02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4139 í B-deild Alþingistíðinda. (2905)

207. mál, barnalög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Örfá orð í framhaldi af því sem fram hefur komið hjá þremur ræðumönnum. Ég tek undir það með hv. 3. þm. Reykv. og vil gera það alveg skýrt að ég tel þörf á því, ef hægt er, að semja skýrari ákvæði um hugsanlegt fjórfalt forræði barns eða barna og hygg gott til að fá um það góðar ábendingar í þingnefndinni og mun fyrir mitt leyti leggja því lið að það verði orðað skýrar.

Í öðru lagi um meðlögin. Ég vona að það hafi verið alveg skýrt af því sem ég sagði áðan en vil þó ítreka það að þar er aðalreglan að meðlög fylgi dvalarstað. Að binda það frekar í lögin er vel hugsanlegt, en þó tel ég skynsamlegt að skilja þar eftir nokkurt svigrúm til samkomulags milli foreldra. En það er rétt ábending hjá hv. 3. þm. Reykv. að það gæti farið út í öfgar og við því þarf að stemma stigu.

Í þriðja lagi taldi hv. 3. þm. Reykv. einsýnt að vísa skuli til allshn. Eins og ég sagði áðan legg ég það í dóm hæstv. forseta til hvorrar nefndar, því við tölum hér fyrst og fremst um tvær, sé best að vísa málinu. Ég hef kynnt mér af viðtölum við hann að hann telur það efnislega koma hvort tveggja til greina, en ég heyri að allshn. virðist hafa heldur fleiri stuðningsmenn, a.m.k. á meðal ræðumanna, og tel ég það góða vísbendingu um það hvar málið eigi að lenda.

En vegna þess sem fram kom hjá hv. 12. þm. Reykv. leiðir það af sjálfu að Kvennalistinn og þm. hans munu fá allar þær upplýsingar sem aðrir fá í þessu máli. Ég fyrir mitt leyti, þótt að það sé ekki mitt um að fjalla, teldi og sjálfsagt mál að fulltrúi hans taki þátt í meðförum málsins í hvorri nefndinni sem það lendir.

En vegna þess sem fram kom hjá hv. 12. þm. Reykv. um það við hvað hún hefði átt þegar hún sagði að málum um forræði barna mætti haga á þann veg sem frv. gerði ráð fyrir án þess að lögum væri breytt, þá kann það að vera rétt meðan ekkert kemur fyrir. Hins vegar skortir þar á það sem ég tel mestu varða, en það er réttaröryggi og skýr réttarstaða barns og foreldra sem þessu frv. er einmitt ætlað að festa á lögbókina. Þetta er munurinn, ekki að löggjafinn eigi að ráðskast með fjölskylduhagi fólks sem fríviljugt ákveður að haga sínu lifi með þeim hætti sem því best hentar svo framarlega sem það skaðar ekki annan.

Út af máli hv. 10. þm. Reykn. er það vissulega rétt athugasemd að hér hafi ekki talað nema tveir karlmenn úr hópi þm. Fyrir því eru vafalaust góðar ástæður. Hins vegar tel ég satt að segja varla vel á því fara að hafa þetta að flimtingum. Ég tók eftir því að hv. 10. þm. Reykn. sagði að frv. fjallaði um aukinn rétt beggja foreldra til samskipta við börn sín. Það er að marki rétt, en það sem meira máli skiptir er þó réttur barnanna til samskipta við báða foreldra sína. (KH: Ég sagði að það fjallaði um börnin okkar.) Þú sagðir það líka.