03.02.1988
Efri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4157 í B-deild Alþingistíðinda. (2916)

212. mál, fangelsi og fangavist

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Ég fagna fram komnu frv. um fangelsismál. Virðist það í flestum greinum vera til bóta. Ég hafði hugsað mér að leggja fyrir nokkrar spurningar, örfáar.

Það kemur fram í 10. gr. að nú verði heimilt að fangelsi skiptist í deildir. Mig langar að vita hvaða hugmyndir eru uppi um deildaskiptingu. Það kom fram í máli hæstv. dómsmrh. að fyrirhugaðar eru úrbætur hvað varðar geðsjúka afbrotamenn. Ég fullyrði að meðferð á því fólki hefur verið skelfileg í gegnum tíðina og fagna ég því ef fyrirhugað er að gera úrbætur í meðferð þess fólks. Þá á ég reyndar við að því sé ekki troðið í fangelsi heldur sé leitast við að lækna þann sjúkdóm sem þetta fólk er ***haldið, en sagan segir okkur að það hefur gersamlega verið vanrækt þrátt fyrir samþykktir, þrátt fyrir lagafyrirmæli og hvað eina. Geðsjúkir afbrotamenn hafa mætt afgangi og búið við skelfilegar aðstæður.

Það er fullyrt í mín eyru að 80–90% af þeim sem vistaðir eru í fangelsum séu þar vegna vandamála er lúta að áfengi eða vímuefni. Það má vera að það sé of há tala, en það er fullyrt í mín eyru og jafnvel er því haldið fram að margir gisti fangelsi sem ekki einu sinni viti hvort þeir hafa framið afbrot eða ekki sem mun vera afleiðing af áfengis- eða vímuefnaneyslu. Það gefur tilefni til að spyrja hvort ekki verði tekið á þeim málum, áfengisvandamálum fanga, vímuefnavandamálum fanga, hvort ekki verði til deild sem lýtur að þeim vandamálum þar sem hugað verði að því að bæta fólk, koma fólki frá þessum vanda, því dæmin sýna, reynsla okkar Íslendinga sýnir að það er hægt að gera kraftaverk í þessum málum. Þau hafa gerst og munu gerast ef vel verður að þessum málum búið, en svo hefur ekki verið gert til þessa, ekki nægjanlega að mínu mati, og væri fróðlegt að vita hvar þessi mál eru á vegi stödd, hvort eitthvert samband eða samráð er við SÁÁ t.d. eða þá aðra aðila sem hafa sinnt þessum málum undanfarin ár.

Þá langar mig til að vita hvort það viðgengst enn sem ég komst að fyrir nokkrum árum. Dæmi: Piltur nokkur hafði verið dæmdur í sex mánaða fangelsi vegna afbrots. Hann var einhleypur. Að tæpum fjórum árum liðnum kemur tilkynning um að hann skuli afplána dóminn í fangelsi. Þá var hann fjölskyldumaður og hafði eignast börn. Aðstæður eru gerbreyttar, maðurinn allt annar, umhverfið annað. Þessi tilkynning olli miklum vandræðum og erfiðleikum. Ég vona að svona sé málum ekki háttað enn í dag, en ef svo er er mikið tilefni til að breyta því.

Ég fagna á ný þeim umbótum sem fyrirhugaðar eru í frv. Það var að heyra á dómsmrh. að hann hefur hugsun nútímamanns hvað varðar þennan málaflokk og fagna ég því.