02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4133 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

207. mál, barnalög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur gert grein fyrir frv. til laga um breytingu á barnalögum nr. 9 1981 og er það athyglisvert og gott mál. Ég ætla ekki að fara að ræða það nákvæmlega í einstökum atriðum. En það sem kom mér til þess að kveðja mér hljóðs og segja örfá orð voru ummæli hv. 12. þm. Reykv. Ef ég hef heyrt rétt sagði hv. þm. eitthvað á þessa leið: Þjóðfélagið vill að börn fæðist en þegar þau fæðast er það þeim fjandsamlegt.

Þessu vil ég algjörlega mótmæla. Þjóðfélagi okkar er að vísu ábótavant í ýmsum efnum en slíku orðbragði vil ég ekki láta ómótmælt. Ég hef heyrt það áður, og ætla ekki að láta því alveg ósvarað.

Barnalögin nr. 9/1981 voru sett að norrænni fyrirmynd, skulum við segja. Þá voru höfð til hliðsjónar lög sem nýlega höfðu verið sett um öll Norðurlönd og þó víðar. Þessi lög höfðu fyrst og fremst hagsmuni og framtíðarheill barnsins að leiðarljósi. Það er ekkert óeðlilegt við það þó að nú þurfi að endurskoða þessi lög sem gilt hafa frá 1982. Þetta eru viðkvæm og vandasöm mál. Hér er verið að breyta lögunum til batnaðar miðað við reynslu liðinna ára.

En það sem ég vildi leyfa mér að segja og vekja athygli hv. alþm. á er það að þegar við ræðum um þessi mál, sem eru svo viðkvæm og varða heill og hag barna okkar og niðja, hygg ég að hollara sé fyrir okkur að hafa í huga það sem oft var sagt áður fyrr þegar börnin voru fleiri í hverri fjölskyldu og erfiðara að sjá þeim farborða og koma þeim til manns: Blessun vex með barni hverju.