04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4197 í B-deild Alþingistíðinda. (2942)

218. mál, staða ullariðnaðarins

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa orðið um þessa fsp. og svarið. Í fyrsta lagi vil ég geta þess varðandi athugasemd um launaskatt að það sem skiptir útflutningsiðnaðinn og iðnaðinn mestu máli er að það sé jafnræði á milli sjávarútvegs og iðnaðar varðandi álagningu launaskatts. Það náðist fram og það er ekki verulegt vandamál að greiða 1% launaskatt, en aðalatriðið var að það yrði jafnræði á milli útflutningsgreinanna. Í bréfi mínu til sveitarstjórnanna var mest gert úr því að það yrði líka jafnræði hvað varðaði álagningu aðstöðugjalds á fyrirtæki og væri þá ekki verið að horfa í það hvort fyrirtækin framleiddu fisk eða prjónavörur til útflutnings. Líta bæri á þetta sem jafngilda framleiðslu sem ætti að borga í sama hlutfalli til sveitarfélagsins.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að Álafoss, hið nýja fyrirtæki sem er samsett úr gamla Álafoss og SÍS, er langsamlega stærsti skuldarinn hjá Iðnþróunarsjóði. Líklega á þetta fyrirtæki yfir 80% af skuldinni og reyndar líka hjá Iðnlánasjóði þó að það séu heldur lægri upphæðir sem þar er skuldað, en á móti kemur að skuldir minni fyrirtækjanna virðast vera aðallega í bankakerfinu og hjá Byggðasjóði að mestum parti.

Þá kem ég að laununum. Ég sagði hvergi, og ég vil taka það mjög skýrt fram, ég sagði hvergi í minni ræðu að laun væru of há í greininni. Það sem ég sagði hins vegar, og vil taka mjög skýrt fram, er það að launin hækkuðu í greininni um 40–50% á meðan verðbólga í landinu var um helmingi lægri tala. Þetta þýðir auðvitað það að launin voru ákaflega lág. Og það var eitt af því sem gerði það að verkum að þessi fyrirtæki gátu gengið, það var vegna þess að þetta var láglaunaiðnaður. Ég hef ekki beðið um það eða lagt til að til þess tíma verði horfið á ný. Ég hef hins vegar bent á að ef það á að vera einhver framtíð í þessum iðnaði verður verð á erlendum markaði að hækka. Það eitt getur komið í veg fyrir hrun í þessari grein.

Ég vísa þess vegna gagnrýni hv, fyrirspyrjanda algjörlega á bug. Ég tel að stjórnvöld hafi gripið til þeirra aðgerða sem hægt er. Það er ekki hægt að kenna stjórnvöldum um að hafa ekki fylgst með verði erlendis. Það sem fyrst og fremst snýr að okkur eru Sovétsamningarnir sem gerðir eru á milli ríkjanna. Og það er auðvitað hörmulegt til þess að vita ef ekki verður hægt að ná samkomulagi við Sovétmenn nema um kannski tíunda hluta þess sem nefnt er í sjálfum aðalviðskiptasamningnum.

Að allra síðustu vegna orða hv. síðasta ræðumanns vil ég segja það að fjármagnskostnaður er auðvitað ekki mikill í þessari grein hvað varðar afurðalán, en þegar hallarekstur byrjar og grípa þarf til bráðabirgðalána, þá að sjálfsögðu verður greinin að borga sömu vexti og aðrir sem búa í landinu.