03.02.1988
Neðri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4169 í B-deild Alþingistíðinda. (2929)

211. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 406 um breytingu á lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. lög nr. 38/1987. Flm. auk mín eru hv. þm. Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.

Frvgr. eru einungis tvær og hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. mgr. 25. gr. laganna orðist svo:

Útsvar skal vera ákveðinn hundraðshluti af tekjum hvers almanaksárs, en má þó eigi vera hærra en 7,5% af tekjum manna með allt að 2 500 000 kr. á ári og allt að 9% af tekjum manna með yfir 2 500 000 kr. á ári.

2. gr.: Lög þessi taka gildi 1. janúar 1988.“ Þetta frv. var lagt fram í desember á síðasta ári í tengslum við afgreiðslu tekjuskattslaganna, en ekki gafst tími til að mæla fyrir því þá. 2. gr. þarfnast að sjálfsögðu breytinga með tilliti til rásar tímans, en ég sá ekki ástæðu til að leggja fram formlega brtt. Þörfin liggur í augum uppi.

Í grg. með frv. á þskj. 406 er í örstuttu máli skýrður tilgangur þessa frv. og vil ég nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa grg.:

„Samkvæmt núgildandi lögum er innheimt útsvar ákveðinn hundraðshluti af tekjum og gildir þá einu hvort um háar tekjur eða lágar er að ræða. Sama er um tekjuskattinn; núgildandi lög kveða á um eina og sömu skattprósentu á háar tekjur sem lágar.

Kvennalistinn telur eðlilegt að beita skattalögum til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu og leggur því til að skattþrepin verði tvö bæði við álagningu útsvars og tekjuskatts. Á þskj. 405 er gerð brtt. við 179. mál Nd., frv. um breytingu á tekjuskattslögunum. Tillagan felur það í sér að greiddur verði 33% skattur af hæstu tekjum, þ.e. af tekjuskattsstofni yfir 2 500 000 kr. á ári. Frv., sem hér er fram borið, gerir svo ráð fyrir að útsvar af hæstu tekjum geti orðið allt að 9%. Samtals gæti því álagning á hæstu tekjur orðið 42%, en samanlagður tekjuskattur og útsvar á tekjur þar fyrir neðan getur numið allt að 36% skv. ákvæðum núgildandi laga.“

Lengri er grg. ekki og segir að mestu það sem segja þarf. Þessi síðustu orð kunna þó e.t.v. að misskiljast því að samkvæmt ákvæðum núgildandi laga getur samanlagður tekjustofn og útvar numið allt að 36% á allar tekjur, en ef frv. yrði samþykkt eins og það er fram borið svo og gerðar þær breytingar á tekjuskattlögunum sem við lögðum til, þ.e. að 33% álagning yrði á tekjur yfir 2,5 millj. á ári. væri útkoman sú sem segir í niðurlagsorðum grg. Þarna var sem sagt e.t.v. ekki nægilega skýrt að orði kveðið, enda vinnubrögðin ekki með fágaðasta móti þær vikur sem þessi mál voru til umfjöllunar hér fyrir hátíðar.

Vafalaust er óþarfi að minna hv. þm. á að þetta ár, hið fyrsta í staðgreiðslu, er innheimt útsvar, í sameiginlegri innheimtu tekjuskatts og útsvars, 6,7% samkvæmt boði félmrh. í reglugerð. Samtals er því tekjuskattur og útsvar í ár reiknað 35,2% en gæti orðið lögum samkvæmt allt að 36% ef útsvarsprósenta væri nýtt til fulls. Þetta er þm. að sjálfsögðu ljóst, en sakar ekki að minna á það.

Í grg. er vísað til brtt. okkar kvennalistakvenna við tekjuskattslögin sem því miður var felld við afgreiðslu málsins í desember sl. Enda þótt svo færi og þó að sú till. og þetta frv. séu í raun og veru samtengd vildum við fá þetta frv. rætt á þingfundi og teljum mjög mikilvægt að fá um það umsagnir sveitarstjórna og launafólks. Það er svo að okkar mati sjálfgefið að í framhaldi af slíkri umfjöllun yrðu tekjuskattslögin endurskoðuð. Við erum að sjálfsögðu enn þeirrar skoðunar að tekjuskattsþrepin eigi að vera a.m.k. tvö.

Það er síðan matsatriði hvar mörkin eiga að liggja og hverjar prósenturnar eiga að vera. Við viljum hafa mörkin nokkuð há og má sjá af þessu frv. að það er okkar meining, þannig að það sé raunverulega verið að tala um hátekjur því við sjáum enga ástæðu til þess að þrengja að fólki með skattlagningu þótt það hafi tekjur fram yfir það sem þarf til nauðþurfta og kannski rúmlega það. Hins vegar má alltaf skoða það og ræða við hvað er rétt að miða. Við setjum mörkin við 2,5 millj. kr. á ári sem gefa þá rúmlega 200 þús. kr. á mánuði og þykir vafalaust mörgu láglaunafólki það mikið. En ég endurtek og undirstrika að við viljum miða við raunverulegar hátekjur.

Margir eru andvígir þrepaskiptingu í skattlagningu og leggja mikla áherslu á gildi einföldunar. Vissulega eru það góð og gild rök. Það er æskilegt að mínu mati að hafa skattalögin sem einföldust og þannig að hver maður eigi auðvelt með að skilja skattalögin og geti sjálfur áttað sig á sínum skyldum og úr hverju hann hefur að spila fyrir sig og sína. En einföldunin má ekki verða á kostnað annarra jafnmikilvægra eða mikilvægari þátta. Einföldun er góð ef réttlætið er við hennar hlið. Skattlagning hæstu tekna er réttlætismál. Það er verið að taka á óréttlátri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og það er verið að tylla svolítið þyngri skjatta á herðar þeirra sem eru með breiðustu bökin.

Slík skattlagning hæstu tekna hefur auk þess aðra kosti. Það er mikið talað um nauðsyn þess að draga úr þenslu, draga úr kaupmætti, draga úr einkaneyslu og til þess eru beinu skattarnir máttugri en þeir óbeinu. Skattlagning hæstu tekna umfram aðrar dregur úr kaupmætti hæstu tekna og verkar þar með á þenslu og einkaneyslu.

Það þarf varla að segja það sem neina frétt að vitaskuld er hér um tekjuöflun að ræða í hina sísvöngu sjóði hins opinbera. Þær tekjur sem hér um ræðir mundu samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar gefa sveitarfélögum u.þ.b. 300 millj. kr. á ári á núvirði og ef gerðar yrðu þær breytingar á tekjuskattslögunum sem við lögðum til gæfu þær ríkissjóði um 300 millj. kr. eða samtals um 600 millj.

Við erum hins vegar ekkert í vandræðum með að finna farveg fyrir þær tekjur því við viljum auðvitað nýta þær í þágu hinna tekjulægstu. Við lögðum það til við umfjöllun og afgreiðslu tekjuskattslaganna að það svigrúm sem till. fælu í sér yrði notað til að hækka skattleysismörk einstaklinga og það er kannski ástæða til að minna á það hér að einmitt slík aðgerð er meðal þess sem rætt er um að unnt væri að gera af hálfu ríkisvaldsins til að greiða fyrir samningum.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um frv. Það hefur svo margt verið sagt um þessi mál og okkar afstaða ætti að vera orðin kunn. Ég sé því ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að svo stöddu, en legg til að svo mæltu og að lokinni þessari umræðu að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.