02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4133 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

207. mál, barnalög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að þakka þeim þingdeildarmönnum sem tekið hafa til máls í þessu máli fyrir umræðurnar þau athyglisverðu sjónarmið sem fram hafa komið í máli þeirra.

Ég vil í upphafi þessara örfáu athugasemda taka undir það sem fram hefur komið í máli þeirra allra að þær breytingar einar má gera á barnalögum sem eru börnunum fyrir bestu. Þetta er einfalt markmið en erfitt í framkvæmd. Reyndar gildir það að sjálfsögðu um lögin í heild að þau eiga eingöngu að miðast við þetta markmið. Það er andi þeirra tillagna sem hér eru fluttar en auðvitað má jafnan um það deila hvernig það takist að láta slíka hugsjón verða að veruleika. Það er líka rétt sem hér kom fram, einkum í máli hv. 3. þm. Reykv., að frv. felur kannski fyrst og fremst í sér viðurkenningu á veruleika nútímans; það þarf að færa ákvæði sifjaréttarins og barnalaganna sérstaklega til samræmis við það sem er með það í huga að hagsmunum barna sé vel borgið. Það er tilgangur frv. Ég mun nú víkja örfáum orðum að einstökum atriðum sem fram hafa komið í máli hv. þm.

Í fyrsta lagi vildi ég vekja athygli á því, og það varðar mál flestra sem hafa talað, að í framsögu minni tók ég skýrt fram að í sameiginlegri forsjá fælist hvorki skylda né ábending um að barn skuli búa til skiptis, hvað þá til jafns, á heimilum beggja kynforeldra. Það felst ekki í frv. og það er ekki ætlunin að í því felist nein slík stefna þótt það sé rétt, eins og vitnað var til af hv. 12. þm. Reykv., að dæmi sé af því tekið í grg. að um slíka skiptingu mætti semja. En grg. felur ekki í sér neins konar stefnuyfirlýsingu og ég tek undir það sem fram hefur komið í máli þeirra sem til máls hafa tekið að það er auðvitað best til þess að skapa öryggi í uppvextinum að barnið eigi í aðalatriðum eitt heimili, ef það er gott heimili. Sé það hins vegar ekki gott er kannski betra að eiga tvö.

Í öðru lagi kom fram í máli hv. 12. þm. Reykv. Kristínar Einarsdóttur að hún teldi, að mér heyrðist, að ekkert í núgildandi lögum bannaði samninga eða samkomulag um sameiginlega forsjá. Þetta er ekki svo. Það er beinlínis óheimilt samkvæmt núgildandi lögum að gera slíkan samning eins og kom reyndar fram í máli hv. 3. þm. Reykv. þegar hún talaði áðan. Ég vek athygli á því að samkvæmt núgildandi lögum getur sá sem hefur hið lögformlega forræði ráðstafað barni, eins og sagt er, meðan það er ólögráða, t.d. gefið það til ættleiðingar, án samþykkis hins kynforeldrisins. Þetta er náttúrlega kannski áhrifaríkasta dæmið um það hvers vegna sameiginleg forsjá felur í sér róttæka breytingu, hvers vegna sameiginleg forsjá veitir öruggari réttarstöðu fyrir barnið og foreldrana. Ég nefndi einnig í minni framsögu meðal þess sem mælti með sameiginlegri forsjá, að þar með fengist sjálfkrafa úrræði við andlát annars foreldris um það hver ætti að sjá um barnið þar eftir. Þetta er einmitt annað dæmi um þá öruggari réttarstöðu sem lagaákvæði af því tagi sem hér er gerð tillaga um munu færa börnum og foreldrum og hafi einhver lesið frv. eða grg. þess þannig að í því fælist einhvers konar misskilin jafnréttisbarátta sem snerist helst um vandamál foreldranna vona ég að það verði leiðrétt í þessari umræðu. Þetta vakir alls ekki fyrir flm. og ég veit að í vandaðri meðferð í nefndinni mun það líka koma í ljós að auðvitað eru það hagsmunir barnsins og velferð þess sem eru leiðarljós löggjafans í þessu efni.

