02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4143 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

201. mál, almannatryggingar

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka flm., hv. 16. þm. Reykv., fyrir að hafa lagt fram þetta mál sem lýtur að bættum hag þeirra sem standa höllum fæti í lífinu, enda slíkra hluta von frá hennar hendi.

Það hefur löngum verið haft sem mælikvarði á menningarstig þjóða á hvern hátt þær búa að þeim þegnum sem minnst mega sín. Hér erum við að tala um fólk úr þeim hópi, fólk sem af ýmsum orsökum býr við skerta möguleika til að lifa því sem við nefnum eðlilegt líf.

Síst ber að neita því að margt hefur einkum á seinni áratugum verið gert af samfélaginu til að rétta hlut þessa fólks, efla getu þess til að lifa eins eðlilegu lífi og kostur er eftir því sem fötlun þess leyfir. Fólk verður öryrkjar af ýmsum orsökum og öryrkjar eru jafnmismunandi og annað fólk, geta þeirra jafnmisjöfn andlega sem líkamlega og annarra.

Í þessu frv. er rætt um þá öryrkja sem dveljast á stofnunum, fólk sem samfélagið hefur tekið í umsjá sína vegna þess að það er ófært um að taka þátt í brauðstriti daglegs lífs. Það er ófært um það, sem þó eru talin vera grundvallarmannréttindi, að vinna fyrir sér.

Vinna er manninum nauðsyn, ekki einungis til þess að sjá fyrir sér og vera öðrum óháður heldur ekki síður vegna þess að með því að afkasta vinnu sannar maðurinn sjálfum sér og öðrum að hann sem einstaklingur er einhvers virði. Með vinnuframlagi sínu staðfestir hann manngildi sitt, staðfestir gildi sitt sem virkur þegn í þjóðfélaginu. En hér er um að ræða fólk sem ekki á þess kost að sanna sig á þennan hátt í samfélagi okkar sem krefst mikillar vinnu og metur fólk samkvæmt því. Það var lengi landlægt hér að meta fólk eftir því hvort það var veitandi eða þiggjandi og enn eimir eftir af þessum hugsunarhætti.

Undanfarin ár hef ég unnið á stofnun sem innan sinna veggja hefur aldrað fólk og öryrkja og hef því kynnst högum og líðan þeirra. Það sem mörgum er erfiðast er sú tilfinning að vera talið einskis nýtt af því að það getur ekki unnið. Það finnur engan tilgang með lífinu þegar það er ekki lengur veitandi heldur aðeins þiggjandi. Það glatar sjálfsvirðingunni og missir lífslöngunina. Þó gætum við lært svo óendanlega margt af þessu fólki. Fatlaður einstaklingur getur vegna reynslu sinnar verið félagslega og tilfinningalega þroskaðri en sá líkamlegi heili sem aldrei hefur þurft að takast á við verulega erfiðleika í lífinu. Þannig getur það fólk verið veitandi með því að miðla öðrum af sinni lífsreynslu þó það jafnvel átti sig ekki á því sjálft.

Í frv. þessu er farið fram á hækkaða vasapeninga handa öryrkjum á stofnunum og í grg. er réttilega tekið fram að sú upphæð sem þeim nú er ætluð dugar ekki fyrir brýnustu þörfum. Öryrkjar eru fólk á ýmsum aldri og hafa sömu þarfir og annað fólk, sömu löngun til skemmtana og afþreyingar, sömu þörf til að lifa lifandi lífi. Við sem betur erum sett verðum að gera okkar til að bæta hag þessa fólks sem sannarlega er ekki í stakk búið til að gera það sjálft. Aukin fjárráð létta þessu fólki lífið og geta veitt því meira frelsi, en það er e.t.v. það sem því kæmi best.

Fyrir nokkru var ég ásamt fleirum gestkomandi á stofnun fyrir öryrkja, þ.e. þroskahefta. Þar barst í tal hve lág sú upphæð væri sem vistmönnum væri ætluð í vasapeninga og einn gesturinn lét svo ummælt að hann sæi ekki hvaða þörf þetta fólk hefði fyrir peninga. Ég sá á einni starfsstúlkunni að henni þótti og hún hélt seinna smáræðustúf yfir gestinum sem ég vil efnislega gera að mínum orðum hér:

Þetta fólk hefur nákvæmlega sömu langanir og þrár og þú og ég og þú getur sjálfur séð hvaða tækifæri það hefur til að svala þeim. Það langar að fara á skemmtanir, það langar að ferðast, það langar að eiga bækur og myndir og það langar meira en margan annan til að eiga falleg föt, bæði til að vera eins og aðrir og eins af því að í mörgum tilfellum getur það þannig hulið fötlun sína.

Margir þroskaheftir hafa yndi af tónlist þó að þeir skilji tæpast talað mál. Þeir hefðu gaman af að eiga kassettur og hljómplötur. Og geti þeir ekki séð um kaup á þessu sjálfir getum við sem vinnum við umsjá þeirra gert það fyrir þá og gerum það með gleði. Við vitum hvað gleður þá og kemur þeim best.

Þetta sagði hún og ég fæ ekki betur séð en að það sé hárrétt athugað.

Og ég vil drepa enn á eitt. Ég hef veitt því athygli í samskiptum mínum við öryrkja og aldraða hve þeim er það mikils virði að geta gefið, geta vikið einhverju að vinum og ættingjum, vera veitandi þó í smáu sé en ekki einungis þiggjandi. Það er þeim þyngra sem búa við kröpp kjör en flest annað ef möguleikinn til að gefa er tekinn frá þeim.

Ég fjölyrði svo ekki frekar um þetta mál, en lýsi því að við kvennalistakonur styðjum þetta heils hugar og vonum að það fái góðan og skjótan framgang.