02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4137 í B-deild Alþingistíðinda. (2902)

207. mál, barnalög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans skýringar. Mig langar til að undirstrika tvennt, að það verði sett í frv. skýrt ákvæði um hvernig fer um forræðið þegar fjórum aðilum getur verið til að dreifa, að kynforeldrar hafa tekið upp sambúð með öðrum. Ég vil skýra það að það atriði sem ég hafði í huga er ekki sérstaklega það að kynforeldri vanræki forsjárskyldu sína, heldur getur verið um einhvern ómöguleika að ræða, fjarvist, e.t.v. langdvöl á sjúkrahúsi eða erlendis, og hvort þá geti komið upp sú staða að maki kynforeldris, og þá kannski kynforeldris sem barnið býr ekki hjá, geti stöðvað einhverja ráðstöfun sem hitt kynforeldrið vill gera vegna barnsins. Þetta virðist þurfa að kveða á um til þess að koma í veg fyrir vandamál sem ella væru óþörf. Vitanlega getur slíkt gerst án þess að vandamál komi upp en tilgangurinn með því að setja lög um fjölskyldumálefni og stofnun og slit hjúskapar er einmitt að greiða úr málum sem ella gætu orðið mjög erfiðir og illleysanlegir hnútar.

Hitt atriðið sem mig langaði til að nefna varðaði aftur heimilisfestina og svo meðlagsskylduna. Mér virðist af því sem hæstv. ráðherra nefndi að það mál hljóti að þurfa að verða miklu skýrara. Virðist það skjóta nokkuð skökku við ef hægt er að semja um meðlagsgreiðslu til foreldris sem alls ekki hefur barnið hjá sér. Þá er orðið skammt í það að farið verði að líta á meðlögin sem tekjur þess foreldris. Grundvallarhugsunin á bak við meðlögin hlýtur að vera sú að þar sé um að ræða fé vegna barnsins og í raun og veru þess fé en ekki tekjur foreldrisins. Þetta vildi ég nefna.

Í þriðja lagi tel ég alveg einsýnt að þessu máli eigi, eins og ævinlega hefur verið gert um sams konar mál, að vísa til hv. allshn. Þó að ég treysti fólkinu í hinni nefndinni og hvaða annarri nefnd sem er ágætlega er það nú einu sinni svo að þetta hefur verið venjan og þar hafa verið, ef svo má segja, ýmis þau mál sem varða lögfræðileg úrlausnarefni á borð við þetta.