04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4196 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

218. mál, staða ullariðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans en ekki fannst mér að þau bæru vott um að þarna væri von á átaki af hálfu stjórnvalda til þess að bæta þá mjög alvarlegu stöðu sem uppi er í þessari grein, þó vissulega mismunandi eftir fyrirtækjum. Það sem hæstv. ráðherra nefndi hér voru ein sjö atriði, og eitt af því var að fara fram á það við sveitarfélög að þau felli niður aðstöðugjöld. Á sama tíma og svona tilmæli eru fram borin leggur ríkisstjórnin það til við Alþingi og fær það samþykkt hér að leggja 1% launaskatt á fyrirtæki í iðnaði. Þetta var gert fyrir jólin og það var glaðningurinn frá ríkisstjórninni og hennar liði hér á Alþingi til þessarar greinar.

Ég vil einnig benda á það í sambandi við fyrirgreiðslu sjóða iðnaðarins að hún er fyrst og fremst við Álafoss. Að yfirgnæfandi meiri hluta við þetta eina, vissulega stóra, fyrirtæki í ullariðnaðinum. Minni fyrirtækin í ullariðnaði hafa ekki notið mikillar fyrirgreiðslu frá lánasjóðum og eigendur þeirra, sveitarfélög og ýmsir aðilar úti um landið, hafa ekki aðeins veðsett fyrirtækin, byggingar og vélar, heldur einnig persónulegar eignir til þess að reyna að fá lán út á veðsetningar. Það er því mjög þýðingarmikið að þessum fyrirtækjum gefist kostur á áhættulánum að vel athuguðu máli. Ég held að það sé mjög þýðingarmikið, ef menn í raun ætla að leiðrétta stöðu þessarar greinar, að það verði gert með skipulegum hætti að veita fyrirtækjunum kost á áhættulánum.

Hæstv. ráðherra nefndi hér sem ástæðu fyrir erfiðleikum í ullariðnaði launin, og í viðtali við Morgunblaðið 9. jan. sl. talaði hann um launakostnaðinn sem einn meginþátt þess vanda sem við er að etja í ullariðnaði. Veit hæstv. ráðherra hvaða laun eru greidd í fyrirtækjunum í ullariðnaði? Það eru rösk 30 þús. kr. og með 20% ábót kemst það t.d. í fyrirtæki sem ég þekki úr mínum fjórðungi upp í 38 þús. kr. Þetta eru sem sagt laun á bilinu 30–40 þús. kr. í fyrirtækjunum.

Herra forseti. Um þetta mætti margt fleira segja. Tíma hef ég ekki til að bæta hér miklu við. En ég gagnrýni það hversu stjórnvöld hafa verið sofandi í þessum málum. Einnig að fylgjast með verðþróun á erlendum mörkuðum. Þar hefur ekki verið fylgst með af útflytjendum eins og ástæða væri til. Áreiðanlega hefði verið hægt að hafa þessa stöðu skárri en hún er í dag, ef menn hefðu tekið við sér á réttum tíma að verðleggja þessar afurðir með eðlilegum hætti.