Ég ætla aðeins að víkja að því sem hv. 12. þm. Reykv. sagði um 7. gr. frv. Ég get eiginlega vísað til þess sem fram kom hjá hv. 13. þm. Reykv. um það mál. Hennar skilningur á því máli er sá sem ég hef, og ég tel að hann sé sá rétti, að þarna er verið að gera það skýrt að ungmenni getur sjálft krafist aðstoðar við menntun og starfsþjálfun allt að 20 ára aldri. Ábending hv. 12. þm. Reykv. er um það að kannað verði hvort það form sem valið er í 7. gr. til þess að gera þetta skýrt sé nægilega öruggt til að tryggja barninu þennan sjálfsagða rétt — við vitum öll að aldursmörk barnsaldurs og fullorðinsára eru nú býsna breytileg og fara eftir atvikum hverju sinni og hafa sennilega færst upp í aldri á seinni árum fremur en hið gagnstæða. Nefndin sem þessu máli verður vísað til á að fjalla vandlega um þetta orðalag.

Í 21. gr. eru ákveðnar dagsektir á þann sem tálmar umgengni við barn þess sem á rétt á slíkri umgengni. Ég tek alveg undir það með hv. 12. þm. Reykv. að auðvitað orka fébótaákvæði í slíku máli fráhrindandi á lesandann og ég tek það fram að það er ekki verið að gera neina nýja tillögu um breytingu með þessu frv. heldur eingöngu að hækka fébæturnar og verðtryggja þær. Því miður er ekki annarra úrræða kostur að minni hyggju en fébóta í þessu máli og ég vona að það verði ekki lagt löggjafanum til lasts að hann setji einhvers konar viðurlög til þess að tryggja það, sem hefur komið fram hér í máli þeirra sem hingað til hafa talað, að tryggja umgengnisrétt barnsins við foreldra sína.

Hv. 13. þm. Reykv. hefur fagnað þessu frv. og telur það brjóta blað í málefnum barna og í jafnréttismálum. Ég þakka henni stuðninginn við frv. og þeim öðrum sem hafa tekið undir tillögurnar. Ég tel að hér sé um mjög þarfa breytingu að ræða þótt ég taki mér ekki svo sterk orð í munn sem hv. 13. þm. Reykv. gerði í sinni ræðu, en hennar er gerðin söm og hugsunin líka.

Ég vildi líka ítreka það sem sagt var um heimilið og heimilisfesti barnanna; þar erum við greinilega öll sammála.

Hv. 13. þm. Reykv. taldi að frv. kallaði á eflingu starfs barnaverndarnefnda og barnaverndarráðs. Ég get tekið undir það, og þurfti ekki þetta frv. til, en hins vegar hefur það komið fram áður hér í þingdeildinni við umræður um frv. um umboðsmann barna að það er mín skoðun að það eigi fremur að efla barnaverndarnefndir sveitarfélaganna og barnaverndarráð til þess að gæta hagsmuna barna í hvívetna — bæði vegna þess sem þetta frv. felur í sér og eins vegna annarra þátta í þjóðlífinu — en að stofna nýtt embætti sem gæti orðið hálfgerður einstæðingur í kerfinu. Í þessu máli er í raun og veru enginn skoðanamunur heldur eingöngu spurt um það hvaða leiðir séu best til þess fallnar að koma barnaverndinni þannig fyrir að menn vinni með því sem fyrir er en setji það ekki til hliðar að óþörfu. Þarna stendur nú skákin helst upp á sveitarfélögin að minni hyggju. Barnaverndarstarfið er fyrst og fremst á þeirra verksviði og á að vera það. Þau eru nær vettvangi en þau þurfa líka að sinna þessu verki betur. Barnavernd er að sjálfsögðu sveitarstjórnarmálefni en þar á löggjafinn líka að leiðbeina með almennum reglum; undir það tek ég.

