04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4198 í B-deild Alþingistíðinda. (2943)

218. mál, staða ullariðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna umræðna um sölusamninga við Sovétríkin — sem vissulega skipta mjög miklu, ekki síst vegna þess að ef Álafoss ekki nær þessum samningum þá eru horfur á að verkefni þrjóti fyrr en varir hjá þeim sem þó hafa einhver verkefni, hafa haft það út á þessi viðskipti. Þess vegna tel ég að stjórnvöld hefðu átt fyrir nokkru síðan a.m.k. að taka upp þráðinn með þeim aðilum sem eru að semja við Sovétríkin því hæstv. ráðherra virðist þó hafa skilning á því að það hljóti að vera verkefni stjórnvalda. Það er löngu ljóst hvert stefndi í þessu, að þarna gat orðið um hnút að ræða. Ég tel að það megi ekki dragast að stjórnvöld taki á þessu máli og minni í því sambandi á saltsíldarsamningana sl. haust þar sem íslensk stjórnvöld komu inn í það mál, væntanlega með verulegum árangri miðað við þá niðurstöðu sem varð.