hljóta gæði framleiðslunnar að verða æ mikilvægari ef auka á verðmæti sjávarafurða. Sjávarútvegurinn, sem er undirstöðugrein í efnahagslífi okkar, er og verður í sífelldri þróun.

Eitt merkasta nýmælið á sviði sjávarútvegs er ákvörðun Verðlagsráðs um frjálst fiskverð Á ákveðnum tegundum sjávarafla. Ætlunin er að heimila Verðlagsráði með yfirnefndarákvörðun að gefa fiskverð frjálst. Fyrir aðeins örfáum missirum hefði þótt ólíklegt að unnt væri að koma á fót fiskmörkuðum með svo skjótum hætti sem raun hefur orðið á. Framkvæmdin er enn í mótun og senn reynir á hvort markaðurinn hafi sveigjanleika til að bregðast við breyttum rekstrarskilyrðum vinnslugreina. Frjálst fiskverð felur hins vegar í sér stefnubreytingu í verðlagningu sjávarafla og færir aukin völd og meiri ábyrgð heim í byggðarlögin þar sem útvegur er stundaður.

Eitt af þeim verkefnum sem við blasa í sjávarútvegi er að endurskoða reglur um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Miðstýrð sveiflujöfnun í gegnum sjóði sjávarútvegsins hefur gefist misjafnlega. Ástæða er því til að huga að nýjum leiðum í þessum efnum. Kanna þarf hvort samstaða getur orðið um að tengja verðjöfnun hverju fyrirtæki fyrir sig eða færa hana inn í skattkerfið og auka þannig ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra.

Áfram verður unnið að starfsfræðslu fiskvinnslufólks sem mun leiða til aukinna réttinda, atvinnuöryggis og betri launa í atvinnugreininni. Sýnt þykir að það átak sem unnið hefur verið á þessu sviði hefur aukið framleiðni verulega á sl. ári.

Í landbúnaði verður haldið áfram að vinna að framkvæmd búvörulaganna frá 1985. Lögð verður áhersla á uppbyggingu nýrra atvinnugreina í sveitum, þó að framleiðendum hefðbundinna búvara fækki, til að tryggja viðunandi afkomu þeirra sem áfram starfa við búskap. Hefur náðst góð samstaða við Stéttarsamband bænda í þessu efni. Lögð verður áhersla á að framkvæmd búvörusamningsins verði sem hagkvæmust fyrir alla aðila, m.a. með öflugu sölustarfi og aðlögun framleiðslunnar að markaðsaðstæðum. Unnið verður að endurskipulagningu í þjónustukerfi landbúnaðarins með tilliti til breyttra aðstæðna.

Á sviði iðnaðarmála mun ríkisstjórnin greiða fyrir stofnun og starfsemi smáfyrirtækja á sviði fjarskipta og upplýsingatækni og enn fremur á sviði nýrrar tækni, t.d. líf- og rafeindatækni. Ríkisstjórnin mun áfram leggja til fjármagn á móti rannsóknastofnunum og fyrirtækjum til hagnýtra rannsókna í þessum iðngreinum. Sameinaðar hafa verið þrjár nefndir sem unnið hafa að því að greiða fyrir samstarfi við erlenda aðila á iðnaðarsviðinu, stóriðjunefnd, samninganefnd um stóriðju og frumkvæðisnefnd. Nýja nefndin fær það verkefni að kynna erlendum aðilum möguleika til að fjárfesta í iðnrekstri hér á landi, bæði í stórum og smáum fyrirtækjum. Stuðningsaðgerðir og óeðlilegar niðurgreiðslur erlendis hafa valdið örðugri samkeppnisstöðu ákveðinna iðngreina og má þar nefna skipasmíðaiðnaðinn. Í samræmi við starfsáætlun ríkisstjórnarinnar verður unnið að því að treysta samkeppnisstöðu slíkra iðngreina.

Á grundvelli starfsáætlunar ríkisstjórnarinnar verður hafist handa um endurskoðun á skipulagi orkumála, þar með hlutverki Orkusjóðs og Orkustofnunar. Verkefni Orkustofnunar hafa dregist saman. Til greina kemur að einhver hluti þeirrar starfsemi flytjist til einkaaðila. Með því móti yrði auðveldara að mæta sveiflum sem óhjákvæmilega eru á framkvæmdum í orkumálum og rannsóknum þeim tengdum.

