04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4194 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

218. mál, staða ullariðnaðarins

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Iðnrn. lét gera skýrslu um stöðu ullariðnaðarins í nóvember á sl. ári. I framhaldi af þeirri skýrslugerð hefur iðnrn. ásamt aðilum í ullariðnaði beitt sér fyrir ýmsum aðgerðum sem styrkt geta stöðu greinarinnar.

Veigamesta ástæðan fyrir slæmri afkomu í ullariðnaði á árinu 1987 voru miklar innlendar kostnaðarhækkanir. Laun hækkuðu þá um 40–50% og hráefni um 24–28%. Þessar hækkanir voru talsvert umfram verðbólgu, en hún er talin hafa verið 24,3% frá upphafi til loka sl. árs.

Á nýbyrjuðu ári eru horfur í ullariðnaði heldur betri hjá þeim aðilum sem selja til Vesturlanda en í nóvember þegar skýrsla ráðuneytisins var gefin út. Þetta stafar fyrst og fremst af því að útflytjendur ullarvöru undirbúa nú verulegar verðhækkanir. Þannig er gert ráð fyrir að Álafoss, sem er langstærsti framleiðandinn, hækki vöru sína um 20–40% á þessu ári. Takist útflytjendum ullarvöru að selja á þessu verði gefur það fyrirheit um bjartari framtíð. Það er þó skilyrði þeirrar þróunar að innlendar kostnaðarhækkanir verði ekki verulegar.

Samkvæmt skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Boston Consulting Group, sem gerði úttekt á stöðu ullariðnaðarins hér á landi á sl. ári, hafa íslenskar ullarvörur staðið í stað eða beinlínis lækkað í verði á vestrænum mörkuðum meðan verð sambærilegra afurða frá öðrum löndum hefur hækkað. Sem dæmi má nefna að frá árinu 1982 til ársins 1987 hefur útflutningsverð í dollurum til Bandaríkjanna lækkað úr 58 dollurum pr. kg í um það bil 451/2 dollar, en það er 21,5% lækkun á þessu fimm ára tímabili. Til að skýra þessa verðlækkun má benda á mörg atriði, en eflaust á skortur á vöruþróun og markaðssetningu annars vegar og undirboð íslenskra framleiðenda hins vegar á erlendum mörkuðum einhvern þátt í þessari þróun.

Með nýrri hönnun, markaðsátaki og ákvörðun um hærra verð hefur vonandi verið stigið fyrsta skrefið til að bæta rekstrarstöðu ullariðnaðarins.

Nokkur fyrirtæki hafa selt til Sovétríkjanna á undanförnum árum og sum fyrirtæki eru að verulegu leyti háð Sovétviðskiptum í starfsemi sinni. Fyrir skömmu komu fulltrúar hins nýja Álafoss hf. til landsins eftir árangurslausa ferð til Sovétríkjanna. Mikið ber á milli kaupenda og seljenda en verð á íslenskum prjónavörum í Sovétríkjunum hafa farið lækkandi á undanförnum árum.

Ástæðulaust er að rekja þau atriði sem fram komu í skýrslu iðnrn. Þau horfa sum hver að fyrirtækjunum sjálfum og samstarfi þeirra til að bæta rekstrarstöðu fyrirtækja í ullariðnaði. Ég mun hér geta nokkurra aðgerða sem stjórnvöld hafa þegar gripið til eða hyggjast gera á næstunni.

Í fyrsta lagi. Í nóvember sl. óskaði iðnrn. eftir því við lánastofnanir, þ.e. viðskiptabanka, Byggðasjóð og lánasjóði iðnaðarins, að þær tækju tillit til rekstrarstöðu ullariðnaðarins varðandi skuldbreytingar og lánafyrirgreiðslu eins og þær gætu ýtrast innan sinna starfsreglna. Tekið var vel í þessa beiðni ráðuneytisins.