Loks spurði hv. 13. þm. um eitt atriði, þ.e. hvernig meðlagsgreiðslur væru hugsaðar þegar barn byggi til skiptis hjá foreldrum sínum. Það er meginstefnan að sé ekki um samning að ræða sem kveður skýrt á um annað fylgi meðlögin dvalarstað barnsins. En hins vegar, eins og ég skil frv. og þetta er eitt af þeim atriðum sem ástæða er til að nefndin gaumgæfi, skil ég það svo að foreldrum sé heimilt að semja um annað, þ.e. að það foreldri sem ekki hafi barnið allan tímann á framfæri geti fengið fullt meðlag eða hið gagnstæða. Ef ekki er samið um þetta atriði virðist ljóst að meðlagið fylgir dvalarstað barnsins.

Hv. 3. þm. Reykv. benti á upplýsingar sem nefndin ætti að afla sér. Ég tek undir þær ábendingar. Þær eru þarfar og ég mun fyrir mitt leyti leggja það fyrir starfsmenn dómsmrn. að freista þess að afla þessara upplýsinga, þ.e. að við lítum til okkar nágrannalanda, ekki eingöngu um formhlið málsins og lagasetningu, heldur líka um það hvernig reynst hafi. Ég er ekki kunnugur því hvernig gengur að afla slíkra upplýsinga en það er auðvitað alveg rétt að það er ekki nóg að hafa falleg orð á lögbókinni ef veruleikinn er ekki jafnfríður. Þetta mun ég hafa í minni og leggja fyrir starfsmenn dómsmrn. að freista þess að afla þessara upplýsinga.

Það er líka rétt sem fram kom í öðru lagi hjá hv. 3. þm. Reykv. og er mjög mikilvægt að það er ekki fullljóst af þessu frv. hvernig málum á að skipa þegar fjórir aðilar, fjórar persónur, koma við sögu um forræði barns. Ef svo er háttað að fráskildir foreldrar eða fólk sem slitið hefur samvistum tekur upp fasta sambúð eða hjónaband við aðra tvo er það réttur skilningur og er nú reyndar regla barnalaganna eins og er að þá flyst forræðið til þess heimilis sem stofnast með nýjum hjúskap eða samvistum og þá er hið sameiginlega forræði hjá þessum tveimur nýju heimilum. Það er auðvitað alveg rétt að í þessu getur falist viss vandi, t.d., eins og hv. 3. þm. Reykv. tók dæmi af, ef annað kynforeldrið vanrækir forsjána eða framfæri barnsins, hvernig þá skuli fram úr ráða. Þetta ferningsvandamál er auðvitað til staðar líka í núgildandi rétti og umfram allt í lífinu sjálfu, veruleikanum. Þetta frv. felur ekki í sér neina sjálfkrafa lausn á því, en geymir þó það úrræði, sem er umfram það sem er, að það er hægt að segja upp sameiginlegum forsjársamningi af slíku tilefni, þ.e. ef annað heimilið vanrækir sína skyldu, hvort sem það er kynforeldrið eða hið nýja stjúpforeldri. Ég ætla ekki að hætta mér út í ítarlegar umræður um þetta efni en óttast reyndar að það sé ekki auðvelt að finna skynsamleg sjálfkrafa úrræði önnur en þau sem frv. felur í sér, þ.e. að þetta geti orðið uppsagnarástæða fyrir samningi um sameiginlega forsjá.

Ég vil svo að lokum taka fram að ég hef ekki sterka skoðun á því til hverrar nefndar þessarar hv. þingdeildar beri að vísa máli eins og þessu. Í frumræðu minni lagði ég til að málinu yrði vísað til félmn. Það kann að orka tvímælis. Ég legg það í úrskurð forseta til hvorrar nefndar hann kýs að vísa málinu og treysti nefndunum jafnvel, hvor þeirra sem valin verður, en vil að endingu segja það að í því vali, eins og öðru í þessu máli, eigum við að leita þess úrræðis sem tryggir það sem er börnunum fyrir bestu.