Þá er einnig í athugun breyting á raforkudreifingu í einstökum landshlutum þannig að hún verði í auknum mæli í höndum sveitarfélaga og orkufyrirtækja þeirra. Ríkisstjórnin lítur á það sem eitt meginverkefni sitt að tryggja jafnvægi milli byggðanna í landinu í þróun atvinnulífs og þjónustu. Á þann hátt vill hún stuðla að sáttum og gagnkvæmum skilningi milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Bættar samgöngur eru veigamikill þáttur í þessari stefnu. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir sérstöku átaki á kjörtímabilinu þar sem fyrirliggjandi áætlanir á sviði samgangna verði samræmdar. Fjárhagslegt skipulag heilbrigðisþjónustu og sjúkratrygginga verður tekið til gagngerðrar endurskoðunar með það fyrir augum að nýta sem best þá fjármuni sem varið er til þessara mála. Launakerfi heilsugæslu lækna verður endurskoðað, svo og skipan sérfræðingaþjónustu innan greiðslukerfis almannatrygginga. Verðlagning á lyfjum verður tekin til athugunar í því skyni að lækka lyfjakostnað. Gerð verður áætlun til fimm ára í samráði við sveitarfélög um átak til að bæta heimilisþjónustu og vinnuaðstöðu fyrir aldraða. Samtímis verða núgildandi lög um málefni aldraðra endurskoðuð og síðan framlengd. Settar verða reglur varðandi mengun ytra umhverfis og hvernig megi verjast henni. Þá verða almannatryggingalögin og verksvið Tryggingastofnunar ríkisins tekin til endurskoðunar.

Í menntamálum er í undirbúningi ný löggjöf um skólastigin þrjú, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, þar á meðal um háskóla á Akureyri, enn fremur ný löggjöf um nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík, Leiklistarskóla Íslands, Myndlista- og handíðaskólanum, m.a. með hliðsjón af námi á háskólastigi. Í athugun er endurskoðun á lögum og reglum um námslán og námskostnað og hvernig efla megi fullorðinsfræðslu, símenntun og endurmenntun. Einnig er hafin athugun á fyrirkomulagi sérkennslu. Í menntmrn. er unnið að athugun á opinberum stuðningi við menningarstarf. Lögð verður aukin áhersla á verkefnastyrki og viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Stefnt er að því að fjölga verkefnastyrkjum til vísindarannsókna, einkum á sviði nýtæknigreina.

Hið víðtæka samkomulag aðila vinnumarkaðarins um breytingar á húsnæðislánakerfinu, sem gert var í febrúar 1986, gerði það kleift að hækka verulega lánsfjárhæðir og lengja lánstíma húsnæðislána. Nú er ljóst að eftirspurn eftir lánum er langt umfram það sem reiknað hafði verið með og einnig fjárþörf húsnæðislánakerfisins. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að gerðar verði ráðstafanir til að draga úr eftirspurn eftir lánum. Áhersla verður lögð á að leysa vanda þeirra sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum og verður hluta af ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins varið til þessa.

Ríkisstjórnin mun leggja áherslu á að aðstaða aldraðra og fatlaðra verði bætt og unnið verði að því að tryggja réttarstöðu þeirra í þjóðfélaginu. Starfsemi Framkvæmdasjóðs fatlaðra verður styrkt samkvæmt fjögurra ára áætlun um framkvæmdir og fjármögnun þeirra. Sérstök áhersla verður lögð á uppbyggingu sambýla fyrir fatlaða og verndaða vinnustaði.

Í dómsmálum er unnið að heildarendurskoðun dómsmálaskipunar landsins með það að markmiði að störfum á sviði dómsýslu og umboðsstjórnar verði ekki blandað saman. Þá hefur verið sett á fót sérstök samstarfsnefnd ráðuneyta um ávana- og fíkniefnavarnir. Áhersla verður lögð á að þetta verkefni leiði til árangurs við að bægja þeim vágesti frá sem fíkniefnin eru.