Fyrir skömmu átti ég annan fund með fulltrúum Iðnþróunarsjóðs og Iðnlánasjóðs sem eru helstu lánasjóðir iðnaðarins og var þá farið yfir stöðuna og tilmæli ráðuneytisins ítrekuð.

Í öðru lagi vil ég geta þess að ráðuneytið hefur beint þeim tilmælum til viðkomandi sveitarfélaga að þau felli niður aðstöðugjöld hjá þeim ullarfyrirtækjum sem eiga í verulegum rekstrarerfiðleikum eða jafni gjaldtöku af útflutningsfyrirtækjum án tillits til þess hvað framleitt er.

Í þriðja lagi hefur iðnrn. farið þess á leit við fjmrh. að tekin verði upp endurgreiðsla á söluskatti til erlendra ferðamanna við brottför héðan. Vitað er að verulegur hluti þess varnings sem erlendir ferðamenn kaupa hér á landi eru ullarvörur. Í nálægum löndum tíðkast þessi háttur og má sérstaklega geta fyrirgreiðslu við ferðamenn í Glasgow.

Í fjórða lagi er nú verið að safna upplýsingum um skuldastöðu fyrirtækja í ullariðnaði við ríkissjóð til að undirbúa könnun á því hvort hugsanlegt sé að skuldbreyta opinberum gjöldum vegna yfirstandandi rekstrarerfiðleika fyrirtækja í þessari grein. Fordæmi eru fyrir slíku þegar erfiðleikar urðu í fiskvinnslu fyrir nokkrum árum.

Í fimmta lagi má benda á að stjórnvöld aðstoðuðu aðila vinnumarkaðarins við umfangsmikil starfsþjálfunarnámskeið í fataiðnaði sem verulegur þorri starfsmanna í greininni sótti. Námskeiðið þótti takast vel og var liður í að auka og styrkja samkeppnishæfni fataiðnaðarins.

Í sjötta lagi vil ég geta þess að nokkrir smærri framleiðendur í ullariðnaði hafa kynnt fyrir ráðuneytinu hugmyndir um að efla enn frekar sölustarfsemi á erlendum vettvangi þar sem ljóst er að Álafoss hf. getur ekki tryggt öllum smærri aðilum nægjanleg verkefni í framtíðinni.

Í sjöunda lagi hef ég kynnt umsjónarmönnum Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs áform mín um að fara þess á leit við þá að gerð verði úttekt á rekstrarmöguleikum minni fyrirtækja í greininni. Hugmynd þessari var vel tekið, en þess skal getið að mörg minni fyrirtækjanna munu lenda í auknum vandræðum vegna minni umsvifa stóru fyrirtækjanna því að þau hafa verið verktakar hjá þeim.

Að lokum vil ég geta þess að ég hef beðið viðskrh. um að tína saman upplýsingar um viðskipti Íslands og Sovétríkjanna í því skyni að þær geti skapað grundvöll fyrir að kannað verði hvort jafna megi þann gífurlega halla sem nú er á viðskiptum við Sovétríkin. Það hlýtur að vera augljóst verkefni íslenskra stjórnvalda að auka útflutning til Sovétríkjanna eða draga saman innflutning þaðan og beina þeim inn á þær brautir sem skapað geta viðskiptasambönd fyrir íslenskan útflutning. Ætla má að hinn mikli fjöldi sovéskra starfsmanna í sendiráðinu sé skýrður með miklum viðskiptum á milli landanna. Með minnkandi viðskiptum verður vart annað séð en fækka megi starfsliði sendiráðsins. (Gripið fram í.) Það hefur verið áhugamál fyrirspyrjanda og þess vegna er þetta tekið fram hér.

Eins og heyra má hefur margt verið gert og annað hefur ríkisstjórnin á prjónunum. Auk þess hafa fyrirtækin sjálf lagt hart að sér til að laga stöðuna. Þrátt fyrir allt þetta og bjartari horfur en á sl. ári er langt frá því að rekstrargrundvöllur greinarinnar sé tryggur og þar með atvinnuöryggi um það bil 1000 manns.