27.10.1987
Sameinað þing: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

Stefnuræða forsætisráðherra

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Er ég heyrði stefnuræðu forsrh. rifjaðist upp fyrir mér lýsing sölumanns nokkurs á bíl sem ég ætlaði að kaupa. Af orðum þessa sölumanns að skilja átti bíllinn að vera búinn ákveðnum kostum og vera sem nýr og það áttu að vera hin bestu kaup að fjárfesta í þessum vagni.

Þegar nánar var að gáð kom í ljós að bíllinn var meira og minna ónýtur. Ryðblettir voru hér og hvar undir lakkinu sem sprautað hafði verið yfir til að fela ryðið. Þá kom í ljós að bíllinn gekk ekki á öllum kertunum og stýrisendar og legur voru í ólagi. Bíllinn hafði heldur ekki verið smurður lengi og rafkerfið var í megnasta ólestri.

Ástand þessa bíls lýsir vel núverandi ríkisstjórn. Allt virðist slétt og fellt á yfirborðinu, eins og ráðherrann hefur lýst hér, en þegar betur er að gáð koma fram ýmsir brestir.

Í síðustu viku var gerð tilraun til að hreinsa þetta ryð úr stjórnarsamstarfinu, en kom þá í ljós að á mörgum stöðum var það komið í gegn. Þrátt fyrir það var reynt að skrapa það upp og spartla þannig að stjórnin liti vel út þegar stefnuræðan yrði flutt.

Það hefur líka sýnt sig að gangtruflanir eru tíðar og segja má að bíllinn hafi verið óökufær í mestallt sumar. Andrúmsloftið hefur verið rafmagnað og sló Útvegsbankamálið út og sýndi hve grunnt er á því góða milli stjórnarflokkanna og hve lítið loft er í dekki hæstv. viðskrh. Hins vegar má segja um annan alþýðuflokksráðherra, hæstv. fjmrh., að of mikið loft sé í hans dekki þannig að varasamt er að keyra bílinn áfram vegna hættu á að dekkið springi og bíllinn fari út af veginum.

Þegar hlýtt er á stefnuræðu forsrh. er það áleitin spurning hvort ekillinn er að taka vinstri eða hægri beygju og hvort hann er að leiða þjóðina til gæfu eða glötunar. Það verður að segjast að það er háskalegt ökulagið sem hann sýnir þjóðinni ef honum tekst að ná því fram sem hann er að boða með skattpíningarstefnu sinni.

Í stefnuræðu forsrh. kemur aðeins óljóst fram hvert ferðinni er heitið og hvergi er minnst á það í hvaða gír keyra á „braggann“ eða hvenær ferðin skuli hafin. Hið eina sem er ljóst er að rekstrarkostnaðurinn er mjög mikill og búið er að tryggja að hinn almenni launþegi borgi þá hættuför sem fyrirhuguð er. Það hafa þeir gert þeir þrír sem sitja í framsætinu og einnig hinir átta sem hafa troðið sér í aftursætið. Hins vegar eru háværar raddir úr aftursætinu um ferðaáætlunina, hver kostnaður má vera við hverja ferð og hvaða staðir eru heimsóttir. Sérstaklega er hæstv. landbrh. óhress með þá stefnu sem honum er ætlað að framfylgja. Hann getur hvorki hugsað sér að minnka kjötfjallið né draga úr smjörfjallinu.

Afstaða landbrh. er ekkert einsdæmi. Hvar sem borið er niður sjáum við sama vandræðaganginn. Viðskrh. getur ekki gert upp hug sinn varðandi sölu á Útvegsbankanum. Félmrh. fær ekki stuðning við nýja húsnæðislánafrv. sitt. Utanrrh. fær ekki frið að greiða atkvæði með frystingu kjarnorkuvopna. Samgrh. getur ekki samið við heimamenn á Egilsstöðum um flugvallarbyggingu. Sjútvrh. getur ekki myndað nýja fiskveiðistefnu. Fjmrh. getur hins vegar boðað matarskatt í óþökk almennings. Aðrir ráðherrar hafa passað sig á því að gera ekki neitt.

Forsrh. ætti við fyrstu sýn að vera nokkur vorkunn að leiða ríkisstjórn sem ekki er hæf til að taka á málum, en þegar betur er að gáð mátti hann vita að ekki næðist samstaða um eitt eða neitt þegar við fæðingu þessarar stjórnar. Því er það ábyrgðarleysi af hans hálfu gagnvart þjóðinni að lengja lífdaga hennar öllu lengur því hún er alls ófær að njóta trausts þjóðarinnar á þeim viðsjárverðu tímum sem í hönd fara. Ríkisstjórnin er búin að glata því tækifæri sem hún hafði til að koma góðærinu inn á heimilin í landinu og nú blasir við stöðnun og harðvítugar deilur á vinnumarkaðnum. Fólkið í landinu krefst þess að þeir sem makað hafa krókinn síðustu árin taki þátt í samneyslunni og standi undir kostnaðinum við þá hættuför sem forsrh. hyggst nú leggja í. Þessi ferð er ekki skipulögð með hagsmuni heildarinnar í huga heldur einstakra fárra og valdamikilla hagsmunahópa.

Góðir landsmenn. Borgaraflokkurinn var stofnaður sem brjóstvörn einstaklingsins. Borgaraflokkurinn stendur með einstaklingnum hvar sem einstaklingurinn þarf að heyja baráttu sína gagnvart kerfinu — ríkisvaldinu — eða þar sem ofríki eða ofstjórn eru í frammi höfð.

Borgaraflokkurinn. á samleið með þjóðinni og þörfum hennar og þess vegna mótmælir Borgaraflokkurinn ákveðið og einarðlega aðför þessarar ríkisstjórnar að almenningi í landinu og hagsmunum hans