Tekin hefur verið ákvörðun um þjóðarátak um umferðaröryggi. Unnið er að endurskipulagningu á starfsemi Bifreiðaeftirlitsins og gert ráð fyrir að skoðun og skráning ökutækja verði að mestu flutt til nýs hlutafélags er verði í eigu ríkis og helstu hagsmunaaðila á sviði bifreiðaþjónustu og umferðaröryggis.

Frjáls verðlagning skal vera meginregla í viðskiptum þar sem samkeppnisaðstæður leyfa. Löggjöf gegn hringamyndun og samkeppnishömlum og óeðlilegum viðskiptaháttum verður endurskoðuð. Dregið verður úr ábyrgð ríkisins og afskiptum af bankarekstri og lánastarfsemi. Stefnt verður að samruna banka. Markmiðið er að ná aukinni hagkvæmni og rekstraröryggi í bankakerfinu en tryggja jafnframt eðlilega samkeppni milli alhliða viðskiptabanka. Ríkisstjórnin mun áfram fylgja þeirri grundvallarstefnu í utanríkismálum að taka virkan þátt í norrænu samstarfi, í samstarfi Evrópuþjóða, í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og vestrænu varnarsamstarfi á grundvelli aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningsins við Bandaríkin. Starf utanrrn. á sviði varnar- og öryggismála verður eflt enn frekar og höfuðáhersla á það lögð að íslensk stjórnvöld leggi fyrst og fremst sjálfstætt mat á öryggis- og varnarmál.

Málefni útflutningsverslunar, undirbúningur og framkvæmd viðskiptasamninga, skipti Íslands við alþjóðleg viðskiptasamtök, svo sem Evrópubandalagið, Fríverslunarbandalagið og GATT, flytjast nú frá viðskrn. til utanrrn. Vonir eru bundnar við að þessi nýja skipan utanríkisviðskiptanna gefist vel. Vænst er náins samstarfs hinnar nýju utanríkisviðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs Íslands sem tók til starfa á fyrra ári. Aukin áhersla hlýtur að verða lögð á þennan þátt utanríkismála er snertir kynningu íslenskrar vöru og þjónustu á erlendri grund.

Á undanförnum missirum hefur gætt vaxandi áhuga aðildarríkja Evrópubandalagsins á að efla samstarf sitt og koma í framkvæmd þeirri hugsjón sem lá að baki stofnunar bandalagsins á sínum tíma: Að gera ríkin að svæði án landamæra í bókstaflegum skilningi. Jafnframt hefur bandalaginu vaxið ásmegin sem kemur fram í fjölgun aðildarríkjauna. Á síðasta ári bættust tvö mikilvæg viðskiptalönd okkar Íslendinga, Spánn og Portúgal, í hóp Evrópubandalagsríkjanna. Áður hafa verið uppi hugmyndir innan Evrópubandalagsins um að greiða frekar fyrir viðskiptum aðildarríkjanna innbyrðis, en þær hafa strandað þegar komið hefur að framkvæmdinni. Að þessu sinni er þó margt sem bendir til að hugur fylgi máli og að raunhæft sé að ætla að hin 12 ríki Evrópubandalagsins verði orðin að einni viðskiptaheild á árinu 1992 eins og að er stefnt. Í þessu felst m.a. að innan bandalagsins verða skattar og staðlar samræmdir, flutningur fjármagns og vinnuafls verður frjáls og innri tollmúrar lagðir niður. Markmiðið er að gera evrópsk fyrirtæki samkeppnishæfari á alþjóðlegum mörkuðum í samkeppni við helstu keppinautana, þar á meðal Bandaríkjamenn og Japana. Af þessum sökum er hyggilegt og nauðsynlegt að auka mjög verulega starf okkar Íslendinga er lýtur að samskiptum okkar við Evrópubandalagið, ekki síst með tilliti til þess að búast má við harðari og óvægnari viðskiptastefnu gagnvart ríkjum er standa utan bandalagsins. Stofnun sérstakrar skrifstofu í Brussel á sl. ári var áfangi í þessa átt. Einnig komum við til með að njóta EFTA-samstarfsins í þessu tilliti og mörkunar sameiginlegrar stefnu og stuðnings EFTA-ríkjanna við íslensk sjónarmið í viðræðum við Evrópubandalagið.

