02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4140 í B-deild Alþingistíðinda. (2906)

207. mál, barnalög

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Hér er vissulega um stórt og þýðingarmikið mál að ræða sem oft hefur verið til meðferðar á hv. Alþingi og ég veit ekki til að það sé ágreiningur meðal þm. um hvað mestu varðar í þessu þjóðfélagi, þ.e. að verja okkar börn og skapa þeim skilyrði að þau fái það uppeldi og umönnun sem þjóðfélaginu ber skylda til.

Ég ætla ekki að ræða þetta efnislega hér en kom upp af tveimur orsökum. Í fyrsta lagi er það að ég gerði ráð fyrir því að þetta mál færi til félmn. Nd. eins og lög gera ráð fyrir þegar um er að ræða mál af þessu tagi. Þess vegna sat ég rólegur og hlustaði á bæði framsögu og umræður sem hér fóru fram til að reyna að meðtaka þær upplýsingar og þær skoðanir sem hv. þm. hefðu til þess að hafa það sem veganesti inn í félmn. Ég mótmæli því eindregið að frv. fari til annarrar nefndar en félmn. Nd.

Ég vil einnig undirstrika að það er ástæðulaus athugasemd hjá hv. 10. þm. Reykn. að væna þm. af karlkyni um að þeir hafi ekki áhuga á þessu máli. Það er algjörlega ástæðulaus athugasemd hv. þm. Ég fullyrði að hv. þm. af karlkyni hér á Alþingi hafa ekki síður áhuga fyrir uppeldi og framtíð sinna barna en kvenkynið.