03.02.1988
Efri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4164 í B-deild Alþingistíðinda. (2919)

212. mál, fangelsi og fangavist

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. dómsmrh. fyrir greinargóð svör við fsp. mínum áðan, en það eru nokkur atriði sem ég vildi undir lok þessarar umræðu minnast á.

Hann sagði að ég hefði sagt áðan að ekkert hafi verið gert í þessum málum og það er rétt. Þá átti ég ekki við hvað verður gert og raunar vissi ég að það stæði til að setja á stofn kvennafangelsi í Kópavogi, hafði fengið upplýsingar frá hæstv. dómsmrh. um það áður.

En ég verð í framhaldi af þessu að segja að frá því að öryggisálman á Litla-Hrauni var reist, og það var í kjölfar, eins og ég minntist á áðan, svokallaðs Guðmundar- og Geirfinnsmáls, hefur lítið eða ekkert verið gert í að bæta fangelsin nema það að reist var á síðasta ári, að mig minnir, aðstaða fyrir forstjóra fangelsisins á Litla-Hrauni, skrifstofa. Er það ekki rétt? Það er alla vega ekki hægt að merkja að nokkuð hafi verið gert í þessu. En ég fagna því að sjálfsögðu og veit að hugur hæstv. dómsmrh. er góður í þessum málum og hann hefur sýnt það á þingi að hann ætlar að vinna að þessum málum á næstu árum. Það er meira en sagt verður um forvera hans í starfi.

Ég er ekki meðmæltur því að byggt verði stórt fangelsi. Ég held einmitt að litlu fangelsin séu líklegri til að ná árangri. Það hefur sýnt sig um fangelsið á Kvíabryggju að þeir sem þar gista hafa skilað sér miklu betur út í þjóðfélagið en þeir sem koma af Litla-Hrauni. Kannski er hluti af skýringunni sá að það eru valdir þangað menn sem ekki eru hættulegir umhverfi sínu og sem ekki hafa drýgt mjög alvarleg brot. Ég vil að það komi skýrt fram að ég er ekki að mælast til þess að það verði byggt stórt fangelsi og þaðan af síður að byggt verði það fangelsi sem sagt er fyrir um í gömlu lögunum um ríkisfangelsi.

En ein af mínum spurningum var varðandi heildarstefnu í afbrotamálum, „kriminalpolitik“ á dönsku. Ég veit ekki hvernig á að þýða það á íslensku. Ég minntist á að þetta ætti að vera frá því að rannsókn byrjar og þangað til maðurinn megi teljast nýtur þjóðfélagsþegn og allt þar á milli og ekki síður það sem gerist eftir að afplánun lýkur. Oft og tíðum er það einmitt stærsti þátturinn í því að maðurinn lendi ekki út á sömu braut aftur. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér mun vera 60% endurkoma í fangelsi. Ég held að það nái til allra fangelsa. Það er mjög stórt hlutfall og segir manni að ef á að gera eitthvað í þessum málum megi byrja á að athuga þá fanga sem nú eru þar. Ef það eru 60% líkur á að fangi sem fer út lendi í afbrotum aftur og það eru innan við 500 sem gista þar mætti taka þá til betri meðferðar en hingað til.

Sú spurning um eyðni sem ég setti fram var að gefnu tilefni þegar hæstv. dómsmrh. minntist á að það þyrfti að vera heimild í lögunum til blóðtöku og slíks. Þessi kvittur hefur komist á kreik og hef ég ekki neinar beinar upplýsingar um það, en það var fullyrt í mín eyru að svo væri. Það kom í Ijós, að vísu eftir að afplánun hafði lokið, að einhver fanginn hefði verið haldinn þessum sjúkdómi. En ég get ekki fullyrt neitt um það.

En ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég held að frv. sé til mikilla bóta og í flestum atriðum er ég sammála því og vona að þetta mál verði tekið sem fyrst fyrir í allshn., þar sem ég á sæti, og lýsi því yfir að ég mun stuðla að því að frv. verði samþykkt hafi ég eitthvað um það að segja.