En fleira þarf til að koma. Breyttar aðstæður krefjast þess að brugðist verði við af hálfu okkar Íslendinga til að tryggja hagsmuni okkar til frambúðar. Þegar nánari samskipti Íslands og EFTA og Evrópubandalagsins eru skoðuð staðnæmast menn óhjákvæmilega við tvö atriði: Annars vegar kröfu Efnahagsbandalagsríkjanna um fiskveiðiréttindi í íslenskri fiskveiðilögsögu sem við getum aldrei á fallist og hins vegar smæð íslensks atvinnulífs sem vart mundi þola frjálst streymi vinnuafls. Við verðum þó að gera ráðstafanir til að laga okkur að nýjum viðhorfum og aðstæðum á þessu sviði. Annars vegar verðum við að tryggja íslenskum atvinnufyrirtækjum svipaða aðstöðu í efnahagslegu tilliti og fyrirtækin njóta á alþjóðlegum mörkuðum. Í þessu felst m.a. að tryggja verður stöðugleika í íslensku efnahagslífi, lágt verðbólgustig og aðgang að erlendu áhættufjármagni. Hins vegar verður í viðræðum við Evrópubandalagið, sem rétt er að undirbúa að hefja sem fyrst, að byggja áfram á þeim grunni sem lagður var í samningunum frá 1972 og tryggt hefur sérstöðu okkar Íslendinga í viðskiptum við ríki Evrópubandalagsins. Þennan samning verður að útvíkka í ljósi þeirra breyttu aðstæðna og aukinnar fjölbreytni í íslenskum útflutningi sem raun hefur orðið á.

Nokkrir hnökrar hafa verið í samskiptum Íslendinga og Bandaríkjamanna á undanförnum árum. Deilt hefur verið um siglingar milli ríkjanna og rétt okkar til að stunda hvalveiðar í vísindaskyni. Í báðum tilvikum risu upp raddir er kröfðust endurskoðunar á varnarsamningi ríkjanna vegna framgöngu Bandaríkjanna gagnvart okkur Íslendingum. Það er raunar ekki einsdæmi fyrir þessar deilur að slíkar kröfur komi fram, heldur virðist það vera orðin viðtekin venja í hvert skipti sem upp kemur ágreiningur við Bandaríkjamenn. Um slíkar deilur vil ég almennt segja þetta:

Varnarsamstarf Íslendinga og Bandaríkjanna hefur nú staðið hátt á fjórða tug ára og tekist vel í öllum aðalatriðum. Þetta samstarf er tilkomið með samningi beggja ríkjanna og lýtur aðeins að þessum eina þætti, nauðsynlegum landvörnum á viðsjárverðum tímum. Samningurinn var af okkar hálfu gerður vegna íslenskra hagsmuna og hann hefur ávallt notið stuðnings mikils meiri hluta þjóðarinnar. Þessi samningur hefur á hinn bóginn afmarkað efni og þess vegna er ekki aðeins óhyggilegt heldur getur það orðið þjóðhættulegt að rugla þar saman við alls óskyldum málum og hagsmunum. Við munum að sjálfsögðu gæta hagsmuna okkar og sæmdar í öllum samskiptum við Bandaríkjamenn og hvergi hvika þegar sjálfsákvörðunarrétturinn er í húfi. En varnar og öryggismál verða ekki gerð að verslunarvöru.

Á sl. ári var haldinn hér í Reykjavík fundur tveggja helstu leiðtoga heims, forseta Bandaríkjanna og leiðtoga sovéska kommúnistaflokksins. Það hefur síðan komið í ljós að á fundinum var lagður grunnur að því mikilvæga samkomulagi risaveldanna að útrýma heilli tegund kjarnorkuvopna, hinum svonefndu Evrópuflaugum. Slíkt samkomulag sem nú hillir undir markar vonandi upphaf að frekari niðurskurði kjarnavopna og samkomulagi um takmörkun vígbúnaðar. Íslendingar hljóta eins og aðrar þjóðir að láta sig varða svo mikilvæg mál og marka sér stefnu sem er hvort tveggja í senn ábyrg og raunsæ. Við erum lýðræðisþjóð sem hefur tekið sér stöðu með öðrum vestrænum lýðræðisríkjum. Samstaða og staðfesta þeirra ríkja hefur skipt sköpum við að ná þeim árangri sem nú virðist í höfn. Í afvopnunarmálum verður að leggja áherslu á raunsæi og að forsendur raunhæfs friðar eru aukin virðing fyrir mannréttindum og sjálfsákvörðunarrétti þjóða. Við fögnum því ef leiðtogar Sovétríkjanna breyta um stíl, en það þarf meira að koma til. Ég vil leggja áherslu á eftirgreind atriði varðandi samninga og umræður um afvopnunarmál:

1. Afvopnun á einu sviði má ekki leiða til vopnakapphlaups eða ójafnvægis á öðrum sviðum vígbúnaðar. Jafnframt samdrætti í kjarnorkuvígbúnaði verður því t.d. að tryggja jafnvægi á sviði hefðbundins vígbúnaðar.

2. Umræður og hugmyndir um svonefnd kjarnavopnalaus svæði verða að vera liður í víðtæku samkomulagi kjarnorkuveldanna um afvopnun. Þá verður að gæta að því hvort slíkar hugmyndir séu vænlegur kostur fyrir öryggi og varnir landsins og séu til þess fallnar að auka stöðugleika og stuðla að slökun spennu í okkar heimshluta. Sérstaklega verður að huga að því hvort slíkar hugmyndir samrýmast þeim skuldbindingum sem Íslendingar hafa gengist undir með varnarsamstarfi lýðræðisríkjanna. Við aðhöfumst ekkert það sem dregið getur úr samningsstöðu þeirra. Takmörkun vígbúnaðar í okkar heimshluta hvílir á traustum samningamætti lýðræðisríkjanna.

3. Leggja verður ríka áherslu á að samningar á sviði afvopnunar og takmörkunar vígbúnaðar séu skýrir svo að ekki geti leikið vafi á um túlkun þeirra. Slíkir samningar verða að vera gagnkvæmir og tryggja verður virkt eftirlit með framkvæmd þeirra. Allar hugmyndir og tillögur í þessum efnum verða að taka mið af þessu. Við viljum tryggja frið, Íslendingar, til langframa, og því verðum við að leggja mikið upp úr traustum forsendum og varast alla sýndarmennsku.

Herra forseti. Við lifum á breytingatímum. Blikur eru á lofti í efnahagsmálum, en ríkisstjórnin hefur með aðgerðum af sinni hálfu lagt grundvöll að áframhaldandi stöðugleika. En um leið hefur verið lögð mikil ábyrgð á aðila vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin hefur ekki í hyggju að hverfa frá markmiðum sínum eða losa um þá umgjörð sem efna hagslífinu hefur verið sett, m.a. með gengisstefnunni.

Í lífi einstaklinga og þjóða skiptast á skin og skúrir. Við hvoru tveggja verður að bregðast á viðeigandi hátt. Eitt mesta hagvaxtarár í íslenskum þjóðarbúskap er senn liðið. Svo virðist sem þjóðartekjur muni ekki aukast á næsta ári. Það er raunveruleiki sem við verðum að laga okkur að ef við ætlum ekki að kasta framtíðarmöguleikum okkar á bál verðbólgunnar. Nú er tími raunsæis. Takist okkur að lifa og starfa í samræmi við það verður þetta líka tími bjartsýni og framfara. Þessi ríkisstjórn mun horfa til framtíðarinnar með þetta að leiðarljósi. Við erum fámenn þjóð og styrkur okkar býr í einhug og samtakamætti. Ógæfa okkar felst í sundurlyndi og úlfúð. Hugfestum því orð Jónasar Hallgrímssonar úr Fjölni:

„Óskandi væri Íslendingar færu að sjá að það er aumt líf og vesælt að sitja einn í hverju horni og hugsa um ekkert nema sjálfan sig og slíta svo sundur félag sitt og skipta sundur afli sínu í svo marga parta sem orðið getur í stað þess að halda saman og draga allir einn taum og hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins sem öllum góðum Íslendingum ætti að vera í fyrirrúmi.“